25.10.1978
Neðri deild: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

39. mál, kjaramál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til 1. umr., er til staðfestingar á brbl. um kjaramál, sem út voru gefin 8. sept. s.l. Þessi brbl. voru gefin út af forsrh. og ég legg þetta frv. fram hér. Það er af formlegum ástæðum. Þegar lagafrv. og brbl. fjalla um efni sem eru í verkahring fleiri en eins ráðh., þá fellur í hlut forsrh. að flytja slíkt frv., þó að efnisþættir þess falli undir verksvið annarra ráðh. Það leiðir til þess, að ég get í sjálfu sér verið fáorðari en ella um þetta mál, þar sem ég geri ráð fyrir, að viðkomandi ráðh. muni sérstaklega víkja að þeim efnum sem í þeirra verkahring eru sérstaklega.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð um mánaðamótin ág. — sept., nákvæmlega sagt 1. sept. s.l., blasti við fjölþættur vandi í efnahags- og atvinnumálum sem dregist hafði að leysa þar sem hér sat ríkisstj. sem þegar hafði sagt af sér og aðeins gat eðli málsins samkv. sinnt nauðsynlegum afgreiðslustörfum, en ekki markað pólitíska stefnu. Slík krafa verður vart gerð til þeirrar stjórnar, sem sagt hefur af sér og situr aðeins að beiðni forseta sem „starfsstjórn“, eins og það er kallað. Rekstri og afkomu fyrirtækja, einkum í sjávarútvegi, var ógnað og höfðu mörg þeirra þegar stöðvað rekstur sinn og sagt upp starfsfólki, en önnur hugðust leggja niður rekstur í lok ágústmánaðar. Þannig blasti við stöðvum atvinnurekstrar og atvinnuleysi. Atvinnuleysi hafði raunar þegar nokkuð gert vart við sig, þannig að það var vegið að undirstöðum þjóðarbúsins. Samtímis og reyndar um alllangt skeið hafði gætt ókyrrðar á vinnumarkaði, sem ég hirði ekki um að rekja og öllum hv. þdm. er að sjálfsögðu í fersku minni. Bar því brýna nauðsyn til að ríkisstj. gripi þegar í stað til ráðstafana sem tryggt gætu áframhaldandi rekstur atvinnuvega, atvinnuöryggi og frið á vinnumarkaði. Um leið var nauðsynlegt, að þessar fyrstu aðgerðir stjórnvalda á sviði efnahags- og kjaramála veittu svigrúm til að hrinda í framkvæmd nýrri efnahagsstefnu og öðrum framtíðar- eða langtímamarkmiðum ríkisstj. í samræmi við starfsyfirlýsingu þeirra þriggja flokka sem að þessari ríkisstj. standa.

Fyrsta skrefið var stigið með útgáfu brbl. hinn 1. sept., eða sama dag og stjórnin kom til valda, og var það tilhögun verðbótagreiðslna á laun í septembermánuði til þess að ríkisstj. hefði ráðrúm til þess að undirbúa frekari ráðstafanir í efnahagsmálum. Hinn 5. sept, var síðan tekin ákvörðun um nýja gengisskráningu, ráðstöfun gegngishagnaðar o.fl. Síðasta skrefið í þessum fyrsta áfanga var síðan stigið með útgáfu brbl. um kjaramál hinn 8. sept. s.l.

Í þessum lögum er að finna flestar þeirra ráðstafana sem getið var um í samstarfsyfirlýsingu flokkanna þriggja og töldust til fyrstu og brýnustu aðgerða ríkisstj. Eins og ég hef sagt við annað tækifæri, þá verður vitaskuld að líta á þessar ráðstafanir, sem ríkisstj. varð að grípa til á fyrstu starfsdögum sínum, sem bráðabirgðaráðstafanir og til þess ætlaðar að mæta bráðum og aðkallandi vanda í atvinnumálum þjóðarinnar. En um leið hefur þó vegna þeirra skapast tóm til undirbúnings nýrrar stefnu í efnahagsmálum, þar sem horft yrði til lengri tíma í senn en fárra mánaða.

Ríkisstj. hefur frá upphafi lagt á það ríka áherslu að hafa náið samráð við aðila vinnumarkaðarins um skipan launa- og kjaramála. Brbl. um kjaramál voru einmitt sett eftir að slíkt samráð hafði verið haft. Þar með er ég ekki að segja eða gefa í skyn, að þeir aðilar, sem samráð var haft við, hafi í einu og öllu lagt blessun sína yfir lögin. Það er vitaskuld ríkisstj. sem verður að bera ábyrgð á þessum brbl. eins og annarri lagasetningu sem hún stendur að. Það má segja líka, að myndaður hafi verið fastur vett áður sagt í stefnuræðu um mikilvægi þessa samráðs við aðila vinnumarkaðarins, og ég skal ekki endurtaka það sem ég hef áður sagt í stefnuræðu um mikilvægi þessa samráðs og hver þáttur það er í eða raunar grundvöllur að starfi núv. ríkisstj.

Ég skal ekki orðlengja frekar almennt um þetta, en víkja að efni brbl. í stórum dráttum.

1. kafli brbl. og frv. þess, sem hér liggur fyrir til staðfestingar á þeim, fjallar um kaupsamninga og greiðslu uppbóta á laun. Í þessum I. kafla laganna eru kaupgjaldsákvæði laganna um ráðstafanir í efnahagsmálum frá því í febr. s.l. og brbl. frá í maí 1978 felld niður, en í lögum þessum var greiðsla verðbóta á launþega almennt nokkuð skert. Brbl. kveða hins vegar á um að greiða skuli fullar verðbætur samkv. kjarasamningum á þau mánaðarlaun sem námu allt að 200 þús kr. í des. 1977, en það svarar til u.þ.b. 235 þús. kr. í ágúst s.l. Á mánaðarlaun, sem eru hærri, komi hins vegar sama krónutala og á 235 þús. kr. launin. Með þessum ákvæðum má segja að kjarasamningar taki að nýju gildi fyrir allan þorra launþega, og það þýðir m.a. líka það, að umsamin hlutföll yfirvinnu og dagvinnu, bónusgreiðslna svokallaðra, á kauptaxta og fleira taki yfirleitt aftur gildi. Ég skal ekki fjölyrða um ástæðurnar fyrir því, að þessar ráðstafanir voru gerðar, en vil aðeins nefna það sem ég drap á áðan, að um tíma og reyndar alllangt skeið hafði ríkt ófriður á vinnumarkaði og þessi ákvæði voru sett m.a. í því skyni að reyna að skapa frið á vinnumarkaði. Það ætla ég að hafi nú tekist.

Í I. kafla laganna eru enn fremur ákvæði um að grunnkaup og tilhögun verðbóta skuli haldast óbreytt eins og ákveðið er frá 1. sept. þar til um annað verði samið. Ríkisstj. hefur í hyggju að leita eftir samkomulagi við samtök launafólks um skipan launamála fram til 1. des 1979 á þeim grundvelli að samningarnir frá 1977 verði framlengdir til þess tíma án breytinga á grunnkaupi og í því sambandi verði samningsréttur opinberra starfsmanna tekinn til endurskoðunar. Það er of snemmt að spá nokkru um það, hvort þessu marki verður náð. Ég vek athygli á því, að með þessu ákvæði er ekki lagður hemill á samningsrétt aðila. Þeir geta gert sína samninga, en á meðan þeir hafa ekki gert slíka samninga eiga ákvæði laganna að gilda.

Áhrif brbl. á hækkun launa 1. sept. urðu þau, eftir að allri hækkun verðbótavísitölu frá I. júní hafði verið eytt með niðurgreiðslu vöruverðs og niðurfellingu söluskatts á matvælum, að hækka laun að meðaltali um 9–9.5% þó er ekki nákvæmt að segja að þessi hafi orðið áhrif brbl., vegna þess að af þessum 9–9.5% stafa 3 eða 3.5% af grunnkaupshækkun sem alltaf var gert ráð fyrir að kæmu til framkvæmda, en 6% stafa af gildistöku samninganna að nýju. Þessi hækkun er nokkuð misjöfn. Hún er meiri til þeirra, sem höfðu meiri skerðingu verðbóta fyrir — það liggur í hlutarins eðli. Meðalhækkunin 1. sept. er svipuð í krónum og verið hefur samkv. brbl. sem fyrri ríkisstj. setti í maí, en hér munar því, að auk launahækkunar í krónum hefur verð á nauðsynjum nú verið greitt niður og söluskattur felldur niður af matvörum, sem var talið að mundi svara til 7.5% í verðbótavísitölu og kemur launþegum til góða í lækkuðu vöruverði. — Hér má kannske skjóta því inn, að samkv. vörukönnun, sem Vísir. lét fram fara, sýndi það sig að verðlag hafði lækkað á þessum tíma á meira en 60 vörutegundum, sem kannaðar voru, um 10–11%. Ég skal engan dóm leggja á þessa könnun, en það er hins vegar rétt að taka eftir henni og engin ástæða til þess að ætla að hún sé vilhöll að þessu leyti gagnvart stjórnvöldum, ef menn vilja segja svo, heldur hygg ég að það megi ganga út frá því, að hún hafi verið gerð eftir bestu samvisku. Hún segir vitaskuld allmerkilega sögu. Þar með er ekki sagt, að öll kurl hafi þá verið komin til grafar. En hvað sem því líður, þá ætti að vera alveg óhætt að reikna með því að þetta þýði og hafi þýtt 7.5% í verðbótavísitölu.

II. kafli þessa frv. fjallar um bætur almannatrygginga. Þar er ákveðið að bætur almannatrygginga skuli hækka í sama mæli og um leið og laun verkamanna í sept. og des. Hér er verið að tryggja að lífeyrisþegar njóti tafarlaust sömu hækkana á framfærslueyri og verkamenn fá þegar samningar þeirra taka gildi að nýju.

III. kafli laganna fjallar svo um niðurfærslu vöruverðs og verlagseftirlit. Ákvæði þess kafla veita ríkisstj. fyrst heimild til aukningar niðurgreiðslna um 4.9% af verðbótavísitölu eins og hún var við gildistöku lagnanna. Þessi heimild hefur þegar verið notuð og var strax notuð. Áætlað er að þessi aukning niðurgreiðslna svo og auknar niðurgreiðslur, sem gert er ráð fyrir 1. des. n.k., muni kosta ríkissjóð 3 milljarða og 350 millj. kr. fram að áramótum og að öllu óbreyttu muni samsvarandi niðurgreiðslur á næsta ári kosta 12.8 milljarða. Hér er fyrst og fremst um að ræða auknar niðurgreiðslur á helstu nauðsynjavörum heimilanna, þ.e.a.s. á mjólk, kjöti, smjöri og fleiri landbúnaðarafurðum.

Auk þessarar aukningar niðurgreiðslna var fjmrh. með brbl. veitt heimild til þess að fella niður söluskatt af matvælum. Þessi heimild var einnig þegar notuð og gefin út um það efni reglugerð nr. 316 frá 8. sept. 1978. Sú reglugerð kom til framkvæmda 15. s. m. Má heita að með þessum ákvæðum séu öll matvæli, að undanteknu sælgæti, öli og gosdrykkjum, undanþegin söluskatti. Þessi niðurfelling á sölugjaldi á matvælum svarar til 2.6% lækkunar verðbótavísitölu og mun kosta ríkissjóð á þessu ári eða fram til áramóta 1400 millj. kr., þ.e.a.s. það verður tekjutap ríkissjóðs á þeim tíma. Á næsta ári verður með sama hætti og að óbreyttum ákvæðum um að tefla 5.8 milljarða kr. tekjumissi hjá ríkissjóði af þessum sökum.

Með þeirri niðurfærslu verðlags, sem lögin kveða á um, og þessari söluskattslækkun hefur verðbótavísitalan alls verið lækkuð til sama stigs og hún var í júlí s.l.

Í þessum kafla laganna eru loks sett ákvæði um verðstöðvun, sem kalla má. Þar er lagt bann við því, að verð vöru og þjónustu eða leigu sé hækkað frá því sem það var 9. sept. s.l. nema til komi leyfi verðlagsyfirvalda og auk þess sérstakt samþykki af ríkisstj. hálfu. Þetta ákvæði tekur jafnt til einkaaðila og opinberra aðila.

Þá er hundraðshluti verslunarálagningar lækkaður frá og með 11. sept. s.l. sem svarar því að leyfð hefði verið álagning á 30% þeirrar hækkunar álagningarstofns, sem leiðir af gengisbreytingunni 5. sept. s.l. Þessari reglu, sem kölluð hefur verið „30% regla“ í daglegu tali, hefur oft og ég held að segja megi oftast nær — eða alltaf hin síðari ár a.m.k. — verið beitt við gengisbreytingar. Hún er að sjálfsögðu byggð á því sjónarmiði, að það þykir ekki eðlilegt að álagning í krónum aukist sjálfkrafa sem nemur allri gengislækkuninni.

Öllum er kunnugt að það hefur oftast nær, að ég held, verið deilt um þessa 30% reglu þegar henni hefur verið beitt. Að sjálfsögðu hafa heyrst skiptar skoðanir um hana nú með sama hætti og áður. Ég skal viðurkenna að vitaskuld má lengi deila um svona almenna reglu sem sett er án tillits til kringumstæðna í hverju einstöku dæmi. En ég býst við því, að flestir muni telja að það hefði ekki verið talið eðlilegt, eins og á stóð nú, að hverfa frá þeim háttum sem fylgt hefur verið í þessu efni við undanfarnar gengisfellingar.

Þá kemur IV. kaflinn og þar kemur böggullinn, en menn hafa kannske getað verið sæmilega ánægðir almennt með það sem undan hefur farið. IV. kaflinn er um eignarskattsauka, sérstakan tekjuskatt og sérstakan skatt á tekjur af atvinnurekstri til að standa undir kostnaði af niðurfærslu vöruverðs samkv. III. kafla. Það er ákaflega sjaldgæft að skattlagning komist á vinsældalista. Á hinn bóginn eru framkvæmdir af hálfu hins opinbera og aukin þjónusta af þess hálfu vinsæl oftast nær, enda þarfleg. En ég ætla að flestir hugsandi menn geri sér grein fyrir því, að ekki verður krafist aukinna framkvæmda né aukinnar þjónustu af hinu opinbera án þess að tekna sé aflað til þess að standa undir slíku. Þess vegna ætti í raun og veru sá hugsunarháttur að ríkja, að menn greiddu gjöld sín til opinberra þarfa með glöðu geði. Vonandi ríkir sá hugsunarháttur hjá velflestum.

Hér er ekki um það að ræða, að verið sé að leggja á nýjar álögur til þess að standa undir þörfum ríkissjóðs í þrengri merkingu. Hér er hins vegar verið að leggja á nýja skatta til þess að standa undir kostnaði til næstu áramóta af auknum niðurgreiðslum vöruverðs og tekjumissi ríkissjóðs vegna niðurfellingar söluskatts. Að sjálfsögðu hefur verið reynt að leggja þessa auknu skatta á þá sem ætla mátti að hefðu mest gjaldþol og hæstar tekjur bera úr býtum. Vitaskuld má lengi deila um það, hvar línan skuli dregin í þessum efnum. Það er einkenni á sköttum, sem er í raun og veru aðalsmerki þeirra, að þá á að leggja á eftir almennum mælikvarða og vissri jafnvægisreglu, en þeir geta í einstökum tilfellum þrátt fyrir það komið eitthvað óþægilega við menn. Þá er líka færi á því að kæra slíkar álögur. Það verður að ætla að hlutaðeigandi yfirvöld, sem um þær kærur fjalla, líti á sanngirnissjónarmið í hverju einstöku tilfelli hverju sinni og þannig sé kostur á að leiðrétta það sem ekki er sanngjarnt talið. Það væri ástæða til þess að undirstrika þetta í þessu sambandi, vegna þess að aldrei hefur verið dregin nein dul á að það varð að vinna að setningu brbl., sem hér eru til staðfestingar, með meiri hraða en æskilegt hefði verið. Á það ekki hvað síst við einmitt um hina nýju skatta og aukna skattálagningu. Þarf því í sjálfu sér ekki að verða neinum neitt undrunarefni þó að í framkvæmd gæti komið fram einhver missmíði í einstökum tilfellum. Skattarnir eru þessir:

1. Eignarskattsauki, sem lagður er á álagðan eignarskatt gjaldársins 1978, og nemur hann 50% af eignarskatti einstaklinga, en 100% af eignarskatti félaga, innlendra og erlendra. Við tekjuskattsálagningu er eignarskattsaukinn frádráttarbær frá tekjuskatti félaga eins og eignarskattur, og m.a. þess vegna þótti rétt að hafa skattinn hálfu hærri á félög en einstaklinga. Áætlað var við setningu laganna, að þessi skattlagning mundi færa ríkissjóði 1 milljarð 370 millj. kr. í tekjur, en þar af er áætlað að um 600 millj. kr. muni skila sér á þessu ári.

2. Sérstakur tekjuskattsauki, sem lagður er á einstaklinga. Skattur þessi leggst á þær skattgjaldstekjur manna af öðru en atvinnurekstri sem eru umfram ákveðin mörk, en þau eru mismunandi eftir fjölskyldustærð: 2.8 millj. fyrir einhleyping, 3.7 millj. fyrir hjón og auk þess 220 þús. kr. frádráttur fyrir hvert barn. Skatturinn er 6% af tekjum fyrir ofan framangreind mörk. Þessi skattleysismörk eru nokkru hærri en þau sem giltu við álagningu skyldusparnaðar 1978. Þegar brbl. voru sett var lauslega áætlað að þessi skattur mundi leggjast á rúmlega 10% framteljenda og var talið að heildarálagning þessa skatts eða skattauka mundi nema 415 millj. kr., þar af innheimtist á þessu ári 185 millj. kr. Að sjálfsögðu er rétt að undirstrika að þessar tölur eru þó nokkuð óvissar. Til samanburðar má geta þess, að heildarfjárhæð álagðs skyldusparnaðar einstaklinga, sem er 10% eins og menn vita, nemur á þessu ári 1 milljarði 547 millj. kr.

3. Sérstakur skattur er lagður á tekjur í atvinnurekstri. Skattur þessi, sem er einnig 6% eins og tekjuskattsaukinn á einstaklinga, leggst á hreinar tekjur af atvinnurekstri áður en fyrningar eru dregnar frá. Hafi skattaðili orðið fyrir rekstrartapi á liðnum árum, sem heimilt var að draga frá tekjum við álagningu á þessu ári, skal það tap einnig koma til frádráttar þessum tekjustofni. Í reglugerð eru tekjur af atvinnurekstri skilgreindar þannig, að sanngjarnt mat á eigin vinnu atvinnurekenda er fært til gjalda áður en þessi skattur er reiknaður. Tekjur ríkissjóðs af þessari skattlagningu voru áætlaðar 1.7 milljarðar kr., en þar af er gert ráð fyrir að 700 millj. komi fyrir áramót í ríkissjóð. Það er þó enn meiri ástæða til þess að undirstrika það við þennan þátt skattlagningar en þann sem ég minntist á áður, að áætlun þessi er mjög laus í reipunum. Og það er einmitt í sambandi við þennan þátt sem óvissuatriði gætu komið til greina sem ekki hefur e.t.v. verið unnt að átta sig á á þeim stutta tíma sem til stefnu var þegar brbl. voru sett.

Skattar þeir, sem ræðir um í þessum kafla, eru lagðir á af skattstjórum og gilda um þá lög um tekju- og eignarskatt að því er varðar álagningu, kærufresti, heimildir skattyfirvalda til lækkunar, viðurlög og önnur atriði. Um innheimtu hinna nýju skatta gilda einnig sömu reglur, en gjalddagar eru fjórir : 11. nóv., 1. des., 1. jan. á næsta ári og 1. febr.

Þá er komið að V. kafla. Hann fjallar um breytingar á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald.

Allt frá árinu 1975 hefur verið innheimt sérstakt tímabundið vörugjald af ýmsum vörum. Vörugjald þetta hefur verið mismunandi hátt frá einu tímabili til annars, lægst 12%, en hæst 18%. Við gildistöku þeirra brbl., sem hér liggja fyrir til staðfestingar, var þetta gjald 16%. Sú breyting er hins vegar gerð með þessum brbl. og frv. sem hér liggur fyrir, að vörugjaldinu er skipt í tvo gjaldflokka, annars vegar 16%, eins og það hefur verið að undanförnu, og hins vegar 30% af nokkrum vörutegundum, og tók sú hækkun gildi 9. sept. s.l. Hér er því í raun og veru ekki um nýtt gjald beinlínis að ræða, heldur breytingu á gjaldi sem til er.

Við ákvörðun þess, hvaða vörur skyldu falla í hærri gjaldflokkinn, var að sjálfsögðu vandi á höndum. Hið sértaka tímabundna vörugjald hefur yfirleitt ekki verið lagt á „samkeppnisvörur“ — þ.e.a.s. iðnaðarvörur sem tollar hafa verið lækkaðir á vegna fríverslunarsamnings Íslands við EFTA og EBE — ekki á vélar og aðföng iðnaðarins né helstu fjárfestingarvörur. Þá hafa flestar matvörur og mikilvæg aðföng sjávarútvegs og landbúnaðar verið undanþegin gjaldinu. Niðurstaðan varð sú sem lögin eiga að bera með sér. Ég skal játa að dálítið erfitt er fyrir venjulega lesendur að átta sig á þessu, þar sem aðeins eru tilgreind tollskrárnúmer og menn hafa kannske ekki í huganum hvað bak við þau býr. En talið var að út úr því dæmi kæmi það, að þetta hækkaða gjald legðist fyrst og fremst á svokallaðar varanlegar neysluvörur, snyrtivörur, skrautvörur og ýmislegt fleira. Mér dettur ekki í hug að vera að halda því fram, að þarna sé um einhverjar lúxusvörur að tefla, talið var eðlilegra að leggja gjaldið frekar á þessar vörur. Vitaskuld er það svo, að þarna hafa getað slæðst með einhverjar vörur eða vöruflokkar sem menn að athuguðu máli telja ekki eðlilegt að eigi að koma undir þetta hækkaða gjald. Þess vegna er fjmrh. einmitt veitt heimild til þess að undanþiggja einstakar vörur gjaldskyldu og færa þær á milli gjaldflokka ef sérstakar ástæður eru til. Þær orðræður, sem um þetta hafa spunnist og jafnvel komist á prent, að gert væri ráð fyrir að leggja þetta hækkaða tímabundna vörugjald á vörur eins og sjónvarpstæki, hjólbarða, sportvörur og því um líkt, hafa ekki við rök að styðjast.

Gert er ráð fyrir að hækkun á vörugjaldi muni færa ríkissjóði 400 millj. kr. tekjuauka á þessu ári. En það er gert ráð fyrir að þetta vörugjald eða sú skipan, sem ákveðin er að þessu leyti, haldist á næsta ári samkv. 13. gr. laganna. Þar með er ákveðinn tekjuliður á næsta ári til að mæta þeim auknu útgjöldum, sem leiðir af niðurgreiðslum, og tekjumissi, sem stafar af niðurfellingu söluskattsins á næsta ári.

VI. kafli fjallar um gjald á ferðalög til útlanda. Með þessum kafla er lagt 10% gjald á ferðagjaldeyri. Jafnframt því hefur hámark ferðagjaldeyris verið hækkað verulega. Gjald þetta er ekki lagt á yfirfærslu til námsmanna, sjúklinga eða áhafnagjaldeyri.

Skattlagning þessi hefur verið gagnrýnd nokkuð. En á það má benda, að skattlagning á ferðalög Íslendinga til annarra landa hefur verið hverfandi til þessa og flugvallagjaldið, sem fyrst var lagt á árið 1975, hefur ekki fylgt almennri verðlagsþróun og er því mun lægra að raungildi nú en það var í upphafi. Í grannlöndum okkar mun vera nokkuð algengt að allhár skattur sé lagður á ferðalög með leiguflugvélum, en sá skattur er ekki fyrir hendi hér á landi. Áætlað var að tekjur af þessu gjaldi mundu ekki nema á þessu ári nema 200 millj. kr., en hins vegar er í lögunum gert ráð fyrir að þessi skipan haldist út næsta ár, og þá er gert ráð fyrir tekjuauka af þessu sem nemur 1.6 milljarði kr.

VII. kafli laganna fjallar um heimild til lækkunar ríkisútgjalda 1978. Með brbl. var veitt heimild til lækkunar ríkisútgjalda um 2 milljarða kr. Fyrir var, samkv. lögum um efnahagsmál í febr. s.l., heimild til að lækka ríkisútgjöld um 1 milljarð. Þar sem langt var liðið á fjárlagaárið þegar brbl. voru sett liggur það fyrir nú, að þessi heimild verður langt frá því fullnýtt. Er áætlað nú að ekki muni takast að lækka útgjöld á þessu ári nema sem svarar 600 millj. kr.

Svo er VIII. kafli um gildistöku o.fl. Í brbl. er tekið fram. að forsrh. geti með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna, að því leyti sem framkvæmd þeirra er ekki beinlínis falin öðrum ráðh.

Í ákvæði til bráðabirgða er tekið fram, að laun fyrir vinnudagana 1.–10. sept. 1978, sem greidd eru eftir á, skuli gerð upp endanlega samkv. þeim kauptöxtum sem gildi taka með lögunum, en þau laun, sem greidd voru fyrir fram fyrir sama tímabil, skuli hins vegar haldast óbreytt. Það eru fyrst og fremst opinberir starfsmenn sem fá laun greidd fyrir fram. Um mánaðamótin ágúst–sept. var verðbótavísitala allmiklu hærri en nú er, eftir að verðlag á nauðsynjavörum var lækkað samkv. brbl. sem hér eru til staðfestingar. Föst mánaðarlaun í sept. í lægstu launaflokkum opinberra starfsmanna urðu nokkru lægri en gert var ráð fyrir samkv. áður gildandi reglum, og sama gildir um laun í hæstu flokkunum vegna vísitöluþaksins. Með hliðsjón af þessu var ákveðið að breyta ekki launagreiðslum opinberra starfsmanna fyrir fyrstu 10 daga septembermánaðar, þó að heimilt hefði verið að gera það samkv. lögunum.

Orðið hafa verulegar umr. um útgáfu þessara brbl., sérstaklega um tekjuskattana og eignarskattsaukann. Því hefur jafnvel verið haldið fram, að lögin væru brot á stjórnarskránni. lögin væru siðlaus og hefur þá sérstaklega verið átt við afturvirkni laganna. Um þetta efni skal ég ekki segja mörg orð. Í stjórnarskránni eru ekki önnur ákvæði um skattamálefni en þau, sem er að finna í 40. og 77. gr. Í 77. gr. segir, að skattamálum skuli skipa með lögum, og í 40. gr. segir, að engan skatt megi á leggja né af taka nema með lögum. Þar af leiðir, að auðvitað getur framkvæmdavaldið ekki lagt á skatt, heldur verður að afla til þess heimildar löggjafans. Hins vegar leggur stjskr. ekki nein höft á almenna löggjafann í þessu efni né heldur bráðabirgðalöggjafann, sem gegnir sama hlutverki og almenni löggjafinn þegar skilyrði eru fyrir hendi til útgáfu brbl. Í stjórnarskrá okkar er ekkert bann við afturvirkni laga eins og er að finna í sumum öðrum stjórnarskrám, t.d. í Noregi, þó að þar hafi þrátt fyrir slíkt ákvæði stundum þótt nauðsynlegt að víkja því til hliðar. En út í það skal ég ekki fara.

Það er sagt, að það muni vera andstætt grundvallarreglum, sem íslenskur réttur byggir á, að láta lög verka aftur fyrir sig. En því er til að svara, að grundvallarreglur, sem ekki hafa verið teknar upp í stjórnarskrána, njóta ekki verndar 79. gr. stjskr. Almenni löggjafinn getur því sett þau ákvæði um slík efni sem honum sýnist og hann telur þörf á. Þetta á auðvitað ekki við ef slíkar grundvallarreglur hafa orðið svo ríkar að hægt er að segja að þær hafi orðið aða svokölluðum stjórnskipunarvenjum, eins og t.d. sú venja að dómstólar skeri úr því, hvort lög brjóti í bág við stjórnarskrá, eða t.d. þingræðisreglan. Slíkar reglur, sem taldar eru stjórnskipunarvenjur, njóta auðvitað verndar 79. gr. stjskr., þó að þær séu ekki orðaðar beinlínis í stjskr. Ég tel þess vegna, að í stjskr. sé ekki að finna neitt bann við útgáfu laga sem þessara. Og hvað sem almennt má segja um afturverkun laga, þá er það svo, að á sviði skattaréttarins hefur hér á landi kveðið meira að afturvirkum lögum á því sviði en á nokkru öðru sviði. Ég hirði ekki um að rekja fordæmi fyrir því, en það mundi vera hægt að telja upp meira en 30 lög frá síðustu 4–5 áratugum sem þannig hefur verið háttað um. Það liggur því líka í hlutarins eðli að mín skoðun er sú, að þessi lög séu ekki andstæð stjskr., því að ég hefði auðvitað ekki gefið þau út og undirritað þau nema af því að ég leit svo á að þau væru samrýmanleg stjskr. En vitaskuld eru því lítil takmörk sett, hvað um má deila ef menn á annað borð vilja deila, og sjálfsagt verður því haldið fram hér eftir sem hingað til af ýmsum, að lögin séu andstæð stjskr., og þá er auðvitað opin leið fyrir þá, sem halda því fram, að leita til dómstóla. Úrskurði dómstóla verða menn auðvitað að hlíta og þess vegna í sjálfu sér ástæðulaust að vera að fjölyrða um eigin skoðanir að þessu leyti. Mér kæmi ekkert á óvart, þó að farið yrði í prófmál um eitthvert af þessum atriðum, sem hér er um að tefla, t.d. einhver skattaatriðin. Þá er bara að sjá hvernig dómstólar líta á málið.

Hvað því viðvíkur, að þessi skattlagning sé siðlaus, þá er þar um að segja, að siðleysi er eitt af tískuorðum sem eru nokkuð mikið notuð, og því miður fer stundum svo um slík orð, að þau verða hálfmerkingarlítil vegna ofnotkunar. Ég ætla ekkert að ræða um það frekar, en vil undirstrika að hér er ekki um það að tefla að um sé að ræða skatta, sem eiga að renna beint til ríkissjóðs og standa undir opinberum þörfum í venjulegum skilningi, heldur er hér um að ræða þau miðlunarúrræði í efnahagslífinu sem notuð hafa verið æ ofan í æ í ríkari mæli í fjármálalífi bæði hér og annars staðar, að skattar eru notaðir til þess að færa á milli eignir. Slíkt er talið réttlætanlegt og eðlilegt. Það er ekki hægt að sjá hvernig hægt væri undir ýmsum kringumstæðum að ná tökum á stjórn efnahagslífs — á hagstjórn — nema það væri heimilt að grípa til slíkra miðlunarúrræða. Auðvitað eru því takmörk sett, hversu langt má ganga í þessu efni. T.d. þarf ekki að ræða um fjarstæðu eins og þá, að menn spyrja: Hvar eru mörkin, ef um svona skattlagningu er að ræða? — Auðvitað dettur engum í hug að fara megi aftur í tímann og leggja skatta á annað ár en það sem verið er að leggja á skatta á þessu ári. Þessu þarf því ekki að svara.

Ég skal herra forseti — fara að stytta mál mitt. Ég veit ekki hvort ég þarf aftur að taka til máls, þar sem ég geri ráð fyrir að þeir ráðh., eins og ég sagði áðan, sem málið varðar, muni þá ekki síður en ég taka til máls og halda uppi vörnum, ef þörf verður á, fyrir einstök atriði eða málið í heild. En ég vil að lokum aðeins segja það, að þessar ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur nú hrundið í framkvæmd, fela í sér tilraun til þess að rjúfa þann vítahring verðlags- og launahækkana sem hagkerfið hefur fests í að undanförnu og haft hefur í för með sér svo mikla rekstrarerfiðleika undirstöðuatvinnuvega að horfir til rekstrarstöðvunar og atvinnubrests. Þær fela a.m.k. í sér tilraun til þess að öðlast möguleika til að gera þetta. Þörf fyrir skjótar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir ófremdarástand í atvinnulífi landsmanna var fyrir hendi. Hér er farið inn á þá braut að draga úr verðbólgu með auknum niðurgreiðslum og lækkun óbeinna skatta á nauðsynjum. Í þessu felst auðvitað fjárhagsbyrði fyrir ríkissjóð og má því segja að hluta af verðbólguvandanum hafi verið breytt þannig í fjármálavanda fyrir ríkissjóð. Það er svo búið um hnútana með þessu frv. og brbl., að álagning nýrra skatta á árinu 1978 ásamt áformum um útgjaldalækkun dugir til að mæta þeim miklu útgjöldum og tekjutapi ríkissjóðs sem ráðstafanirnar hafa í för með sér á þessu ári. Á hinn bóginn dreifist skattheimtan vegna ráðstafananna á þessu ári á lengra tímabil en útgjöldin og því hafa þær óhjákvæmilega í för með sér að greiðsluhalli verður á ríkissjóði á þessu ári. Hins vegar verður, eins og ég hef áður sagt, lögð áhersla á að sá halli verði unninn upp á næsta ári, þannig að yfir 16 mánaða tímabil eða til ársloka 1979 náist jöfnuður í ríkisfjármálunum. Þessi jöfnuður er vitaskuld alger forsenda árangurs í viðnámi gegn verðbólgu.

Árangur í ríkisfjármálunum á næsta ári ræðst af þeim ráðstöfunum, sem verða gerðar með fjárl. ársins 1979, svo og af þeim kjarasamningum sem farið verður eftir eða kunna að verða gerðir frá 1. des. n.k. Við þær ákvarðanir kemur í ljós hvort auðnast hefur að nota það fé, sem þessum fyrstu aðgerðum er ætlað að skapa, til varanlegs viðnáms gegn verðbólgunni. En það skal fyllilega játað, að þetta fé er í minnsta lagi. Skattheimtan sem brbl. kveða á um, er einungis tímabundin, jafnvel öll tímabundin. Að vísu er hið sérstaka tímabundna vörugjald og ferðagjaldeyrisálagið bundið við næsta ár. En það verður auðvitað Alþ., sem tekur afstöðu til þeirra till. sem ríkisstj. leggur fram á Alþ. um útgjaldalækkun og frestun framkvæmda ásamt varanlegri tekjuöflun með breytingum á sköttum eða annarri tekjuöflun sem tryggir að ríkisfjárhagurinn haldist í jafnvægi.

Í fjárl. ársins 1979, sem lögð verða fram á næstu dögum, verður lagður grunnur að þessari aðhaldsstefnu. Henni verður síðan fylgt eftir með þeim áformum í lána- og peningamálum sem koma fram í lánsfjáráætlun ríkisstj. 1979, sem væntanlega verður lögð fram á Alþ. í nóvembermánuði. Þetta eru þau hagstjórnartæki sem ríkisvaldið hefur tök á að beita í viðureigninni við verðbólguna á næstu misserum. En auk þess verður, eins og ég hef margundirstrikað, lögð rík áhersla á samstarf og samráð við aðila vinnumarkaðarins um mótun tekjumálastefnu og haft samráð við þá um þau efni og þá löggjöf sem verður að setja til þess að fá heimildir til þeirrar tekjuöflunar sem nauðsynleg er til þess að samræmd verði þau markmið sem ríkisstj. hefur sett sér í efnahagsmálum.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.