29.01.1979
Efri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

104. mál, alþjóðasamningar um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Með frv. þessu er leitað heimildar fyrir ríkisstj. að staðfesta fyrir Íslands hönd þrjá alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu.

Alþjóðasamningur um íhlutun á úthafinu, þegar óhöpp koma fyrir sem valda eða geta valdið olíumengun, og atþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar voru gerðir í Brüssel í nóv. 1969. Voru þeir árangur af alþjóðlegri ráðstefnu sem var haldin dagana 10. til 29. nóv. 1969. Þriðji samningurinn, sem er alþjóðasamningur um stofnun alþjóðasjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar, var svo í framhaldi af alþjóðasamningnum um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar gerður í Brüssel í desember 1971, en hann hafði einnig verið undirbúinn á alþjóðlegri ráðstefnu, sem var haldin þá skömmu áður. Báðar þessar ráðstefnur voru haldnar fyrir forgöngu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMCO), en aðalfulltrúi Ístands hjá þeirri stofnun hefur um langt árabil verið Hjálmar Bárðarson og er hann þessum málum allra manna kunnugastur af okkar hálfu.

Alþjóðasamningurinn um íhlutun á úthafinu fjallar um aðgerðir strandríkis vegna skipskaða, sem verða kann á úthafinu, til varnar gegn olíumengun, ef talið er að skipskaðinn geti valdið tjóni á umhverfi og nytjum innan lögsögu strandríkis sé ekkert að gert. Samningurinn nær til olíumengunar af völdum hráolíu, brennsluolíu, dísilolíu og smurningsolíu. Strandríki, sem grípur til aðgerða samkv. samningi þessum, skal að jafnaði hafa samráð um aðgerðir við önnur viðkomandi ríki og þá sérstaklega við það ríki, sem skipið er frá. Strandríkinu er þó heimilt, þegar um brýna nauðsyn er að ræða, að gera ráðstafanir þegar í stað án undanfarandi ráðfærslu við aðra. Þá eru í samningnum ákvæði um að öll aðildarríki tilnefni sérfræðinga með ákveðna þekkingu og getur strandríki leitað ráða hjá þeim ef þörf krefur.

Til að tryggja rétt annarra aðila fyrir óþörfum aðgerðum strandríkis ber strandríki, sem hefur gert ráðstafanir er brjóta í bága við ákvæði samningsins, skylda til að greiða skaðabætur. Ef strandríki og viðkomandi aðili koma sér ekki saman um bætur getur annar hvor aðilinn skotið máli sínu til sáttanefndar eða, ef málið er ekki útkljáð hjá sáttanefnd, þá til gerðardóms.

Viðaukinn við samninginn fjallar um skipun sáttanefndar og gerðardóms svo og um starfsaðferðir þeirra. Þessi samningur hefur þegar öðlast alþjóðlegt gildi og voru aðilar að honum síðast þegar fréttist orðnir 31 talsins.

Alþjóðasamningurinn um einkaréttarlega ábyrgð fjallar um ábyrgð skipaeiganda ef skip hans veldur olíumengun í umhverfi sjávar. Samningurinn gildir fyrir tankskip sem flytja hráolíu, brennsluolíu, þykka dísilolíu, smurningsolíu og hvallýsi. Fjárhagsleg ábyrgð skipeiganda er bundin við 2000 franka fyrir hverja rúmlest sem í skipinu er, en þó á skipeigandi ekki rétt til að notfæra sér þessa takmörkun ef mengunin er honum sjálfum að kenna. Ábyrgð skipeiganda er hins vegar engin ef olíumengun verður vegna hernaðaraðgerða, ófriðar, borgarastyrjaldar, uppreisnar eða náttúruhamfara, sem eigi verða umflúnar eða ráðið við. Einnig fellur ábyrgð skipeigenda niður, ef um er að ræða áfall, sem þriðji aðili orsakar vísvitandi, eða ef áfallið má rekja til kæruleysis eða vanrækslu yfirvalda í viðhaldi siglingaljósa og annarra tækja.

Skipum, sem flytja meira en 2000 tonn af olíu í farmi, skal skylt að hafa vátryggingu eða aðra fjárhagslega tryggingu er svari til þeirrar hámarksábyrgðar er samningurinn kveður á um. Vottorð um að slík trygging sé í gildi skal gefið út fyrir hvert skip og skal vottorðið haft um borð í skipinu. Samningsríki skulu sjá um að slík trygging sé í gildi fyrir skip sem koma eða fara úr þeirra höfnum.

Samningur þessi hefur einnig öðlast alþjóðlegt gildi, því að aðilar að honum voru 34 talsins síðast þegar fréttist.

Þá er þriðji og síðasti samningurinn, en hann er um stofnun alþjóðasjóðs og var gerður í fyrsta lagi með því markmiði, að sjóðurinn yrði nokkurs konar baktrygging fyrir tjónþola olíumengunar, þegar þær hámarksbætur, sem skipeigendum er gert að greiða samkv. samningnum um einkaréttarlega ábyrgð, duga ekki til að bæta tjónþola upp það tjón sem hann hefur orðið fyrir. Í öðru lagi er sjóðnum ætlað að draga að nokkru leyti úr þeirri fjárhagslegu ábyrgð sem skipeigendum er sett samkv. ákvæðum samningsins um einkaréttarlega ábyrgð.

Fjárframlög í sjóðinn greiðast árlega af þeim sem flytja inn meira en 150 þús. lestir á ári af gjaldskyldri olíu, eins og hún er skilgreind í samningnum. Svartolía, sem flutt er til landsins frá Sovétríkjunum, mun því samkv. samningnum vera gjaldskyld, svo að dæmi sé nefnt sem snertir okkur Íslendinga.

Þessi þriðji samningur, sem er yngstur þessara þriggja, hefur enn ekki öðlast alþjóðlegt gildi samkv. ákvæðum hans sjálfs, því að aðeins 12 ríki höfðu síðast þegar við vissum staðfest hann. En búast má við því, að þeim fjölgi fljótlega og að samningurinn öðlist þá gildi á eðlilegum tíma.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að ákvæði samninganna skuli hafa lagagildi hér á landi þegar þeir hafa öðlast gildi að því er Ísland varðar, eins og segir í 2. gr.

Enn fremur er leitað heimildar fyrir ríkisstj. að staðfesta síðari breytingar á samningunum þannig að þær fái lagagildi hér á landi þegar þær hafa verið auglýstar í Stjórnartíðindum. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að leggja þurfi hvaða smábreytingu sem er á þessum samningum fyrir Alþ. í hvert sinn til þess að hljóta staðfestingu á þeim, en varla er búist við því að til komi svo veigamiklar breytingar að ástæða sé til að leggja þær fyrir Alþ. Að sjálfsögðu mun ríkisstj. gjarnan meta það og ef um veigamiklar breytingar er að ræða leggur hún þær fyrir þingið.

Ég þarf ekki að fjölyrða um hversu mikla þýðingu olíumengun getur haft fyrir Íslendinga og afkomu þeirra. Hafið umhverfis land okkar er sérstaklega viðkvæmt vegna fiskimiða og hlýtur því að vera okkur í hag að stuðla að því með aðild að þessum samningum, að föst skipan komist á þessi mál eftir því sem framast er unnt. Sérstaklega getur það haft mikla þýðingu, að strandríki öðlist — samkv. fyrsta samningnum — rétt til að grípa til sinna ráða.ef skyndilega ber slys að höndum af þessu tagi, því að stundum getur verið tafsamt að leita samþykkis annarra. Dæmi eru um það t.d. af miklu olíuskipsstrandi við Frakklandsstrendur, að deila milli ýmissa björgunaraðila olli þeim töfum, að slysið varð til mun meira tjóns en orðið hefði ef gripið hefði verið til gagnráðstafana þegar í stað.

Þá eru einnig mikils virði ákvæðin um fjárhagslega ábyrgð, enda þótt vel geti farið svo, ef um mikið slys væri að ræða í nágrenni okkar, að erfitt reyndist að meta það tjón. Ýmislegt getur komið fyrir í því sambandi. Nefna má að aðgerðir til þess að takmarka olíumengun, sem yrði frá minni háttar slysi, gætu orðið ærið kostnaðarsamar á okkar mælikvarða. Er því að minni hyggju töluvert öryggi í að samningsbinda þessa einkaréttarlegu ábyrgð og síðan að myndaður verði sjóður til að vera eins konar baktrygging í þeim efnum.

Ég tel því sjálfsagt fyrir Íslendinga að gerast aðilar að þessum samningum. Þeir hafa af okkar hálfu verið unnir af manni sem er mjög fær í öllum siglingamálum og þaulkunnugur starfsháttum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Það er því, herra forseti, till. mín, að frv. gangi til 2. umr. og hv. allshn.