25.10.1978
Neðri deild: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

38. mál, verðlag

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel ekki þörf á því að hafa mörg orð um það frv., sem hér liggur fyrir. Efni þess er frestun á gildistöku laga nr. 56 frá 16. maí 1978 um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Í lögum þessum var gert ráð fyrir því, að þau tækju gildi sex mánuðum eftir að þau væru staðfest. Samkv. þessu skyldu lögin koma til framkvæmda 16. nóv. n.k.

Ýmsar ástæður leiða til þess, að óhjákvæmilegt er að lengja þennan gildistökufrest. Í drögum að frv. til. l. um verðlagsmál, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sem samin voru á árunum 1976–1977, var gert ráð fyrir eins árs gildistökufresti. Rökin voru þau, að ríflegan undirbúnings- og aðlögunartíma þyrfti áður en unnt væri að fara að beita þeim víðtæku nýmælum í íslenskum rétti sem felast í þessum lögum. Einkum eru það nýmæli um samkeppnishömlur og ólögmæta viðskiptahætti, sem krefjast mikils undirbúningsstarfs.

Í frv. því til l. um verðgæslu og samkeppnishömlur, sem lagt var fyrir Alþ. árið 1969, en var þá fellt, var gert ráð fyrir eins árs gildistökufresti. Voru þó færri nýmæli í því frv. en í l. nr. 56/1978, þar sem það hafði ekki að geyma nein ákvæði um ólögmæta viðskiptahætti.

Lög þessi krefjast víðtækra skipulagsbreytinga, sem m.a. felast í því, að koma þarf á fót nýjum stjórnvöldum og endurskipuleggja hin eldri. Í stað núverandi verðlagsnefndar kemur verðlagsráð og er skipan þess og hlutverki breytt verulega frá því sem nú er. Nýtt stjórnvald, svonefnd samkeppnisnefnd, skal sett á laggirnar og á að hafa með höndum ákvörðunarvald í nokkrum mikilvægum málum. Ný stofnun, Verðlagsstofnun, skal taka við af núverandi Verðlagsskrifstofu, en verkefnin verða önnur en nú er sökum hinna fjölbreyttu laga. M.a. skal koma á fót sérstakri neytendamáladeild við stofnunina sem sjá skal um framkvæmd á þeim kafla laganna sem fjallar um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd. Auk neytendamáladeildar þarf að setja á stofn sérstaka deild til að annast samkeppnismál. Tvær nýjar deildir frá því sem er bætast því við núverandi verðlagsskrifstofu. Þessi nýju verkefni kalla á mun sérhæfðara starfslið en verðlagsskrifstofan hefur nú yfir að ráða.

Mér þykir rétt að víkja stuttlega að ákvæðum laganna um samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd til að skýra frá hversu mikið verk er að undirbúa framkvæmd þessara mála svo að fullnægjandi sé.

Lagareglur um markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur hafa aldrei verið settar hér á landi og almenn samkeppnislöggjöf hefur aldrei verið til hér. IV. kafli laganna, sem um þetta fjallar, er því í heild sinni nýmæli í íslenskum rétti. Þar er mælt fyrir um að tilkynna skuli til Verðlagsstofnunar samkv. kröfu samkeppnisnefndar markaðsráðandi fyrirtæki og ákvarðanir sem þau hafa tekið um samkeppnishömlur, samninga og samþykktir um samkeppnishömlur er varða framleiðslu, sölu eða flutninga. Halda skal skrár fyrir tilkynningar og skulu þær ásamt fskj. vera aðgengilegar öllum þeim sem vilja kynna sér þær. Verðlagsstofnun kannar áhrif samkeppnishamla. Samkeppnisnefnd metur hvort samkeppnishömlur hafi skaðleg áhrif. Ef hún telur svo, felur hún Verðlagsstofnun að reyna með samningum að binda endi á þau. Ef það tekst ekki gefur samkeppnisnefnd nauðsynleg bindandi fyrirmæli. Reynist samkeppni þá enn ófullnægjandi getur samkeppnisnefnd lagt til við verðlagsráð að ákvæðum 8. gr. verði beitt, þ.e. hámarksverði, hámarksálagningu og fleiri úrræðum.

Samningar, samþykktir og annað samráð milli fyrirtækja um verð og álagningu er í lögunum lýst óheimilt. Sama gildir um samninga, samþykktir og annað samráð við gerð tilboða. Óheimilt er að ákveða, samþykkja eða semja um ófrávíkjanlegt lágmarksverð (brúttóverð) eða álagningu er skuli gilda við endursölu á næsta sölustigi. Að ákveðnum skilyrðum fullnægðum getur samkeppnisnefnd veitt undanþágur frá þessum bannreglum.

V. kafli laganna fjallar um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd. Þar er í raun um að ræða endurskoðun laga nr. 84 frá 1933, um varnir gegn óréttmætum viðskiptaháttum. Við samningu V. kafla var höfð hliðsjón af nýlegum norrænum lögum um þetta efni, þar sem m.a. eru stofnuð embætti umboðsmanna neytenda í þessum löndum. Gert er ráð fyrir að Verðlagsstofnun hafi eftirlit með framkvæmd ákvæða V. kafla og í því skyni starfi sérstök deild, neytendamáladeild, við stofnunina, sem er nýmæli sem er tekið upp þar sem engin opinber neytendastofnun starfar hér á landi. Samkeppnisnefnd er veitt vald til að banna athafnir, sem brjóta í bága við 26. og 27. gr., og getur látið févíti fylgja banni. Margt getur fallið hér undir, t.a.m. rangar eða villandi auglýsingar. Verðlagsstofnun leggur mál yfirleitt fyrir samkeppnisnefnd. Í reynd gætu stofnunin og verðlagsstjóri í þessum efnum komið fram gagnvart fyrirtækjum og fjölmiðlum eins og umboðsmenn neytenda á Norðurlöndum. Ákvarðanir samkeppnisnefnda má ávallt bera undir dómstóla, en ekki frestar það gildistöku ákvarðananna.

Ég hygg að af þessari stuttu lýsingu megi ráða, að nauðsynlegt er að nægur undirbúningur gefist áður en tekist er á um þessi verkefni.

Það lá þegar fyrir, þegar lögin voru samþykkt, að sex mánaða frestur væri allt of skammur, nema strax væri tryggt fé til að undirbúa breytingarnar og ráða og sérþjálfa starfsfólk. Staðan er hins vegar sú, að engar heimildir af hálfu fjárveitingavalds hafa verið veittar til þessa. Stjórnmálaóvissan allt s.l. sumar á sinn þátt í því, að þetta hefur tafist.

Það eru fleiri ástæður en tímafrekur undirbúningur sem leiða til þess að lengja verður gildistökufrest þessara laga. Í samstarfsyfirlýsingu þeirra stjórnmálaflokka, sem mynda núv. ríkisstj., er kveðið á um að gildistöku 8. gr. laganna skuli frestað. Þá hefur athyglin beinst undanfarið að innflutningsversluninni vegna óeðlilega hás innkaupsverðs. Fer nú fram sérstök rannsókn á starfsháttum innflutningsverslunarinnar af þessu tilefni. Kann að reynast nauðsynlegt að gera breytingar á lögunum í samræmi við niðurstöður rannsóknarinnar. Enn fremur verður til athugunar, hvort aðrar lagfæringar ber að gera á lögunum t.d. á 8. gr. þeirra.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir því frv. sem hér liggur fyrir. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.