29.01.1979
Efri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2162 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. nú. Ég kvaddi mér hljóðs áðan vegna þess að ég taldi rétt að þau sjónarmið kæmu fram við 1. umr., sem ég túlkaði þar. Ég á ekki sæti í hv. fjh.- og viðskn., þar sem þetta mál verður væntanlega tekið fyrir, og taldi því rétt að velja þá leið að hreyfa þessum viðhorfum strax við 1. umr.

Ég vil aðeins segja það núna, að ég held að það sé mikill misskilningur hjá hv. 1. landsk. þm. þegar hann segir að þetta sé ekki nein sérstök efnahagsaðgerð, þetta sé svona eins og gengur og gerist ein tegund slíkrar efnahagsaðgerðar. Ég held að þetta sé alger misskilningur. Hér er um sérstaka og óvenjulega aðgerð að ræða. Og hún er það ekki einungis hjá okkur, heldur hvar sem er á byggðu bóli, þar sem samjöfnuður getur verið á gerður. Það er engin tilviljun, að í umr. um þetta mál er aðeins bent á tvö lönd sem hafa framkvæmt þetta á undanförnum áratugum, þ.e.a.s. Frakkland og. Finnland. Þetta er akki hversdagsviðburður.

En auðvitað er það svo, að þetta er mál Alþfl., segir hv. 1. landsk. þm. Og hvað er ekki mál Alþfl. sem hæstv. ríkisstj. kemur með? En þó er þess að geta, að þetta mál náði ekki fram að ganga 1962, og ég held að mér sé óhætt að segja að þetta hafi ekki verið mál Alþfl. þá. En það hefur kannske bara verið gamli Alþfl., ekki nýi Alþfl.

Ég vil í sambandi við það, sem hæstv. viðskrh. sagði réttilega, að ég gerði ekki mikið úr hagkvæmnisástæðunum, aðeins undirstrika að ég geri það ekki. Höfuðatriðið er það, hvort þessi aðgerð hefur hin jákvæðu sálrænu áhrif sem við höfum rætt um. Það er höfuðatriði þessa máls.

Hæstv. viðskrh. fannst það einkennileg viðbrögð okkar fulltrúa stjórnarandstöðunnar í þessum umr. að vera heldur andvígir þessu máli undir þeim kringumstæðum sem við búum nú við og benti í því sambandi að á tveir ágætir samþm. okkar, alþm. Gunnar Thoroddsen og Lárus Jónsson, hefðu verið áhugamenn um þessi efni. Þeir hafa verið það. Ég tjáði mig líka fylgjandi því, að þessi aðgerð yrði gerð undir vissum kringumstæðum. En þó að hv. alþm. Gunnar Thoroddsen hafi talið að þær aðstæður hafi verið fyrir hendi 1962, á dögum viðreisnarinnar, er ekki þar með sagt að hann segi að þær ástæður séu fyrir hendi nú í dag. Og þó að hv. þm. Lárus Jónsson teldi að þessar ástæður væru fyrir hendi á dögum fyrrv. stjórnar, þá er ekki þar með sagt að hann þurfi að telja að svo sé í dag. Þetta verður auðvitað að meta eftir því hvert ástandið er í efnahagsmálunum almennt þegar þessi aðgerð er gerð, og menn verða að taka afstöðu til málsins á þeim grundvelli. Í mínum huga er það þó ekki svo, að menn þurfi endilega að skiptast í þessu máli eftir því, hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég held að hér sé um svo þýðingarmikið mál og slíkt alvörumál að ræða, að það færi best á því, að hver og einn þm. legði þetta mál gaumgæfilega fyrir sig án tillits til þess hvort hann er í stjórnarandstöðu eða er stjórnarsinni.