25.10.1978
Efri deild: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

29. mál, Lífeyrissjóður Íslands

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég vil nú fyrst láta það álit mitt í ljós, að ég tel framtak hv. 1. flm., hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar, mjög lofsvert. Ég taldi framtak hans lofsvert 1976 og ég tel framtak hans lofsvert nú og sorglegt satt að segja að ekki skuli hafa verið hlustað á hann meira 1976.

Vegna þessa máls þykir mér við hæfi að skýra hv. deild frá því, hvernig þessi mál standa, hvað er verið að gera í þeim.

Þá er fyrst til að taka, að væntanlegt er frv. fljótlega eftir mánaðamótin næstu um eftirlaun aldraðra. Það er stjfrv. þar sem strax verður höggvið á versta hnútinn. Ég er algerlega sammála flm. um það, að ástandið er nú með öllu óviðunandi. Þarna er óbærilegt þjóðfélagslegt misrétti í gangi. Þetta fyrsta frv., sem verður lagt fram fljótlega eftir mánaðamótin, heggur á versta hnútinn. Það veitir réttindi þeim, sem engin réttindi hafa í dag, og þeim, sem hafa réttindi í lélegum, óverðtryggðum lífeyrissjóðum. Hugmyndin er að þetta frv. verði að lögum, ef Alþ. ákveður svo, um áramótin næstu, m.ö.o. ári á undan frv. sem hér er til umr.

Síðan er hugmyndin að leggja fram að hausti frv. um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, þar sem við náum því marki að fullu sem að er stefnt líka með þessu frv. Vona ég að menn geti sæmilega vel við unað.

Ég tek undir margt af því sem flm. sagði í sinni ræðu. Margt af því er algerlega rétt. Hitt er annað mál, að ég er ekki alveg viss um að þessar leiðir séu í öllum atriðum réttar, en það verður að sjálfsögðu athugað. Eitt af því, sem hann ræddi mikið um, er að breyta núverandi lífeyrissjóðum í lánasjóði. Hugmyndin er að koma nú í vor með frv. um nýtt lánakerfi Húsnæðismálastofnunar ríkisins, þar sem það yfirtekur einmitt þetta hlutverk gömlu lífeyrissjóðanna, lánahlutverkið. Það er hugmyndin að þar hækki lánin mjög verulega og nái á tiltölulega stuttum tíma upp í það að verða allt að fullnægjandi sem eina lánastofnunin sem á þarf að halda í sambandi við húsbyggingar.

Ég endurtek það sem ég sagði: Mér finnst þetta framtak mjög lofsvert, en ég tel að þetta frv. eigi að ræða í heilbr.- og trn. deildarinnar ásamt því stjfrv., sem verður lagt fram, og ásamt þeim hugmyndum sem þar fylgja með um áframhald þess, þ.e.a.s. frv. sem á að koma fram næsta haust. Þetta vildi ég að kæmi fram, þannig að við værum ekki að vinna sitt í hverri áttinni, heldur væri reynt að samræma störfin í heilbr.- og trn. þegar þetta mál verður tekið til umr.