29.01.1979
Efri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv. til laga um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils, sem hér liggur fyrir, var lagt fram á Alþ. skömmu áður en þm. héldu heim í jólaleyfi og vannst ekki tími né aðstaða til að taka það á dagskrá fyrir hátíðarnar. Þannig hafa hv. þm. haft aðstöðu til að kynna sér efni frv. ítarlega áður en það kemur nú til 1. umr. í hv. Ed.

Meginefni frv. er, eins og kunnugt er, að gert er ráð fyrir því, að frá og með áramótum 1980 hundraðfaldist verðgildi núverandi krónu. Jafngildir þá ein ný króna eitt hundrað gömlum krónum og á sama hátt jafngildir einn eyrir nýrrar krónu einni gamalli krónu. Breytist ákvæðisverð eldri seðla og myntar, sem þá eru í umferð, í samræmi við það. Gert er ráð fyrir því, að gjaldmiðill sá, sem löglega yrði út gefinn fyrir gildistöku laganna 1. jan. 1980, ef frv. þetta verður samþ., verði nefndur gömul króna til aðgreiningar frá gjaldmiðli gefnum út frá þeim degi er lögin taka gildi, en hann nefnist ný króna. Lagafrv. þetta tekur bæði til myntsláttu og seðlaútgáfu.

Nokkur tími er nú liðinn frá því að fyrst bar á góma hér á Alþ. á síðustu áratugum, að nauðsynlegt væri að auka verðgildi krónunnar. Árið 1962 lagði stjórnskipuð nefnd til að tífalda bæri verðgildi krónunnar, en sú tillaga náði ekki fram að ganga. Í nefndinni áttu sæti Jóhannes Nordal, Klemens Tryggvason og Sigtryggur Klemensson. Þeir skiluðu nál. 22. sept. 1962. Í inngangi nál. gera þeir grein fyrir því, að fjmrh. hafi beðið þá um að gera athuganir og tillögur varðandi eftirtalin tvö atriði:

1) Hvort heppilegt mundi vera að nota heimild í 8. gr. laga nr. 10 1961, um Seðlabanka Íslands, þar sem fjmrh. er heimilað að semja við Seðlabankann um að hann taki við myntsláttu af ríkissjóði.

2) Hvort æskilegt væri í sambandi við breytingu á fyrirkomulagi myntsláttu að gera breytingar á peningalöggjöfinni í þá átt að fella niður smæstu myntina, t.d. með því að tekin yrði upp ný og stærri mynteining en krónan er nú.

Niðurstaða nefndarinnar var sú, eins og áður segir, að það væri æskilegt að nota heimild seðlabankalaganna til að færa myntsláttuna í hendur Seðlabankans. Nefndin var einnig þeirrar skoðunar, að rétt væri að hefja þá þegar, á árinu 1962, undirbúning að því, að tekin yrði upp ný mynteining, tíu sinnum stærri en þágildandi króna. Nefndin færði eftirfarandi meginrök fyrir afstöðu sinni þá:

Í fyrsta lagi: Með stærri mynteiningu mundu falla niður allar myntir undir 10 aurum og með því sparast mjög verulegur kostnaður sem þessi smámynt hefði í för með sér fyrir ríkissjóð eða hvern þann aðila sem hefði myntsláttu með höndum.

Í öðru lagi sagði nefndin orðrétt: „Það mun tvímælalaust hafa í för með sér verulegt hagræði og vinnusparnað fyrir fyrirtæki og allan almenning og með stærri mynt mundi falla niður einn aukastafur úr öllum peningaupphæðum. Teljum við ekki vafa á því, að þetta muni verða vinsælt meðal allra sem við viðskipti fást á einn eða annan veg.“

Í þriðja lagi töldu nefndarmennirnir þrír, að breyting mynteiningarinnar og upptaka verðmeiri myntar hefði góð sálræn áhrif, eins og það var orðað, og mundi stuðla að því, sagði nefndin, „að styrkja á ný það traust til verðgildis íslensku krónunnar, sem svo mjög hefur rýrnað vegna verðbólgunnar s.l. tvo áratugi“. Má benda á að hæði Frakkar og Finnar, segir í áliti nefndarinnar, ákváðu að taka upp stærri mynteiningu. Í báðum þessum löndum mun myntbreytingin hafa mælst vel fyrir og verið vinsæl af öllum almenningi.

Í nál. þeirra þremenninganna var lögð mikil áhersla á það, að upptaka nýrrar mynteiningar krefðist mikils undirbúnings. Bent var á að í Frakklandi hefði með stuttum fyrirvara verið ákveðið að taka upp nýja mynteiningu, nýfrankann svonefnda, hundrað sinnum verðmeiri en gamla frankann. Var ákveðið að báðar myntirnar skyldu vera í umferð um skeið. Finnar fóru öðruvísi að og gáfu sér lengri tíma til undirbúnings. Var tekin upp ný mynteining þar um áramótin 1962–1963, hundrað sinnum stærri en gamla markið, en með sama nafni.

Þriggja manna nefndin velti því fyrir sér, hvert gæti orðið nafn hinnar nýju mynteiningar. Í nál. sagði: „Krónan kom fyrst til sögunnar 1875, en þá urðu myntskipti við Danmörku. Hún á því engar sögulegar rætur á Íslandi. Þær einingar, sem elstar eru í sögu Íslands og helst gætu komið til greina í stað krónu, eru mörk og alin. Af þeim virðist mörkin miklu álitlegri, en hún var sú eining er silfur var metið í og var í rauninni hliðstæð við eyrinn, sem nú er undireining hér á landi. Mörk, er skiptist í hundrað aura, er skemmtileg mynt fyrir

Íslendinga frá þjóðlegu og sögulegu sjónarmiði. Á móti mörkinni mun það helst mæla að okkar áliti, að beyging orðsins er óregluleg, sem mundi m.a. leiða til þess að hún yrði venjulega vitlaust beygð í fleirtölu þegar hún væri notuð í erlendum málum. Í þessu máli eru að sjálfsögðu mörg rök með og á móti og höllumst við undirritaðir fremur að því að halda ætti krónunni sem mynteiningu eftir breytinguna, enda hefur hún unnið sér hefð og er að mörgu leyti þægileg í notkun bæði innanlands og utan.“

Ég hef rakið þetta álit þriggja manna nefndarinnar frá árinu 1962 til þess að vekja athygli hv. þm. á því, að þegar eru liðin 17 ár síðan menn komust að þeirri niðurstöðu, að nauðsynlegt væri að gera róttækar breytingar í þessum efnum að því er varðar verðgildi okkar íslenska gjaldmiðils.

Þessi mál hafa iðulega verið rædd hér á Alþingi. Á Alþ. árið 1971 kom til umr. till. Björns Pálssonar, þáv. hv. alþm., um athugun á auknu verðgildi íslenskrar krónu. Till. Björns Pálssonar var samþ. í meginatriðum á 92. löggjafarþinginu og hafði þn. borist umsögn frá bankastjórn Seðlabankans. Bankastjórn Seðlabankans var þá andvíg þessari tillögu. Ástæðurnar voru raktar í umsögninni. Þar sagði m.a., eftir að fjallað hafði verið um tillögur þriggja manna nefndarinnar frá 1962 Sem ég gat um áðan:

Tillögur þessar, þ.e. þriggja manna nefndarinnar hlutu ekki hljómgrunn hjá þáv. ríkisstj. og voru sumir þeirrar skoðunar, að breyting á gjaldmiðlinum kynni engu að síður að geta vakið tortryggni almennings en traust hans. Einnig óx mönnum í augum sá mikli kostnaður sem slíkri breytingu hlyti að vera samfara. Það var á þessum grundvelli sem Seðlabankinn hóf skipulagningu á mynt- og seðlastærðum árið 1968. Með niðurfellingu smámyntanna innan tíu aura var náð öðrum megintilgangi hinnar umræddu gjaldmiðilsbreytingar, en jafnframt var kerfið gert hagkvæmara með útgáfu nýrra stærða af myntum og seðlum, eins og vikið er að hér að framan. Í ljósi þess, sem gerst hefur í þessum málum s.l. ár, telur bankastjórn Seðlabankans ekki rök til að taka upp þá hugmynd að nýju að tífalda verðmæti gjaldmiðilsins.“ — Þetta var á árinu 1971.

Í áliti og umsögn Seðlabankans vegna till. Björns Pálssonar sagði enn fremur:

„Þegar tillögunni var hafnað fyrir nærri tíu árum var snúið inn á aðra leið til endurskipulagningar á mynt- og seðlakerfinu og hefur þegar verið allmiklu til þess kostað. Með því náðist einnig, eins og áður segir, sama hagkvæmni og með tíföldun gjaldmiðilsins að því er varðar niðurfellingu smæstu mynteininganna. Við þetta bætist svo það, að verðmæti peninganna hefur enn rýrnað verulega síðan fyrrgreindar tillögur um nýja gjaldmiðilseiningu voru fram settar fyrir tíu árum. Tíföldun á verðgildi núgildandi krónu mundi þýða það, að smæsta einingin yrði jafngildi tíeyrings í dag, en hef að framan hafa þegar verið færð rök fyrir því að sú eining sé þegar orðin of lítil“ — þ.e.a.s. á árinu 1971. Einnig er á það að benda, að íslenska krónan mundi eftir slíka breytingu verða minni að verðgildi en nokkur hinna Norðurlandamyntanna. Verðgildi þeirra er hins vegar orðið það lítið, að felldar hafa verið úr umferð myntir undir 5 aurum. Af þessu verður vart dregin önnur ályktun en sú, að gjaldmiðilsbreyting svari ekki kostnaði úr því sem komið er, nema menn treysti sér til þess að ganga mun lengra og hundraðfalda verðgildi krónunnar, þannig að hinn nýi gjaldmiðill yrði aðeins meiri að verðgildi en dollarinn er í dag.“ — Og ég endurtek að það var á árinu 1971 sem þetta var sagt. — „Smæsta einingin í slíku kerfi mundi jafngilda einni krónu, en telja verður vafasamt að rétt sé að stiga svo stórt skref fyrr en áður hefur verið reynt hvort almenningur muni sætta sig við það. Það má hins vegar kanna með því að fella niður núgildandi smámyntir í áföngum, uns krónan er orðin að smæstu mynteiningunni.“ — Hér lýkur tilvitnun í umsögn Seðlabankans um till. Björns Pálssonar frá árinu 1971.

Þegar Björn Pálsson hv. alþm. mælti fyrir till. sinni rökstuddi hann hana m.a. á þessa leið: „Við vitum það með alla hluti, sem mönnum er annt um, að þeir fara betur með þá, ef þeir álita þá mikils virði. Við getum bara tekið góða bók og vel bundna — menn fara betur með hana en einhverja ómerkilega skræðu,“ sagði Björn. „Ef maður á t.d. hest, fer hann betur með gæðinginn heldur en einhvern hest, sem hann lætur sér ekki annt um og telur lítils virði. Og við getum tekið fötin sem einstaklingarnir ganga í. Menn reyna að ganga betur um góðar íbúðir en lélegar. Þetta eru sálræn áhrif,“ sagði Björn. „Ef peningarnir eru lítils virði, fara menn óvarlegar með þá og meta þá lítils. Og þannig er það með önnur þjóðfélög. Þau líta heldur smáum augum fjármálavit þeirrar þjóðar, sem hefur lítið verðgildi í peningum og er sí og æ að fella gengið.“

Í umr. um till. Björns Pálssonar tók þátt m.a. Gunnar Thoroddsen, hv. núv. 11. þm. Reykv., og greindi frá því, að ástæðan til þess, að ekki varð um myntbreytingu að ræða upp úr árinu 1962, hafi verið sú, að ekki náðist samstaða í þáv. ríkisstj., viðreisnarstjórninni sem svo var kölluð. Það tókst ekki að vinna nægilegt fylgi fyrir þessari breytingu og féll því málið niður, sagði Gunnar Thoroddsen. Síðan sagði hann orðrétt í þessum umr.:

„Ég er sömu skoðunar nú og þegar ég hreyfði þessu máli hér á Alþ. 1958 og eins þegar þessar athuganir voru gerðar á vegum fjmrn. 1962. Ég er enn sömu skoðunar, að við eigum að breyta um mynteiningu og taka upp stærri einingu en nú er. Hins vegar er náttúrlega orðin veruleg breyting á þessum síðasta áratug, og það hvarflar að manni, hvort það eigi ekki fremur þá nú á næstunni að tala um tvö núll heldur en eitt,“ eins og segir orðrétt í þingtíðindum.

Öðru sinni tók Gunnar Thoroddsen undir þau rök, sem flutt voru á árinu 1962, um það, að þrátt fyrir að margt mælti með því að breyta um nafn á myntinni, þá hefði krónunafnið unnið sér hefð í málinu á liðlega hundrað árum og það nafn væri að mörgu leyti þægilegt í notkun bæði innanlands og utan, eins og hann komst sjálfur að orði.

Á 98. löggjafarþinginu lagði Lárus Jónsson, hv. núv. 5. þm. Norðurl. e., fram till. til þál. um könnun á hundraðföldun verðgildis íslenskrar krónu. Till. hv. þm. var á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna hvort hagkvæmt sé og tímabært að auka verðgildi íslenskrar krónu þannig að 100 kr, verði að einni. Við mat á hagkvæmni þessarar breytingar á verðgildi gjaldmiðilsins skal þess gætt, hvort hún stuðlar að hagkvæmri myntsláttu og seðlaútgáfu jafnframt því að auka virðingu almennings og traust á gildi peninga. Í þessu sambandi er ríkisstj. falið að meta, hvort kostnaður við áðurnefnda gjaldmiðilsbreytingu yrði verulegur, ef hún yrði framkvæmd þannig að núgildandi seðlar og mynt yrðu í umferð að meira eða minna leyti samtímis nýjum gjaldmiðli í ákveðinn umþóttunartíma, t.d. 2 – 3 ár.“

Fjh.- og viðskn. hv. Nd. fjallaði um till. hv. þm., og samþykkti n. að leggja til að henni yrði vísað til ríkisstj. Féllst Alþ. á þá till. nefndarinnar.

Í umsögn sinni um þessa till. hv. þm. Lárusar Jónssonar sagði Seðlabankinn 24. mars 1977, að ef taka ætti upp nýja mynteiningu kæmi ekki annað til greina en að hún yrði hundrað sinnum meiri að verðgildi en núgildandi króna, sem skiptist í 100 smærri einingar eða aura.

Þau rök, sem notuð hafa verið til þess að styðja verðgildisbreytingu krónunnar, eru af margvíslegum toga, mörg þeirra tæknilegs eðlis, og hafa mörg þeirra verið rakin áður hér á Alþ. Að sumum þeirra mun ég koma síðar í ræðunni, en segja má að hér á Alþingi Íslendinga hafi þegar komið fram það viðhorf löggjafans, að hann vilji sýna áhuga og skilning á nauðsyn þess að styrkja verðgildi krónunnar frá því sem það er nú.

Eins og kunnugt er eru núgildandi lög um gjaldmiðil Íslands nr. 22 frá 23. apríl 1968. Fram til þess tíma voru lög um íslenskan gjaldmiðil í hinum dönsku peningalögum frá 1873, sem birt voru hér á landi í sept. sama ár. Hinar gömlu norrænu mynteiningar, ríkisdalur og spesía, voru þá lagðar niður og sameiginlegur myntfótur tekin upp í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, svo og á Ístandi, sem þá var talið hluti Danaveldis. Stofnuðu löndin með sér myntsamband, Skandinavisk møntunion, og tóku upp sameiginlega mynteiningu — krónu sem skiptist í 100 aura.

Í dönsku peningalögunum var boðið, að gull skyldi vera grundvöllur gjaldmiðils Danmerkur og Íslands, silfur og aðrir ódýrari málmar hafðir í smápeninga. Slegnir skyldu tveir gullpeningar og skyldu af öðrum þeirra ganga 248 peningar á eitt kg af skíru gulli, en af hinum 124 peningar. Tuttugasti hluti fyrrnefnda peningsins og tíundi hluti síðarnefnda peningsins skyldu vera reikningseiningin og nefnast króna, er skiptist í 100 aura. Gullpeningar þessir skyldu slegnir úr peningagulli málmblöndu sem innihéldi 90 hluta af skíru gulli og 10 hluta af eir. Þá var gert ráð fyrir, að einnig skyldu slegnir 6 silfurpeningar, 10,25, 40 og 50 aurar, 1 og 2 kr. Peningar þessir skyldu slegnir úr blöndu af hreinu silfri og eir og skyldi silfurmagnið nema 4/5 hlutum. Þá skyldi slá þrjá koparpeninga að verðgildi 1, 2 og 5 aura, úr málmblöndu er innihéldi 95 hluta af eir og 5 hluta af öðrum málmum.

Norræna myntsambandið hafði veruleg áhrif, þar sem sama mynt gilti um öll Norðurlönd með sama gengi og peningar Norðurlanda voru þá innbyrðis gjaldgengir í hverju ríki.

Peningar voru slegnir í öllum löndum, en um sjálfstæða íslenska mynt var hins vegar ekki að ræða í fyrstu. Voru Norðurlandakrónur, aðallega danskar, ekki fáséðar í umferð hér á landi eftir því sem auraráð jukust, en seðlar frá Norðurlöndunum urðu hins vegar aldrei algengir hér á landi.

Á árinu 1885 fékk landssjóður heimild til þess að gefa út 500 þús. kr. í seðlum, hina fyrstu íslensku seðla. Fékk Landsbankinn, sem stofnaður var með lögum nr. 14 18. sept. 1885, sama ár seðlana til ráðstöfunar, en landssjóður ábyrgðist jafngengi þeirra við dönsku krónuna. Seðlarnir voru að verðgildi 5, 10 og 50 kr. og gefnir út með eiginhandaráritun tveggja embættismanna. Eigi voru seðlarnir innleysanlegir með gulli og þeir voru ekki seljanlegir erlendis.

Með lögum nr. 2 frá árinu 1900 var seðlaútgáfuheimild landssjóðs hækkuð um 250 þús. kr., eða í alls 750 þús. kr. Þótti seðlaþörfinni þannig fullnægt til ársins 1904, er Íslandsbanki tók til starfa og fékk einkarétt til seðlaútgáfu hér á landi, en með lögum nr. 11 frá 7. júní 1902 var samþykkt að leyfa stofnun hlutafélagsbanka á Íslandi er aðallega starfaði með erlent fjármagn. Banki þessi skyldi hafa einkarétt til að gefa út seðla í 30 ár, allt að 2.5 millj. kr. Seðlarnir voru að verðgildi 5, 10, 50 og 100 kr. og voru innleysanlegir með gulli. Var seðlaútgáfunni haldið í þessu formi næsta áratug, en með lögum frá 1914 var Íslandsbanki undanþeginn þeirri skyldu að innleysa seðla sína með gulli. Undanþága þessi var tímabundin, en var framlengd og síðan afnumin með lögum árið 1920. Hafði þörfin fyrir aukið seðlamagn farið hraðvaxandi á þessum árum og hafði bankinn nokkrum sinnum orðið að fá nýja heimild til að auka seðlaútgáfuna og var hún að fullu gulltryggð í fyrstu. En með brbl. á árinu 1920 var bankanum heimilað að auka seðlaútgáfuna í 12 millj. kr. og þá án þess að auka gulltryggingu sína. Umræddir tveir bankar störfuðu þannig fram til ársins 1927 og áttu drjúgan þátt í þeim efnahagsbreytingum, sem áttu sér stað á Íslandi framan af þessari öld.

Umsvif Íslandsbanka voru meiri framan af, en eftir heimsstyrjöldina fór Landsbankinn að draga verulega á hann, einkum þó með setningu landsbankalaganna frá 1927 og laga nr. 10 frá 15. apríl 1928 um Landsbanka Íslands. Var Landsbankinn þá jafnhliða gerður að seðlabanka og fékk einkarétt til seðlaútgáfu og skyldi bankinn gefa út seðla, sem fullnægðu gjaldmiðilsþörf í innanlandsviðskiptum. Í lögunum er gert ráð fyrir að seðlar hans séu gulltryggðir og innleysanlegir með gulli, en tekið fram, að ákvæði um innlausnarskylduna komi ekki til framkvæmda nema Alþ. ákveði svo.

Fyrstu seðlarnir, sem Landsbankinn gaf út, voru að verðgildi 5, 10, 50 og 100 kr., en í ársbyrjun 1933 lét bankinn nýja seðla í umferð með sömu verðgildum og áður, en 500 kr. seðlar komu síðar í umferð eða á árinu 1944. Bankaráð Landsbankans ákvað, að þessir nýju seðlar skyldu prentaðir hjá Bradburg Wilkinson & Co., þar sem íslensku seðlarnir hafa verið prentaðir síðan, en áður hafði danski þjóðbankinn annast prentunina. Var seðlaútgáfa þannig nánast óbreytt til ársins 1954, nema hvað breytt var um lít seðlanna við seðlaskipti og eignakönnun í ársbyrjun 1948.

Um Íslandsbanka er það að segja, að hann lenti í miklum fjárhagsörðugleikum á árinu 1929 og var lýstur gjaldþrota árið eftir, en á grunni hans, með lögum nr. 7 frá 1930, var stofnaður Útvegsbanki Íslands hf. M.a. skyldi hinn nýi banki draga inn seðla þá, er Íslandsbanki hafði gefið út, og skyldi innlausn seðlanna vera lokið í okt. 1933, en varð þó eigi fyrr en í árslok 1939.

Með lögum nr. 63 1957 var Landsbankanum skipt í tvær fjárhagslega sjálfstæðar stofnanir, sem lutu hvor sinni stjórn. Voru fljótlega gefnir út nýir seðlar með nafni Landsbanka Íslands, Seðlabankans, að verðgildi 5, 10, 25, 100 og 1000 kr. Haldið var óbreyttum reglum um gulltryggingu og gullinnlausnarskyldu bankans, en að því er hana varðaði skyldi hún þó því aðeins taka gildi að Alþ. ákvæði svo.

Gjörbreyting var gerð á þessu fyrirkomulagi þegar tengsl bankanna voru algerlega rofin með setningu laga nr. 10 frá 1961, um Seðlabanka Íslands. Hóf bankinn starfsemi sína 7. apríl það ár og tók við öllum skyldum og réttindum seðlabanka sem hluta af Landsbanka Íslands. Ekki verður hlutverk Seðlabankans rakið hér, en í lögum bankans segir m.a., að hann skuli annast seðlaútgáfu og vinna að því að peningamagn í umferð sé hæfilegt. Seðlar, sem bankinn gefur út, skulu vera tryggðir með gulli eða erlendum gjaldeyri, en ákvæðin um gullinnlausn voru felld niður.

Seðlar með nafni Seðlabanka Íslands, sem gefnir hafa verið út samkv. ofangreindum lögum, eru að verðgildi 10, 25, 100, 500, 1000 og 5000 kr. Fyrstu seðlarnir með nafni bankans voru 1000 kr. seðlar, sem settir voru í umferð í júní 1963, 25 og 100 kr, seðlarnir komu í umferð á árinu 1965 og 10 kr. árið 1966. Þessar seðlastærðir voru nákvæmlega sömu gerðar og seðlarnir frá 1959 og látnir í umferð jafnóðum og hinir gengu úr sér, Í maí 1968 var gefinn út nýr 500 kr. seðill, og ný seðlastærð að verðgildi 5000 kr. var látin í umferð íapríl 1971. Nú eru aðeins fjórar seðlastærðir í umferð, að verðgildi 100, 500, 1000 og 5000 kr. og hafa allar aðrar seðlastærðir verið innkallaðar með reglugerðum viðskrn.

Með sambandslögunum frá 30. nóv. 1918 fékk landið rétt til sjálfstæðrar myntútgáfu. Þessi réttur var þó ekki nýttur til að byrja með, enda óþarft þar sem jafngengi var á íslenskri og danskri krónu fram á árið 1920. Þá fór hins vegar að gæta lækkunar á verðgildi íslensku krónunnar gagnvart dönsku krónunni, og varð það til þess að myntin dróst smám saman úr umferð hér. Leiddi þetta til þess, að íslenska ríkið gaf út sína fyrstu sjálfstæðu mynt árið 1922, þegar slegnir voru 10 og 25 aura peningar. Vegna skorts á krónupeningum, sem á þessum árum voru úr silfri eins og fyrr segir, greip ríkið hins vegar til þess ráðs að gefa út krónuseðla samkv. lögum frá 1885 og 1900 um Landsbanka Íslands. Hér var um seðlaútgáfu að ræða, en samræmisins vegna þykir rétt að geta hennar hér í tenglum við myntina.

Íslensk myntútgáfa var fastákveðin í lögum nr. 19 frá 1925, en þar var ákveðið að slegin skyldi skiptimynt, sem einungis væri gjaldgeng hér á landi. Verðgildi myntarinnar var ákveðið i, 2, 5, 10 og 25 aurar, 1 og 2 kr. og voru ákvæði í lögunum um málmblöndu myntanna. Í aths. með lögum þessum kemur fram, að það hafi skapað mikla erfiðleika eftir að gengi peninga á Norðurlöndum hafði orðið mismunandi, að skiptimynd hafi þá streymt til þess lands sem hæst gengi hafði. Þetta hafi orðið til þess, að gerður hafi verið viðauki við myntsamninginn frá 1873, þar sem ákveðið var að hvert aðildarríkjanna fyrir sig mætti láta slá sérstaka mynt til innanríkisafnota eingöngu.

Með lögum frá 1926 var ríkisstj. heimilað að ganga inn í umræddan viðbótarmyntsamning og jafnframt tekið fram, að skiptimynt frá Norðurlöndunum hætti að vera löglegur gjaldmiðill á Íslandi.

Þess ber að geta, að aftur varð nokkur skortur á skiptimynt hér á landi í heimsstyrjöldinni síðari og var þá ríkisstj. heimilað með lögum frá 1941 að gefa út 500 þús, kr. í einnar krónu seðlum. Var þessi heimild hækkuð um helming á árinu 1947. Gert var ráð fyrir að krónuseðlar þessir væru innkallaðir þegar nægar birgðir væru fyrir hendi af einnar krónu mynt, en af því varð þó ekki fyrr en í árslok 1974, þegar hinar gömlu úreltu myntstærðir voru loksins innkallaðar.

Segja má að myntútgáfan hafi þannig verið nánast óbreytt í höndum ríkissjóðs í liðlega fjóra áratugi, eða þar til Seðlabankinn tók við henni á árinu 1968. Þær einar breytingar urðu á þessu tímabili, að hætt var að slá tveggja aura peninga 1942 og útlit myntarinnar breyttist eftir stofnun lýðveldisins, en fyrsta lýðveldismyntin var slegin árið 1946. Íslensk skiptimynt var slegin hjá konunglegu dönsku myntsláttunni til ársins 1940, en hefur verið framleidd síðan hjá Royal mint í London.

Í seðlabankalögunum frá 1961 var fjmrh. heimilað að semja við Seðlabankann um yfirtöku og útgáfu og dreifingu myntar og var gerður samningur þess efnis á árinu 1966, en aðalinntak hans var að bankinn fékk einkarétt til þess að slá og gefa út mynt frá 1. apríl 1967. Ekki komst þó myntsamningurinn til framkvæmda fyrr en á árinu 1968 eins og áður segir, þegar Seðlabankinn fékk nauðsynlegar geymslur fyrir myntina og bætt afgreiðsluskilyrði. Seðlabankinn hefur síðan gefið út 4 nýjar myntstærðir: 10 kr. árið 1968, 50 aura og 5 kr. árið 1969 og 50 kr. pening árið 1970. Í okt. 1976 var látin í umferð nýr krónupeningur úr áli, allmiklu minni en gamla krónan. Hefur þessi breyting mælst misjafnlega fyrir, en hún var talin óumflýjanleg þar sem málminnihald gömlu krónunnar eitt var orðið meira virði en verðgildi hennar og kostnaðarverð þrefatt hærra. Í dag eru 4 myntstærðir í umferð að verðgildi 1, 5, 10 og 50 kr., en aðrar myntstærðir hafa verið innkallaðar.

Sameining seðla- og myntútgáfunnar markaði þáttaskil í peningaútgáfu hér á landi, þar sem þá skapaðist tækifæri til að samræma seðla- og myntstærðir á þann hátt sem hagkvæmast þætti á hverjum tíma. Strax eftir að Seðlabankinn hafði tekið við útgáfu myntarinnar var hafist handa um endurskipulagningu á seðla- og myntútgáfu og voru ný lög um gjaldmiðil Íslands frá árinu 1968 lögð þar til grundvallar. Síðan hefur útgáfa gjaldmiðilsins nánast verið í stöðugri endurskoðun, sem hefur miðað að því að draga úr kostnaði og jafnframt að fullnægja kröfum viðskiptalífsins í landinu.

Eins og áður hefur verið greint frá hafa verið gefnir út seðlar með auknu verðgildi og slegin mynt í stað smærri seðlastærðanna. Mikilvægasti þátturinn í þessum breytingum hefur þó verið niðurfelling smámyntar minni en einnar krónu. Var í ársbyrjun 1969 felld niður slátta á koparpeningum og lögfest að fjárhæð hverrar kröfu skyldi greidd með heilum tug aura.

Frá 1. jan. 1975 hefur krónan verið lægsta mynteiningin, en með því voru í reynd strikaðir út tveir aukastafir í öllum fjárhæðum sem notaðar eru í bókhaldi og viðskiptum. Hefur þannig að nokkru leyti þegar verið náð þeirri beinu hagkvæmni sem hundraðföldun á verðgildi krónunnar hefur í för með sér.

Eins og kunnugt er hefur um alllangt skeið verið unnið að tillögum í Seðlabankanum um endurskipulagningu seðla- og myntútgáfu, sem sökum mikilla verðbreytinga á undanförnum árum er orðin óhagkvæm. Jafnframt hefur verið kannað, hvort ekki væri tímabært að taka upp breyttan gjaldmiðil, hundrað sinnum verðmeiri en núgildandi króna er, um leið og nýir seðlar og mynt kæmu í umferð.

Í aprílmánuði 1978 kynnti Seðlabankinn opinberlega hugmyndir sínar í þessum efnum. Var þá lögð áhersla á að bankinn teldi tímabært orðið að taka upp breyttan gjaldmiðil hér á landi og mikilvægt að nota það tækifæri til þess að styrkja þann ásetning stjórnvalda og almennings í landinu að sigrast á verðbólguvandanum. Í umr. þeim, sem fram fóru í tilefni af þessari kynningu, kom yfirleitt fram jákvæð afstaða almennings gagnvart slíkri gjaldmiðilsbreytingu og þeim hugmyndum um mynt og nýja seðla sem kynntar voru. Í framhaldi af þessum umr. var á vegum Seðlabankans haldið áfram í samráði við ríkisstj. undirbúningi hinnar nýju mynt- og seðlaútgáfu, og hefur nú verið lokið hönnun og frágangi hvors tveggja, þannig að hægt verður fljótlega að ganga frá endanlegum samningum um framleiðslu sem lokið yrði á síðara helmingi þessa árs, ef Alþ. samþykkir þá breytingu sem hér er lagt til að gerð verði.

Niðurstöður þeirra kannana, sem gerðar hafa verið, og helstu röksemdirnar fyrir gjaldmiðilsbreytingu þeirri, sem hér um ræðir, eru í meginatriðum þessar:

Vegna stöðugrar rýrnunar á verðgildi krónunnar er nú nauðsynlegt að gera breytingar á seðla- og myntútgáfunni til þess að fullnægja eðlilegum kröfum viðskiptalífsins og til aukinnar hagræðingar við útgáfuna. Áframhaldandi verðbólguþróun, sem haft hefur í för með sér hjá öra verðrýrnun krónunnar s.l. ár, kallar nú óhjákvæmilega á frekari endurskoðun á mynt- og seðlastærðum, sem eru að ýmsu leyti orðnar dýrar og óhentugar í útgáfu og notkun. Kemur þar fyrst til, að mikil þörf er fyrir nýja og verðmeiri seðla. Hvílir meginþungi seðlaútgáfunnar nú á 5000 kr. seðlum og er hlutdeild þeirra í hinu sívaxandi seðlamagni nú orðin liðlega 86%, eða nokkru meiri en hlutdeild 1000 kr. seðilsins var þegar 5000 kr. seðlarnir fóru fyrst í umferð í apríl 1971. Nauðsynlegt er af hagkvæmnisástæðum að gefa út verðmeiri mynt í stað minnstu seðlanna. Áð fjölda til er nú helmingur seðlamagnsins í 100 kr. seðlum og er endingartími þeirra aðeins um 10 mánuðir. Því er endurnýjun þeirra mjög kostnaðarsöm og geysileg vinna er í stofnun eins og Seðlabankanum við greiningu þeirra, talningu og pökkun. Gegnir öðru máli um mynt sem enst getur í áratugi og er greind og talin í vélum sem mannshöndin kemur vart nærri.

Þá verður ekki dregið lengur að minnka þær myntstærðir sem fyrir eru. Þegar ákveðin var stærð þeirra mynta, sem nú eru látnar í umferð, var sá vandi á höndum að hinar nýju myntir urðu að vera annarrar stærðar en þær úreltu myntstærðir sem í umferð voru. Eftir innköllun gömlu myntarinnar hefur skapast tækifæri til að breyta þeim myntstærðum, sem eftir eru í umferð og eru nú orðnar of stórar og dýrar í framleiðslu miðað við verðgildi. Þannig er framleiðslukostnaður krónupenings í dag 2.60 kr. hver peningur, 5 kr. peningurinn kostar í framleiðslu í dag 8.65 kr. hver peningur, 10 kr. peningurinn kostar í dag 12.50 kr. í framleiðslu og 50 kr. peningurinn kostar 24.65 kr. í framleiðslu. Útstreymi 1, 5 og 10 kr. peninga er áætlað um 90 millj. kr. á þessu ári, en framleiðslukostnaðurinn á þessum 90 millj. kr. er samkv. ofangreindu um 123 millj. kr. Það eitt sýnir hversu myntin er orðin óhagkvæm í útgáfu. Samkv. tilboði frá Royal mint í London í sláttu á nýrri og breyttri mynt kostar hins vegar hver nýr 5 kr. peningur, eða að breyttu verðgildi 5 aura, aðeins 2.70 kr. í stað 8.65 kr. í dag. Er sama að segja um aðrar myntstærðir, en þar er gert ráð fyrir að málmi myntarinnar verði breytt og hún minnkuð til muna frá því sem nú er.

Í öðru lagi: Þar sem gjaldmiðilsbreyting er talin tímabær nú eða á næstu árum, er augljóst að hagkvæmt er að hún fari fram um leið og endurskipulagning seðla- og myntstærðanna, en með því móti sparast verulegur aukakostnaður sem samfara væri gjaldmiðilsbreytingu á öðrum tíma. Talið er að gjaldmiðilsbreytingin muni kosta um 380 millj. kr. á núgildandi verðlagi, en þá er ótalinn nokkur kostnaður og aukin vinna fyrir ýmsa aðila meðan á breytingunni stendur. Á móti öllum þessum kostnaði kæmi margs konar hagræði og sparnaður, og má fullyrða að sá kostnaður, sem er samfara skynsamlegum breytingum á gjaldmiðlinum, skili sér fljótt aftur í einni eða annarri mynd.

Í þriðja lagi er það nefnt sem röksemd fyrir breytingu á verðgildi íslensku krónunnar, að talið er að hið lága og sílækkandi verðmæti íslensku krónunnar eigi sinn þátt í því að grafa undan virðingu fyrir verðmætum og áhuga manna á því að hamla gegn verðbólgu. Þótt gjaldmiðilsbreyting hafi vitaskuld engin áhrif á þróun verðbólgu út af fyrir sig má engu að síður ætla að hún gæti orðið brýning til að takast á við vandann af meiri einurð en áður og þannig orðið tákn nýs tímabils í stjórn efnahagsmála. Ýmis dæmi má finna í sögu annarra þjóða, sem styðja þessa skoðun.

Glíman við verðbólguna er nú höfuðviðfangsefni íslenskra stjórnmála og stjórnvalda og ættu því allar breytingar, sem létta þá baráttu, að vera vel þegnar og tímabærar. Núv. hæstv. ríkisstj. vinnur nú að mótun heildarstefnu í efnahagsmálum til tveggja ára. Vissulega getur verðgildisbreyting krónunnar, eins og hér er gert ráð fyrir, hjálpað til við að skapa almennan áhuga og skilning á því að treysta stoðir efnahagslífsins. Meginforsenda árangurs er vissulega sú, að allur almenningur skynji svo að segja daglega að jákvæðar breytingar séu að eiga sér stað. Þannig skapast skilningur og áhugi fjöldans umfram það sem ella væri. Um leið verður verðgildisbreytingin stjórnvöldunum sjálfum brýning til átaka. Vissulega mun verðgildisbreytingin ein sér ekki skipta sköpum um framvindu efnahagsmála, en hún getur hjálpað til og vonandi verður svo.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég vil leggja á það mikla áherslu, að d. hraði nokkuð meðferð sinni á þessu máli þannig að það liggi fyrir, áður en þing fer til sumarleyfis a.m.k., hver er vilji löggjafans í þessum efnum. Sá undirbúningur, sem hefur farið fram varðandi myntbreytinguna, bindur engan, hvorki Alþ. né aðrar stofnanir í þjóðfélaginu, en ef önnur stefna yrði mörkuð, þá er nauðsynlegt af tæknilegum og fjárhagslegum ástæðum, eins og allir skilja, að sú breyting liggi fyrir hið allra fyrsta. Það er nauðsynlegt að undirbúa umskipti eins og verðgildisbreytingu krónunnar ákaflega vel og með löngum fyrirvara. Ef hv. Alþ. samþykkir þetta frv. nú á þessum vetri, þá á að skapast nægur undirbúningstími til þess að þessi breyting geti gengið á sem misfellulausastan hátt, þannig að allir megi vel við una og að breytingin valdi ekki óróa og óþarfaruglingi í efnahags- og viðskiptalífi landsmanna.