25.10.1978
Neðri deild: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

38. mál, verðlag

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil, af því tilefni að hér er lagt fram frv. um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, aðeins vekja athygli á því, að framkvæmd verðlagsmála hefur verið með þeim hætti nú síðustu daga að til mjög alvarlegs ástands er að koma hér á landi. Fyrir liggur nú að smjörlíkis- og gosdrykkjaverksmiðjur hafa verið lokaðar vegna þess að það er ódýrara fyrir þær að hætta framleiðslu og borga verkafólki laun en halda áfram við þeim kjörum sem þessar verksmiðjur hafa fengið að starfa.

Ég vil í þessu sambandi varpa fram þeirri spurningu fyrst, hvort það samrýmist íslenskri stjórnarskrá og því þjóðfélagi, sem við búum í, að banna mönnum að framleiða vörur á því verði sem framleiðslan sannanlega kostar. Getum við búist við því, að það þjóðfélag, sem við búum í, veiti þessari háu stofnun eða ríkisstj. landsins þann rétt að ganga með þeim hætti að atvinnurekstrinum, að í rauninni má segja að við bíðum eftir því að hér setjist að völdum ráðh. sem nenni að standa í því að leggja að velli eina verksmiðjuna af annarri hér á landi?

Hæstv. viðskrh. gaf fyrirheit um það fyrir nokkrum dögum, að mál smjörlíkis- og gosdrykkjaverksmiðjanna mundi leysast innan fárra daga. Ég stend upp til þess að spyrja hann að því, hvað þessu máli líði, hvort eitthvað hafi í því gerst. Í framhaldi af því langar mig að spyrja um það, ef svo fer að þessar verksmiðjur taki ekki til starfa nú fyrir 1. nóv., þannig að bæði innlendir gosdrykkir og smjörlíki verði ófáanlegt í landinu, hvernig sé þá ætlunin að fara með framfærsluvísitöluna. Er búist við því, að inn í hana verði þá reiknaðir þeir erlendu gosdrykkir, sem hér eru fáanlegir, eða innlend framleiðsla, sem gengið hefur til þurrðar?