22.12.1978
Neðri deild: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég óskaði eftir að fá upplýst frá hæstv. ráðh.:

1. Hvað innheimtist samtals í krónum miðað við nýjan álagningargrunn, fyrst miðað við 13%, þ.e.a.s. óbreytta álagningu í prósentum eins og hún er og hækkandi grunn, og í öðru lagi miðað við 19% á þann nýja álagningargrunn?

2. Hvað fer mikið til niðurgreiðslu á rafmagnsverði til viðskiptavina RARIK samkv. till. hæstv. iðnrh.?

3. Hvað fer há upphæð af væntanlegu verðjöfnunargjaldi til greiðslu vanskilaskulda eða greiðslu á skuldahala Rafmagnsveitna ríkisins eins og hann er núna?

Ég gerði líka fsp. um það, hvernig þessi hækkunarprósenta, 6%, væri fundin út, á hverju hún byggðist, en fékk ekkert svar. Þar af leiðandi tel ég mig ekki hafa nægjanlegar upplýsingar til þess að taka þátt í afgreiðslu á þessari till. hæstv. ráðh., og ég harma það að hafa ekki fengið svör við spurningum mínum. Ég veit að hv. þm þurfa á þeim að halda til þess að geta gert upp hug sinn. Því sit ég hjá við þessa afgreiðslu.