25.10.1978
Neðri deild: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

39. mál, kjaramál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Við þessa 1. umr. um frv. til l. um kjaramál vil ég leggja á það áherslu, að þetta frv. og brbl., sem það er flutt til staðfestingar á, sem og önnur brbl. hæstv. ríkisstj. eru í heild skoðuð ekki til þess fallin að leysa þann vanda sem að steðjaði, heldur verða þau til þess að auka á vandann og gera hann illleysanlegri þegar til lengdar lætur.

Ég hlýt við þessa 1. umr. um þetta frv. að fara nokkuð í einstaka kafla þess og vil í því sambandi gera þær aths. við I. kafla þessa frv. um kjarasamninga og greiðslu verðbóta á laun, að þau ákvæði, sem þar greinir, efna ekki fyrirheit stjórnarandstöðuflokkanna fyrrv. að setja samningana í gildi. Með þessum brbl. eru þeir uppvísir að því að svíkja þetta kosningaloforð, mesta glamuryrði íslenskra stjórnmála fyrr og síðar.

Í 2. gr. kemur það bersýnilega fram, að samningarnir eiga ekki að ganga í gildi á öllum sviðum, og við höfum þegar heyrt mótmæli, sem lúta að þessum vanefndum, og hótanir um gagnráðstafanir. Það er því ljóst, að þessi brbl. ná ekki heldur þeim tilgangi sínum að skapa frið á vinnumarkaðinum. Það er svo saga einnig til næsta bæjar, að með öðrum ákvæðum þessa frv. og brbl. er verið í raun og veru að svíkjast aftan að launþegum, reyna að blekkja þá og telja þeim trú um að samningarnir hafi gengið í gildi, og vík ég að því síðar.

En áður en það er gert vil ég sérstaklega nefna 3. gr. þessa frv. sem segir að „frá 1. des 1978 og þar til um annað hefur verið samið skuli grunnlaun og tilhögun verðbóta á laun haldast óbreytt eins og ákveðið er frá 1. sept. 1978 samkv. almennum kjarasamningum, sem gerðir voru á árinu 1977 og á fyrstu fimm mánuðum 1978 og samkv. lögum þessum.“ Hæstv. forsrh. tók fram, að hér væri ekki verið að skerða samningsfrelsi aðila vinnumarkaðarins, hér væri aðeins rætt um það sem gilda skyldi þar til um annað hefði verið samið. Samt sem áður er ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. í tilefni af þessari grein, hvort samfara samningsfrelsi gildi og óskoraður réttur samtaka aðila vinnumarkaðarins um verkbönn eða verkföll ef ekki náist samningar milli aðila.

Ég vek einnig athygli á því, að nú allt í einu, samkv. 3. gr., eru laun og tilkostnaður atvinnuveganna, sem felst í launagreiðslum, orðin veigamikill þáttur við úrlausn efnahagsmála og efnahagsvandans. Fyrir kosningar var talað um að launakostnaðurinn í landinu hefði ekkert að segja varðandi verðbólguvöxt eða rekstrarvanda atvinnuveganna. Nei, það voru bara illmenni í hópi þáverandi stjórnarliða sem héldu þessari firru fram. Þá var enginn fyrirvari gerður á því, að samningarnir ættu að fara í gildi. Þá var launþegum ekki sagt, að ef samningarnir gengju í gildi yrði allt grunnkaup óbreytt í heilt ár frá því að samningarnir yrðu útrunnir. Það nefndi enginn á nafn.

Ég vek enn fremur athygli á því, að núv. ríkisstj. og formælendur hennar segja sem satt er, að nauðsynlegt sé að endurskoða verðbótavísitöluna. En er samstaða um það innan ríkisstj.? Mér skilst, að forsvarsmenn Alþb. telji það algert aukaatriði og lofi engu um það, jafnvel þótt formaður Alþb. hafi einhvern tíma verið að tala um að kaupgjald æddi upp samkv. vísitölunni. En fyrir kosningar var ekki talað um það, að endurskoðun vísitölunnar hefði e.t.v. í för með sér að launþegar fengju ekki jafnskjótt uppi bornar verðlagshækkanir en það er auðvitað efni málsins. Og við skulum koma beint að efninu. Það, sem hér er átt við af formælendum Framsfl., Alþfl. og Alþb. er auðvitað að endurskoðun kaupgjaldsvísitölunnar og verðbótavísitölunnar hljóti að hafa það í för með sér að draga úr víxlhækkunum verðlags og launa, þ.e.a.s. að launþegar geti ekki átt von á því að fá jafnfljótt uppi borið í hækkuðum launum það sem verðlag kann að hækka.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt á það áherslu í þessu sambandi, að kaupmáttur launa sé sem stöðugastur, að kaupmáttur launa sé sem hæstur og á öllum tímum í samræmi við þjóðarhag, og við höfum nefnt t.d. viðmiðun við þjóðhagsvísitölu. Við vorum líka sammála um það á síðasta þingi, fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl., með örfáum undantekningum, að rétt væri að taka óbeina skatta út úr vísitölunni og þar með niðurgreiðslur. Frá mínu sjónarmiði var það ætlað til þess að stjórnvöld hefðu ekki það falska hljóðfæri að spila á sem framfærslu- og kaupgjaldsvísitalan er og hefur verið spilað mest og falskast á þegar Alþb. hefur átt fulltrúa í ríkisstj. Íslands, eins og á árinu 1973, vegna þess að Alþb. hefur takmarkaða trú á dómgreind launþega í landinu og heldur að unnt sé að fara á bak við þá og telja þeim trú um að þeir fái bornar uppi með þessum hætti verðlagshækkanir, þegar verið er að greiða niður þær vörur, sem vega að vísu mest í vísitölunni, en mun minna í raunverulegum útgjöldum almennra fjölskyldna í landinu.

Nei, sannleikurinn er sá, að samningarnir hafa ekki verið settir í gildi og að niðurgreiðslusjónhverfingin er í raun og veru fólgin í því, eins og hæstv. forsrh. sagði, að velta verðbólguvandanum yfir á ríkissjóð. Það er auðvitað sjálfsagt, að bætur almannatrygginga fylgi hækkun launa frá og með þeim degi sem laun hækka. Ég vil minna á að það var fyrrv. ríkisstj. sem tók upp þá sanngjörnu og sjálfsögðu reglu, og ég vil minna á að í tíð fyrrv. ríkisstj. áttu sér stað meiri hækkanir á bótum almannatrygginga og einkum tekjutryggingar til láglaunafólks en nokkurn tíma áður á samsvarandi stjórnartímabili.

Í III. kafla er rætt um niðurfærslu vöruverðs og verðlagseftirlits. Ég vil taka það fram, að auðvitað á niðurgreiðsla vöruverðs rétt á sér að vissu marki. En það mark hlýtur annars vegar að miðast við það, að ekki séu algerlega úr lagi færð eftirspurnaráhrif viðkomandi vöruflokka miðað við aðrar vörur, og það hlýtur enn fremur að vera þeim takmörkunum háð, að ekki sé hætta á greiðsluhalla hjá ríkissjóði.

Hvað hið fyrra snertir má t.d. segja, að það er óeðlilegt ef niðurgreiðslur nema hærri upphæð varðandi landbúnaðarvörur en sem svarar til mismunarins á verði til bænda og neytenda, þ.e.a.s. séu hærri en dreifingarkostnaði nemur. Og í þessu tilfelli skal enn fremur á það bent, að það er hagsmunamál bæði neytenda og bænda, að þessar niðurgreiðslur séu ekki tíðum sveiflum bundnar, eins og nú er sérstaklega undirstrikað að verði með þessum ráðstöfunum.

Hvað hið síðara snertir, þá hefur hér komið fram að þessar auknu niðurgreiðslur og niðurfelling söluskatts á matvörum valda halla hjá ríkissjóði á þessu ári, gagnstætt því sem upplýst var þegar núv. stjórn tók við að ekki mundi verða. Ég tek eftir því, að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa alveg nýtt ráð við halla á ríkissjóði á almanaksárinu. Það er ósköp einfalt ráð. Nú er ekki talað um að ná hallalausri afkomu ríkissjóðs á almanaksárinu, heldur á að lengja árið í raun og veru í 16 mánuði til þess að ná greiðsluhallalausri afkomu. Við alþm. eigum eftir að sjá í frv. til fjárl. og varðandi meðferð og afgreiðslu fjárl. hvernig tekst að ná upp hallanum, sem verður á þessu ári, á komandi almanaksári. En þetta er eitt dæmi um það, hvernig vandinn er aukinn áður en tekið er til að leysa hann. Fyrst á að auka hallann á ríkissjóði, eða réttara sagt, að skapa halla sem ella hefði ekki orðið á ríkissjóði á þessu ári, og er þá þrautin þyngri að reyna að vinna þennan halla upp á því næsta ásamt því að ná greiðsluhallalausri afkomu á því ári.

Það hefur oft verið til umr. á Alþ. að fella niður söluskatt á tilteknum flokkum matvara, eins og t.d. kjöti, og við alþm. höfum margir verið því hlynntir, að felldur væri niður söluskattur, t.d. á kjötvörum og þá fremur lækkaðar niðurgreiðslur að því marki á kjötvörum, það væri ástæðulaust að færa sömu upphæðina inn og út í fjárl. hvað þetta snertir. En þótt þetta hafi í raun og veru verið talið eðlilegt af mörgum alþm., þá hefur þessi framkvæmd strandað a.m.k. í tíð tveggja, ef ekki þriggja ríkisstj., á aðvörunum varðandi það, að mun erfiðara væri að fylgja fram innheimtu söluskatts og mun auðveldara væri að skjóta undan söluskatti eftir því sem undanþágum frá greiðslu söluskatts fjölgaði. Ég vonast til þess, að niðurfelling söluskatts af matvörum verði ekki til þess að draga úr skilum varðandi innheimtu hans, en tel nauðsynlegt að fjh.- og viðskn. kanni það mál sérstaklega.

Þá er í 7. gr. talað um nokkurs konar verðstöðvun, sem í raun og veru hefur lögum samkv. átt að vera í gildi allt frá árinu 1970, en fjarri hefur verið að svo hafi verið, eins og okkur öllum er kunnugt. Ég held — og var sömu skoðunar í fyrri ríkisstj., að óeðlilegt sé að ríkisstj. sé að fjalla um leyfi til einstakra hækkana á vöru eða þjónustu. Mér skildist þá að við þáv. ráðh. værum allir sammála um það í raun og veru, það væri langtum eðlilegra að reyna að koma fyrirkomulagi verðlagningar og verðmyndunar í heilbrigðara horf en verið hefur um langt skeið. Og það var einmitt gert með lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sem samþ. voru á Alþingi því er lauk s.l. vor. Nú var til 1. umr. frv. til. l. um að fella niður mikilvægustu grein þeirra laga þ.e.a.s. 8. gr., sem kveður á um að afnema skuli verðlagsákvæði þar sem samkeppni ríkti og skapaði það aðhald að vöruverði sem nauðsynlegt er. Í stað þess treysta menn á bersýnilega í 7. gr. þessa frv. og a.m.k. allt næsta ár séu gamaldags, úreltar aðferðir verðlagsákvæða til þess fallnar að halda vöruverði niðri. Þetta úrelta fyrirkomulag er nú hvergi í nálægum löndum. Síðast hafa Frakkar yfirgefið það og dæmt það ótækt til að gegna þessu hlutverki sínu. Hvað eigum við Íslendingar að vera langt á eftir öðrum þjóðum að þessu leyti?

Það er athyglisvert að lesa nú nýverið í blöðunum ávarp frá stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga um hag samvinnuverslunarinnar í landinu. Ég held að það hafi a.m.k. margir hér inni enga tilhneigingu til þess að væna samvinnuverslunina hér á landi um að mata sinn krók eða stunda okurálagningu. En samvinnuverslunin er ekki fær um að gegna hlutverki sínu að eigin sögn miðað við óbreytt lög og ákvæði í reglugerð.

Það er rétt, að við allar gengisfellingar hefur verið beitt 30% reglunni sem um getur í 2. mgr. 7. gr. En um leið er rétt að það komi fram, að þetta á við í fyrsta lagi einkum og sér í lagi þegar samfara gengislækkun og gengisbreytingu er takmörkuð að einhverju leyti útborgun launa til launþega, sem ekki er gert með þessum lögum, a.m.k. að því er formælendur þeirra segja, þvert á móti verið að hækka þau, sem þó er sjónhverfing eins og ég benti á áðan. En í öðru lagi er rétt að nefna það, að þessari reglu hefur fyrst og fremst verið ætlað að gilda nokkra mánuði þar til tilkostnaðarhækkun verslunarþjónustu kemur fram. Þannig var það eftir fyrri gengisfellinguna í ár, að talið var að tilkostnaðarhækkun verslunarinnar af völdum gengisbreytingarinnar kæmi fram á 6–8 mánaða tímabili, og till. hafði verið borin fram í verðlagsnefnd um að þessi 30% regla gilti ekki lengur. Nú hefur fyrri 30% reglan haldist í gildi og enn á ný við þessa gengisbreytingu er hún höfð til viðmiðunar. Ég tel það ekki óeðlilegt miðað við forsögu málsins, en bendi á að hér sem annars staðar er vegið tvisvar í sama knérunn og tek því upp aðvörun stjórnar Sambands íslenskra samvinnufélaga.

Ég vil svo spyrja hæstv. forsrh. hvort ríkisstj. hafi beitt 5. mgr. 7. gr., þar sem segir: „Ríkisstj. getur ákveðið lækkun á verði vöru eða þjónustu telji hún til þess gilda ástæðu eða brýna nauðsyn.“

Þá er ég kominn að IV. kafla þessa frv. sem fjallar um skattlagningu. Ég hef þegar í umr. um stefnuræðu hæstv. forsrh. fjallað nokkuð um þessa skattlagningu almennt. Ég held því fram, að eignarskattsauki nái ekki þeim tilgangi sínum, að verðbólgubraskararnir endurgreiði það sem þeir hafa hagnast á verðbólgunni. Eignarskattsaukinn er þvert á móti greiddur af þeim einstaklingum og fyrirtækjum í þjóðfélaginu sem með forsjálni og sparsemi hafa byggt upp hreinar eignir. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að eignarskattur er lagður á hreinar eignir, þ.e.a.s. heildareignir að frádregnum heildarskuldum, og það er líka kunnara en frá þurfi að segja, að verðbólgubraskið er einkum og sér í lagi fólgið í því að skulda nógu mikið eða um það bil eins mikið eða meira en bókfært verð eða matsverð eignanna nemur. Þess vegna er ljóst að eignarskattsaukinn lendir ekki á verðbólgubröskurum, enda hefur það komið fram, að eftir að skattseðlarnir voru sendir út, að eignarskattsaukinn lendir með mjög miklum þunga á ellilífeyrisþegum sem hafa út af fyrir sig litlar tekjur, en hafa á langri, starfsamri ævi getað eignast íbúð eða einhverjar eignir til þess að tryggja öryggi sitt í ellinni.

Ég tel alveg nauðsynlegt að fjh.- og viðskrn. þessarar d. fari mjög ítarlega í þessa grein laganna varðandi eignarskattsauka og geri á henni þær breytingar sem nauðsynlegar eru til þess að koma í veg fyrir það óréttlæti sem dæmi hafa verið sýnd um að í för með þessari gr. ein verða. Auðvitað ætti að fella þennan eignarskattsauka niður alfarið, vegna þess að hann rýrir eiginfjárstöðu einstaklinga og fyrirtækja og eykur á ásókn þeirra í útlánastofnanir til að fá lán til að byggja á atvinnurekstur sinn.

Það er ekki til þess fallið að ná árangri í baráttunni við verðbólguna að draga úr vilja fyrirtækja og einstaklinga til að byggja á eigin fé í atvinnurekstri eða umsvifum sinum eða daglegu lífi, en láta þá heldur þurfa að leita til lánastofnananna og draga á almannafé sem þar er geymt. Ég tel ekki heldur að sérstakur tekjuskattur, hvort heldur er á einstaklinga eða atvinnurekstur, sé til þess fallinn að draga peninga frá þeim, sem sérstaklega hafa grætt á verðbólgunni, til þess að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Þessi aukatekjuskattur er kominn á það stig, að hann hlýtur að draga úr verðmætasköpuninni í þjóðfélaginu, draga úr vinnuframlagi manna annars vegar, en hins vegar að verða til þess, að auknar kaupkröfur verða gerðar, því að þótt við Íslendingar viljum stuðla að tekjujöfnun í þjóðfélaginu, þá er óhjákvæmilegt að nokkur mismunur tekna sé hér á Íslandi til þess að menn vilji taka á sig ábyrgð og undirbúa sig menntunarlega til þess að fást við verkefni, sem úrlausnar bíða hér á landi, eða yfir höfuð leggja meira á sig bæði sjálfum sér og heildinni til hagsbóta.

Ég er sannfærður um að ýmsar skrár, sem birtar hafa verið um það, á hverjum þessi tekjuskattur lendir, sannfæra menn um að hér er verið að taka úr einum vasa og láta í hinn. Það er verið að gera ráðstafanir til þess t.d., að fyrirtækin í sjávarútveginum séu rekin og veiti atvinnu. En um leið og gengið er lækkað í þessu skyni þá er verið að leggja nýjan skatt á þessi fyrirtæki sem tekur til baka þann ávinning sem fyrirtækin hafa haft af auknum tekjum í krónutölu í kjölfar gengislækkunarinnar. Og þegar tilkostnaðurinn heldur áfram að hækka í þjóðfélaginu verður þetta til þess að meiri þrýstingur myndast á það, að krónan falli áfram, enda er einnig svo komið, að eftir gengisfellingu, sem gerð var í sept., er dollarinn byrjaður að síga og heldur væntanlega áfram að síga samkv. því sem sagt er að ríkisstj. hafi gefið frystihúsaeigendum loforð um að yrði, en í trausti þess hækkuðu frystihúsaeigendur útborgunarverð sitt um 3% án þess að viðmiðunarverðið væri hækkað í Verðjöfnunarsjóði fiskafurða.

Þá er skattheimtan og komin á það stig, að það er ekki til þess fallið að unnt sé að fylgja fram heilbrigðu og virku skattaeftirliti. Það er ekki til þess fallið að draga fram í dagsljósið þá fjármuni sem e.t.v. kunna ekki að koma þar fram og vera til staðar í svokölluðu neðanjarðarhagkerfi. Þessi skattheimta, hvort heldur eignarskattsaukinn eða tekjuskattsaukinn, er einmitt til þess fallin að auka neðanjarðarhagkerfið og spilla siðferði í skattamálum, og eru ýmsir þeirrar skoðunar, að við höfum ekki efni á því. (Forseti: Ég vil leyfa mér að spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni). Ég skal, herra forseti, reyna að ljúka henni á ekki allt og löngum tíma. En ég vek athygli á því, að það er eðlilegt að andsvari sé ætlaður nokkur tími (Forseti: Það er hugmyndin að halda fund á morgun, en ef það tekur ekki mjög langan tíma, þá er sjálfsagt að halda fundinum áfram enn um sinn). Eigum við ekki að reyna hvort tekst að ljúka ræðunni á þessum fundi?

Þá vil ég víkja að V. kafla laganna varðandi vörugjaldið og hækkun þess á tilgreindum vöruflokkum. Ég er í fyrsta lagi andvígur þessum mismun, vegna þess að ég held að það sé vonlaust að draga þarna mörk á milli almennra vara, sem allur almenningur þarf á að halda, og hinna, sem teljast til lúxusvara, enda kom fram í ræðu hæstv. forsrh. að hann vildi ekki leggja þá viðmiðun til grundvallar. En ég vil láta það koma hér fram, að í frumdrögum fjárl., eins og þau lágu fyrir við stjórnarskiptin, var ætlunin að leitast við að lækka almenna vörugjaldið úr 16% í 13%, í stað þess að það er nú hækkað að hluta til í 30%. Með þessum hætti hygg ég að hið opinbera sé að reyna að hafa áhrif á neysluvenjur fólks, valfrelsi fólks sé takmarkað, það sé verið að leiða eftirspurnina frá ákveðnum vörutegundum og með hækkun vörugjaldsins geti verið stefnt að því að flytja verslunina meira út úr landinu heldur en æskilegt er og ella mundi hafa orðið, þ.e.a.s. að ferðamenn telji sér hag í því að auka vörukaup sín erlendis fremur en kaupa vörumar hér heima. Þetta ber og að athuga í sambandi við 10% gjald á andvirði erlends gjaldeyris, sem að vísu er rökstutt með því, að fólk fái ýmsar vörur ódýrari erlendis en hér heima og greiði ekki skatt af þeim vörukaupum sem fara fram erlendis. En ég tel að einmitt hækkun vörugjaldsins í 30% vinni að því og þess vegna sé 10% gjald á andvirði erlends gjaldeyris ekki fullnægjandi til þess að stefna vörukaupunum aftur hingað heim. Þetta tvöfalda gengi er einnig gagnstætt samningum okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og skyldum okkar samkv. þeim samþykktum. Það er ávallt illt, ef við Íslendingar brjótum þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist, og skapar ekki traust á okkur. Þá er þetta tvöfalda gengi til þess fallið að gera gjaldeyrisskil minni en ella, og eðlilegra hefði verið, ef þarna er leiðréttinga þörf með tilvísun til þess sem gert er erlendis, að hækka fremur flugvallargjaldið en að fara út í tvöfalt gengi.

Ég vildi sérstaklega spyrja hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh. varðandi VII. kafla laganna um heimild til lækkunar ríkisútgjalda 1978, hvort sú heimild hafi verið notuð eða með hvaða hætti ætlunin er að nýta hana. Og þar sem ég hef beint þessari spurningu einnig til hæstv. fjmrh., þá vil ég beina þeirri spurningu til hans sérstaklega og raunar hæstv. forsrh. líka, hvort ekki sé undirbúningur hafinn í fjmrn. eða innan ríkisstj. að því að endurskoða eignarskattsaukann og sérstaka tekjuskattsaukann með tilvísun til þeirra missmíða sem fram hafa komið eftir að álagningu var lokið og álagningarseðlar voru bornir út, en skilja má ummæli hæstv. fjmrh. í Morgunblaðinu á þá lund, að hann sé reiðubúinn til þess. Ég tel algera nauðsyn að þessi skattlagning fari í endurskoðun. Í fyrsta lagi er það skoðun mín, að fella beri hana alfarið niður, en til vara, að hún verði endurskoðuð með tilvísun til þeirra mistaka sem bersýnilega hafa orðið.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um lögmæti þessarar skattálagningar sem nú fer fram. En það er ljóst af því langa máli, sem bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. flytja til þess að verja lögmæti álagningarinnar, að það er ekki alveg upplagt mál, hvort þessi skattálagning er lögmæt eða ekki, enda hefur prófessor í lögum, Jónatan Þórmundsson, látið þá skoðun í ljós, að hún sé ekki lögmæt og brjóti í bága við stjórnarskrána. Ég skal engan dóm upp um það kveða, en vildi aðeins ítreka það, að ég tel að hún sé siðlaus með þeim hætti sem hún hefur verið lögð á, þegar skattþegnar hafa gert allar áætlanir sínar fyrir yfirstandandi ár, og ég vek athygli á því, að vegna þess að innheimta þessa skattauka fer fram á tiltölulega skömmum tíma, er þessi byrði enn þyngri en ella. Ég vek einnig athygli á því, að á næsta ári mun hluti þessa skattauka falla saman við væntanlegar ráðagerðir núv. hæstv. ríkisstj. um enn þyngri skattheimtu, svo að þarna eiga landsmenn ekki á góðu von.

Ég vil svo aðeins láta það í ljós að lokum, að hér er því miður ekki verið að rjúfa vítahring verðbólgunnar. Þvert á móti er verið að hella olíu á eld verðbólgunnar, auka vandann sem við blasir. Og í því efni vil ég spyrja hvaða áætlanir liggi fyrir um hækkun framfærslu- og kaupgjaldsvísitölu nú 1. des., þ.e.a.s. miðað við 1. nóv. n.k. Ég hygg að það sé lágt áætlað, að hér sé um 10–12% hækkun kaupgjaldsvísitölunnar að ræða. Af því má sjá að ráðstafanir ríkisstj. hafa engan árangur borið í því að rjúfa vítahring verðbólgunnar. Þvert á móti hafa þær stuðlað að því, að verðlag fer enn hækkandi og vaxandi erfiðleikar eru varðandi afkomu atvinnuveganna, og því verður enn erfiðast að leysa vandann eftir þær ráðstafanir sem nú hafa verið gerðar, en hefði verið auðveldara að þeim ógerðum.