22.12.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

54. mál, fjárlög 1979

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hér er um að ræða nýja stofnun sem lengi hefur verið baráttumál fyrri ríkisstjórna, bæði ríkisstj. frá 1971–1974 og þeirrar sem sat frá 1974–1978, og fjárveitingar til þessarar stofnunar eru nokkur prófsteinn á það, hvern hug menn bera til eflingar iðnaðar hér á landi um þessar mundir.

Við 2. umr. fjárlagaafgreiðslunnar var fjárveiting til Iðntæknistofnunar hækkuð um ca. 12 millj. frá frv., en nú við 3. umr. er gerð till. um það af meiri hl. n. að lækka þessa upphæð aftur um 10 millj. Þetta finnst mér vera afgreiðsla sem bæði er út í bláinn og lýsir e.t.v. vel afstöðu meiri hl. til þessa mikilvæga máls, og mér þótti rétt að láta á það reyna, hvernig þm. greiddu atkv., með því að biðja um nafnakall. Ég segi nei.