22.12.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

54. mál, fjárlög 1979

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og öllum þm. er væntanlega ljóst fer afgreiðsla fjárl. þannig fram, að reynt er að ná samkomulagi milli þm. um þá afgreiðslu, einkanlega varðandi kjördæmismálin. Þar taka allir þm. kjördæmanna, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, þátt. Þar fáum við ýmsu áorkað, sumu til fullnustu, öðru ekki, í samstarfi og samkomulagi við aðra þm. Eðli stjórnarsamstarfs er að sjálfsögðu það, að þeir, sem að ákvörðun standa, standa ábyrgir fyrir þeim gerðum og þeim ráðstöfunum og þeim samningum og þeim samkomulagslausnum sem þar fara fram.

Hv. 3. þm. Vestf. hefur brugðið á það ráð að styðja með atkv. sínu öll þau mál sem tekist hefur að ná árangri í fyrir Vestfirðinga, en ganga síðan í lið með stjórnarandstöðunni ýmist í tillöguflutningi hér á Alþ., eins og nú, eða með samþykkt tillöguflutnings frá henni um önnur hagsmunamál Vestfirðinga sem ekki hafa náðst að fullnustu fram. Þetta tel ég til marks um að hann telji vænlegra til árangurs að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna en stjórnarþm., þ. á m. þm. eigin flokks, og því væntanlega fyrirboði um að hann muni við næstu fjárlagaafgreiðslu snúa sér í auknum mæli þangað með málaleitanir sínar.

Ég er aðili að samkomulagi sem meiri hl. fjvn. og Alþingis hefur gert. Við það samkomulag stend ég. Ég tel líklegra til árangurs fyrir kjördæmi mitt að standa með stjórnarflokkunum að úrlausn mála heldur en með stjórnarandstöðunni með þeim hætti sem hv. 3. þm. Vestf. hefur gert. Ég segi nei.