21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

54. mál, fjárlög 1979

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það er vissulega rétt, að dagurinn í dag hefur verið sögulegur á Alþingi. Vikurnar að undanförnu hafa verið það líka. Jafngreindur þm. og hæstv. fyrrv. menntmrh., 2. þm. Austurl., man ekki úr sögu þingsins daga sem þessa né hefur heldur heyrt þeirra getið, og við vitum að hann er vel lesinn maður. Það er svo komið í kvöld, að þeir þm. alþfl., sem tala, vita ekki um hvað þeir raunverulega eru að tala, svo ruglaðir eru þeir orðnir.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, 4. þm. Vestf., sem síðastur talaði, benti á að hv. 8. þm. Reykv., Ellert B. Schram, hefði flutt till. um skattvísitölu og nú væri hann kominn með aðra till., eins og hann hefði ekki hugmynd um hvað hann væri að gera. Till. þá, sem hv. 8. þm. Reykv. flutti áðan, eftir að þm. Alþfl. höfðu gefist upp enn einu sinni og dregið till. sína til baka, flutti þm. sem varatillögu — tillögu um skattvísitöluna 151 stig fyrir árið 1979 miðað við 100 stig 1978. Hér liggur þskj. fyrir, fengið úr hendi forseta, og stendur þar: „Varatill. við till. á þskj. 304, 5. tölul.“ Ég hef ekki fleiri orð um það.

Hins vegar kvartaði hv. þm. mjög yfir þeim fjölda ræðumanna úr röðum Sjálfstfl. sem hér hefðu talað í kvöld. Hann sagði að vísu að þeir hefðu staðið sig allir með prýði. Það gera þeir alltaf. Hann hafði hins vegar búist við því, að það yrði ekki nema einn maður á vakt í kvöld, eftir því sem hann hafði lesið einhvers staðar í blöðum að samþykkt hefði verið í þingflokki Sjálfstfl., að þeir skiptu vaktinni á milli sín — það gæti kannske farið svo að það yrði ekki nema einn á vaktinni. Hann varð auðheyranlega fyrir vonbrigðum og kvartaði sáran yfir þeim fjölda þm. Sjálfstfl. sem leyfði sér að koma hér í kvöld og ræða fjárlagafrv. og þau óvenjulegu vinnubrögð sem þar hafa verið viðhöfð undanfarnar vikur af hálfu þm. Alþfl. Hann verður að þola vonbrigði sín. Þeir, sem stofna til slíkra fundarhalda, slíkra vinnubragða, verða auðvitað að gera sér grein fyrir því, að það verður á þau minnst. Menn, sem hafa frammi fyrir þjóðinni gagnrýnt störf alþm. og störf ýmissa embættismanna og talið sig vera til þess kvadda að dæma um gerðir þeirra, verða þegar þeir sjálfir fá tækifæri til að sýna hvernig þeir vilja haga málunum, að standa ábyrgir gerða sinna og búast við því, að þeir fái gagnrýni eins og þeir hafa leyft sér að gagnrýna aðra.

Erindi þessara þriggja Alþfl.-manna upp í ræðustólinn áðan, með „stælum“ og ekki „stælum“, var að segja þingheimi, segja þjóðinni frá því, að enn einu sinni hefðu þeir orðið undir og það væri einhvern veginn svona, sagði hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason: Kommarnir komast upp með allt, en við Alþfl.-mennirnir ekki. — Er ekki einmitt þarna sagður sannleikurinn í þessu öllu saman, sem við sjálfstæðismenn höfum verið að segja hér á þingi, að Alþb. hefur ráðið ferðinni og Alþfl. hefur beygt sig? Þegar hv. 7. þm. Reykv. hafði sagt þetta áðan, þá stóð upp prófessorinn í stjórnmálafræði, eins og hv. 7. þm. Reykv. nefnir hann gjarnan þegar hann talar við hann í sölum Alþ., og lagði blessun sína yfir það sem Alþfl.-mennirnir höfðu gert, þ.e.a.s. dregið till. til baka, beygt sig í duftið og sagt: Þið, herrar mínir, ráðið áfram ferðinni. — Þeir höfðu að vísu fengið ágætan leiðarvísi fyrr í kvöld frá hv. 1. þm. Reykv., Albert Guðmundssyni, og hann hafði að sjálfsögðu með ábendingu sinni hjálpað þeim örlítið til þannig að þeir gætu fyrr afgreitt málin. Hann lagði eindregið til við þá, að þeir drægju þessar till. sínar til baka þannig að það sæist til hvers sjónarspilið hefði verið sett á svið.

Það er öllum ljóst, að það vandamál, sem íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir, er af nokkuð öðrum toga spunnið en þau sem þurft hefur að glíma við á undanförnum þremur áratugum. Baráttunni um yfirráðarétt okkar yfir auðlindum hafsins í kringum landið er að mestu lokið og þar tókst okkur að sigra. Í því máli þurftum við fyrst og fremst að kunna fótum okkar forráð. Þá er og ljóst að mikill meiri hluti þjóðarinnar er nú einhuga um samstarf við vestrænar lýðræðisþjóðir. Það viðfangsefni, sem erfiðlegast hefur gengið að leysa og nú er komið á það stig að ekki verður undan því vikist, er sú verðbólga sem haft hefur veigamikil áhrif á allt þjóðlíf okkar á þessum áratug. Orsakanna er fyrst og fremst að leita hjá okkur sjálfum, því að okkur hefur ekki tekist að koma okkur saman um innbyrðis skiptingu afraksturs þjóðarbúsins og miða kröfur okkar við það sem til skipta er. Þessar óhóflegu kröfur hafa leitt til skuldasöfnunar erlendis og stór hluti fjárfestingar í landinu hefur stjórnast af þessu ástandi. Kröfur um arðsemi, sem gera verður til slíkra hluta, hafa verið að litlu eða engu hafðar. Samskipti manna hafa að mörgu leyti einkennst af þessum ytri skilyrðum. Og nú er svo komið að menn haga sér eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni. Naumast verður hægt að halda áfram á þessari braut öllu lengur. Því er það verkefni þeirra aðila, sem með völdin fara í landinu, að leiða þjóðina af þessari óheillabraut.

Spyrja má hvort þjóðin geti nú vænst forustu frá þeim öflum sem fara með stjórn landsmála. Getu- og ráðleysi núv. hæstv. ríkisstj. og þess liðs, sem stendur að baki henni, ríður ekki við einteyming, eins og síðustu dagarnir hér á Alþ. sýna, og því er ekki að vænta neinnar forustu frá þessum aðilum.

Ef litið er til baka og athugað inntak þeirra pólitísku umr. sem fram hafa farið í landinu á þessu ári kemur í l jós að sá áróður, sem átti upptök sín í herbúðum Alþb. og Alþfl. fyrr á árinu, að þáv. ríkisstj. væri með efnahagslögunum í febrúar og maí að svipta launafólki hlut þess í afrakstri þjóðarbúsins, náði tilætluðum árangri. Þá er og ljóst að liðsmenn núverandi stjórnarflokka innan verkalýðsforustunnar voru notaðir til þess að beita verkalýðshreyfingunni í heild gegn þeim ráðstöfunum sem fyrrv. ríkisstj. gekkst fyrir með lögunum frá því í febr. og í maí. Þessi blekkingaáróður náði til fjölmargra aðila. Í kosningunum unnu þessir flokkar umtalsverðan kosningasigur sem byggðist fyrst og fremst á slagorðinu „samningana í gildi“ til þess að brjóta niður þær ráðstafanir sem Alþ. og fyrrv. ríkisstj. höfðu ákvarðað til að vinna gegn verðbólgunni.

Úrslit kosninganna fólu í sér, að þeir aðilar, sem unnu kosningasigur, tækju við stjórnartaumum og fengju tækifæri til að efna þau kosningaloforð sem sigur þeirra byggðist á. Það er ekki óeðlilegt nú, 6 mánuðum eftir kosningar, 4 mánuðum eftir að Alþfl. og Alþb. tóku sæti í ríkisstj., er þeir standa að sinni fyrstu fjárlagagerð, að spurt sé: Hvernig hefur þessum aðilum tekist að standa við stóru loforðin? Tvisvar á tæpum fjögurra mánaða starfsferli sínum hefur hæstv. ríkisstj. þurft að svíkja stóru kosningaloforðin um „samningana í gildi“, með þeim efnahagsaðgerðum sem hún beitti sér fyrir í septembermánuði og nóvembermánuði s.l., og ekki er séð annað en áfram verði haldið á sömu braut á árinu 1979. A.m.k. hefur ekki staðið í stjórnarflokkunum s.l. daga að auka skattheimtu á næsta ári um 25 milljarða kr. frá því sem verið hefði ef febrúar- og maíráðstafanirnar hefðu gilt, og skattbyrðin samkv, orðum formanns þingflokks Alþfl. mun aldrei hafa verið meiri en hún kemur til með að verða á árinu 1979. Þá er ekki innifalin hækkun á lyfjum og sérfræðiþjónustu upp á 1 milljarð. Þá eru ekki teknar með 2 milljarða álögur sem vinstri meiri hl. í borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþ. og stendur fyrir að leggja á. Það er eðlilegt að Alþfl.-menn komi og leggi til hækkun á skattvísitölu og sætti sig við 150 stig nú miðað við 100 á s.l. ári, eins og þeir sýnast ætla að gera. Það eru 2500 millj. upp í þá 25 milljarða sem þeir hafa staðið að þessa dagana að leggja á skattborgarana á næsta ári. Þetta eru málsvarar þjóðarinnar sem barist hafa gegn beinum sköttum. Skattaáþjánin verður aldrei meiri en þegar þeir fara með völdin. Þetta eru mennirnir sem talað hafa um að beinu skattarnir væru skattar á launafólk og þá ætti að afnema. Þeir verða aldrei meiri. aldrei hærri en þegar Alþfl. hefur tekið sæti í ríkisstj.

Það fer ekki fram hjá neinum, sem fylgist með störfum núv. ríkisstj., að öll stefnumörkun og ákvarðanataka er með slíkum hætti að fátt jafnast á við þá ringulreið, sem m.a. hefur birst í því að allt starf Alþ. nú að undanförnu hefur meira og minna verið lamað vegna stjórnleysis og skoðanaágreinings sem hefur ríkt hjá stjórnarliðinu. Í kvöld kom hæstv. forsrh. með yfirlýsingu um það, að nú skyldi þess freistað að ná samstöðu um úrræði í efnahagsmálum, að nú skyldi hlustað á till. Alþfl. og annarra og strax í upphafi næsta árs yrði málið skoðað í ríkisstj. og till. lagðar fram fyrir 1. febr. Ríkisstj. hefur setið í 4 mánuði og hún hefur engar till. fundið sem stjórnarflokkarnir hafa getað orðið sammála um. En til þess að beygja Alþfl., til þess að fá hann til þess að falla frá hugmyndum sínum er því lýst yfir, að á einum mánuði ætli nú ríkisstj. að reyna að koma sér saman um úrræði í efnahagsmálunum, og af því að flokksstjórn Alþfl. hafði sagt 1. febr., þá var sú dagsetning höfð með. Það verður vissulega athyglisvert þegar ríkisstjórnarflokkarnir setja saman á þessum eina mánuði till. í efnahagsmálunum, hafandi verið í ríkisstj. í 4 mánuði og þó nokkurn tíma þar á undan í viðræðum um myndun ríkisstj. Það skyldi þó aldrei hafa verið svo, að þeir hafi farið í ríkisstj. án þess að hafa hugmynd um hver væri stefna ríkisstj. í efnahagsmálum þjóðarinnar? (Gripið fram í: Þeir voru klárir á stefnu fyrrv. stjórnar.) Þeir voru klárir á stefnu fyrrv. ríkisstj., sagði hv. þm. Stefán Jónsson, en þeir hafa ekki enn fundið eigin stefnu og það eru liðnir 4 mánuðir síðan þeir tóku við. Svo ætla þeir að finna hana á aðeins einum mánuði eftir áramótin. Það skyldi þó aldrei vera að þeir fyndu aldrei eigin stefnu?

Ef vikið er að þeim aðgerðum sem ríkisstj. hefur reynt að koma í framkvæmd til þess að standa við stóru kosningaloforðin frá því í kosningunum á s.l. vori, einkennast þær fyrst og fremst af stefnumiðum Alþb. með tilstuðlan Framsfl. Hins vegar hafa sjónarmið Alþfl. orðið algerlega út undan þrátt fyrir mikinn hamagang þingliðs flokksins, sem birst hefur hér á hinu háa Alþingi í ýmsum formum, ýmsum „stælum“, ég tala nú ekki um aragrúa af fyrirvörum, jafnvel svo, að það var haft að orði við einn ágætan nýliða á þingi sem hér kom inn, vin minn Ólaf Björnsson úr Keflavík, varaþm. Alþfl., hvort hann hefði virkilega verið tekinn inn á Alþ. með fyrirvara. Í þessu fyrirvaraflóði hefur verið sett á svið heljarmikið sjónarspil af þeim Alþfl.-mönnum til þess að villa um fyrir þeim, ef einhverjir eru eftir sem héldu að þeir ætluðu að standa við stóru kosningaloforðin frá því í sumar.

Meginefni þeirra ráðstafana, sem núv. ríkisstj. hefur gert, felst í því að gerðar eru stórfelldar millifærslur hjá aðilum í þjóðfélaginu. Gerð er markviss tilraun í þá veru að ganga af öllum sjálfstæðum atvinnurekstri í landinu dauðum, brjóta niður alla viðleitni einstaklinga til sjálfsbjargar, skerða sjálfstæði sveitarfélaganna og skapa algert öngþveiti í fjármálum ríkisins. Það er furðulegt að þeir menn, sem í kosningabaráttunni töldu þjóðinni trú um að atvinnuvegirnir væru á heljarþröm, skuli standa fyrir þeirri skattlagningu sem raun ber vitni. Gera menn sér grein fyrir þeirri þversögn sem kemur fram í þeim fullyrðingum, sem við voru hafðar í kosningabaráttunni, og þeim athöfnum, sem síðan eru framkvæmdar hér, þegar viðkomandi hafa náð meirihlutaaðstöðu eða valdaaðstöðu á Alþingi?

Það ber vissulega að harma, að þeir tveir lýðræðisflokkar, sem mynda núv. ríkisstj. ásamt Alþb.-mönnum, skuli ekki sjá hvert stefnir og hafa þor til að rísa gegn stefnu hæstv. ríkisstj. eins og hún hefur birst. Þær miklu skattaálögur, sem nú hafa verið samþ. á Alþ., munu leiða af sér tvennt. Hið fyrra er að sú aukna skattbyrði, sem atvinnureksturinn á að taka á sig, mun leiða til þess — því miður — að fjölmörg fyrirtæki verða að draga úr eða hætta rekstri, en samfara því er hætt við að atvinnuleysi myndist. Ef það á ekki að gerast mun atvinnureksturinn þurfa að velta þessum auknu álögum út í verðlagið og þar með viðhalda og auka verðbólguna. Hið síðara er, að aukin skattheimta á þorra einstaklinga verður þess valdandi að dregið er úr allri sjálfsbjargarviðleitni manna, sem leiðir ekki til neins annars en lakari lífskjara, ekki bara þeirra sem í hlut eiga, heldur allrar þjóðarinnar.

Fjárl. fyrir árið 1979 munu, ef fram fer sem horfir, að sjálfsögðu markast af því ófremdarástandi sem ríkir hjá stjórnarflokkunum, og munu að sjálfsögðu bera einkenni þeirrar röngu efnahagsstefnu sem núv. ríkisstj. hefur haft. Hæstv. fjmrh. virðist ekki ætla að láta af þeim fullyrðingum, að ríkissjóður verði rekinn með greiðsluafgangi á næsta ári — þar á ég við 16 mánaða árið sem fundið var upp. Við sjálfstæðismenn höfum bent á fjölmörg atriði sem við teljum algerlega óraunhæf í því fjárlagafrv., sem hér hefur verið til umr., enn fremur að viðhafður er ýmis talnaleikur til að búa til nægjanlega marga súkkulaðimola til að stinga upp í þinglið Alþfl.

Á það hefur verið bent af frsm. minni hl. fjvn., og þá vikið að riti Þjóðhagsstofnunar, að forsendur fjárlagafrv. og þeirrar þjóðhagsspár, sem Þjóðhagsstofnunin hefur gert, séu alls ekki hinar sömu. Til þess að slíkt geti átt sér stað skortir milljarða í útgjaldahlið fjárlagafrv. Ef ráðagerðir stjórnvalda um breyttar niðurgreiðslur á næsta ári komast í framkvæmd, þá stenst ekki heldur verðbólguspá Þjóðhagsstofnunar. Þetta sýnir betur en nokkuð annað hver vinnubrögð hafa verið viðhöfð. Og til þess að ná fram greiðsluafgangi ríkissjóðs á fjórða milljarð, eins og það er orðað, er tekin inn heimild í 6 gr. fjárl. um niðurskurð ríkisútgjalda um 1 milljarð, eftir að búið er að hækka þessa tölu um 1 milljarð þegar fjárlagafrv. er flutt. Ef hugur hefði fylgt máli, hví skyldi þá ekki hafa verið gengið í það af hálfu stjórnarliða að gera þennan niðurskurð? Þeir þekkja, sem reynt hafa, að samþykkt slíkra till. er býsna lítils virði og erfiðleikarnir í sambandi við þær eru með þeim hætti að tæplega má búast við milljarði í niðurskurði ríkisútgjalda. En ég ætla vissulega að vona að hæstv. fjmrh. takist það. Þess er þörf. En ég veit að það eru fleiri en ég, sem þekkja þessi mál, sem hafa efasemdir um að slíkt takist, og þá er aðeins um pappírsútfærslu að ræða.

Ég vil ítreka það sem ég hef áður lagt áherslu á við umr. um fjárlagafrv., að Alþ. hverfi ekki frá því að afgreiða fjárlög raunhæft og taka afstöðu til þeirra þýðingarmiklu mála þannig að raunhæft sé. Ef alþm. hafa ekki styrk til þess að ákveða útgjöld ríkisins innan þeirra marka sem tekjur ríkisins leyfa, er Alþ. á rangri braut og í reynd að færa mikilvæga ákvarðanatöku frá Alþ. til framkvæmdavaldsins. Og ég spyr: Hafa ekki Alþfl.- menn gagnrýnt slíkt? Hafa þeir ekki látið í sér heyra í dag varðandi gagnrýni á jafnsjálfsögðum hlutum og þar var þó um að ræða, þ.e. að standa við gerða samninga? En þeir hugsa sér að ganga frá fjárlagafrv. sem er óraunhæft, sem byggist ekki á réttum forsendum, og gera þannig skekkju í ríkisfjármálin og skapa embættismönnum meira vald en þeir eiga að hafa. Það mikla starf, sem unnið hefur verið á undanförnum árum, jafnvel áratug, í þá átt að gera fjárlög að raunhæfu stjórnunartæki og auka allt eftirlit með útgjöldum ríkisins, hefur þá verið unnið fyrir gýg. En ég fullyrði að það hefur verið gert mikið átak í þeim efnum. Það var gert í þeirri tíð sem ég gegndi þessu starfi. Það var gert í tíð forvera míns. Og ég segi: Ef Alþ. ætlar nú aftur að snúa við á þessari braut, þá hefur verið unnið fyrir gýg.

Eins og ég gat um að framan er meginefni þessa frv. til fjárl. í beinu samhengi við þá efnahagsringulreið sem viðgengst hjá hæstv. ríkisstj. Frv. þetta boðar aukna hlutdeild ríkisins í þjóðarframleiðslunni frá því sem verið hefur á undanförnum árum, frá 27–28% á árunum 1976 1977 í 30–31%. Þeir, sem hafa gagnrýnt aukin útgjöld ríkissjóðs, ætla núna að standa að því að gera þetta. Á næsta ári verður skatttekjuhlutfallið ekki 27% eins og það var 1977, heldur 31–32%. Með þessu er enn frekar verið að seilast til aukinna ríkisafskipta á öllum sviðum þjóðlífsins og þar með draga úr frjálsræði fólks til ákvarðana um eigin hag og gera allt eftirlit og stjórnun fjármála erfiðari.

Annað veigamikið atriði, er varðar afgreiðslu þessa frv., er sú staðreynd að það mun ekki draga úr verðbólgunni, eins og hæstv. fjmrh. hefur viljað halda fram opinberlega, þar sem ljóst er að sá greiðsluafgangur, sem sagður er munu verða, er ekki raunhæfur. Er því ljóst að ríkissjóður stefnir í frekari skuldasöfnun við Seðlabankann á næsta ári, í stað þess að greiða umsamdar afborganir við Seðlabankann 1978 og 1979, en það þýðir auknar erlendar skuldir og áframhaldandi verðbólgu. Hvað segir Alþfl. um það?

Þær miklu tilfærslur, sem ráðgerðar eru á næsta ári til niðurfærslu verðlags, valda því, að hið opinbera er nú farið að stjórna bæði framleiðslu og neyslu manna á mörgum þýðingarmiklum vörum, sem fólk neytir daglega, og öll verðskynjun hverfur. Við erum horfin 20 ár aftur í tímann hvað viðskiptahætti snertir. Þetta kerfi gerir ekki annað en viðhalda óarðbærari framleiðslu, sem ekki þrífst ef fólk þarf að greiða raunverulegt verð, og því einn þáttur til viðbótar sem færir lífskjör alls almennings til hins verra.

Ef vikið er að tekjuhlið frv. kemur í ljós að nú skal taka til baka að fullu og öllu og meira til fyrirheitin um „samningana í gildi“. Þær stórauknu skattálögur á einstaklinga, sem felast í þessu frv., valda því, að fjölmargir einstaklingar munu greiða allt að 70% af tekjum sínum í beina skatta til opinberra aðila, og það verður til þess að draga úr almennri viðleitni manna til vinnu, en það hefur verið ein aðalundirstaða þess, að við höfum getað starfrækt sjálfstætt þjóðfélag, að hver þjóðfélagsþegn hefur lagt fram mikla vinnu til þess að mega lifa frjáls maður í þessu frjálsa landi.

Herra forseti. Við sjálfstæðismenn höfum gagnrýnt harðlega þetta fjárlagafrv. og alla málsmeðferð þess, sem hefur verið með eindæmum, enda kom þar í morgun að hæstv. forsrh. sá sig knúinn til að biðjast afsökunar á framferði stjórnarliðsins. Hann átti að sjálfsögðu við ákveðinn hluta þess. Það væri út af fyrir sig hægt að þola málsmeðferðina ef fjárlagaafgreiðslan vekti einhverjar vonir um árangur í hinni alvarlegu viðureign við verðbólguna. En svo er því miður ekki. Þvert á móti er hætta á að flestar veigameiri ákvarðanir ríkisstj. frá upphafi hafi verri en engin áhrif, enda lýsti einn stjórnarþm. yfir í dag að ríkisstj. hefði enn enga heildarstefnu mótað í efnahagsmálum. Frekari lýsingar á stjórnarathöfnunum eru raunar óþarfar. Hæstv. ríkisstj. dæmir sig sjálf af verkum sínum og hefur á ótrúlega skömmum tíma tekist að sýna getu- og úrræðaleysi sitt.