30.01.1979
Sameinað þing: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2182 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

164. mál, hækkanir opinberra stofnana, framfærsluvísitölu og kaupgjaldsvísitölu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því, ef ég skyldi fara eitthvað fram úr tilskildum tímamörkum.

Ég hef haft þann hátt á að ég hef sent hvern lið þessarar fsp. til hlutaðeigandi aðila sem hér er um að tefla, þ.e.a.s. gjaldskrárnefndar svokallaðrar, verðlagsstjóra og hagstofustjóra, og ég tel skýrast að ég lesi upp þau svör, sem frá þessum aðilum hafa borist. Það er rétt að geta þess áður, að hjá ríkisstj. sem slíkri liggja ekki fyrir neinar óafgreiddar hækkanabeiðnir. Þær eru enn þá hjá gjaldskrárnefnd, eins og fram kemur í svarinu. Ég les þá fyrst, með leyfi hæstv. forseta, svar gjaldskrárnefndar:

Fsp. til forsrh. um hækkanir opinberra stofnana, frá Matthíasi Bjarnasyni:

Hvaða hækkanabeiðnir frá opinberum stofnunum (ríkis og sveitarfélaga, liggja fyrir hjá ríkisstj. óafgreiddar, sem eiga að hljóta afgreiðslu fyrir 1. febr. n.k. samkv. samkomulagi við launþegasamtökin, og hvað líður afgreiðslu þeirra?

Svarið er:

1. Póstur og sími: Póst- og símamálastofnunin hefur óskað eftir hækkun á gjaldskrá 1. febr. n.k. sem nemur 22% að viðbættum 2% vegna verðjöfnunar fyrir dreifbýlið og 1% til að mæta tekjutapi vegna niðurfellingar á föstu afnotagjaldi aldraðra og öryrkja samkv. reglugerð, eða alls 25%. Samgrn. mælir með tillögunni. Gjaldskrárnefnd hefur ekki gert tillögur í málinu.

2. Rafmagnsveita Reykjavíkur. Frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur liggur fyrir beiðni um 22% meðalhækkun á gjaldskrá að viðbættri hækkun sem leiðir af heildsöluverðshækkun Landsvirkjunar, 45.34% af hækkun heildsöluverðs. Í tillögum Landsvirkjunar er gert ráð fyrir 35% hækkun 1.2. 1979 á heildsöluverði til almenningsrafveitna. 35% heildsöluverðshækkun mun því hafa í för með sér 16% hækkun á gjaldskrá Rafmagnsveitu Reykjavíkur til viðbótar áðurnefndum 22%. Gjaldskrárhækkunin mundi þá verða alls 38%. Umbeðnar taxtatilfærslur Rafmagnsveitu Reykjavíkur gera 4% hækkun á heimilistaxta sem kemur fram í útreikningi á verðbótavísitölu. Iðnrn. leggur hins vegar til að Landsvirkjun verði heimiluð 25% hækkun á heildsöluverði til almenningsrafveitna, og er sú tillaga í samræmi við umsögn Þjóðhagsstofnunar. Rn. leggur einnig til að gjaldskrá Rafmagnsveitu Reykjavíkur hækki um 15% . Nemur því hækkunin 1. febr. samkv. tillögu rn. samtals 26.5%. Gjaldskrárnefnd hefur ekki gert tillögur í málinu.

3. Hitaveita Reykjavíkur: Hitaveita Reykjavíkur gerir tillögu um 20% hækkun á gjaldskrá frá og með 1. febr. Miðast þessi tillaga við fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun og fjárhagsáætlun Hitaveitu Reykjavíkur, sem nú liggur fyrir borgarstjórn. Iðnrn. hefur aftur á móti gert tillögu um að Hitaveitu Reykjavíkurverði heimiluð 15% hækkun á gjaldskrá. Gjaldskrárnefnd hefur ekki gert tillögu í málinu.

4. Strætisvagnar Reykjavíkur: Borgaryfirvöld hafa óskað heimildar til þess að hækka fargjöld Strætisvagna Reykjavíkur um 50% að meðaltali frá 1. febr. 1979 að telja. Samgrn. hefur ekki gert tillögu um hækkun, en sent gjaldskrárnefnd málið til umsagnar. Rn. bendir á, að borgarstjórn Reykjavíkur virðist með hækkunarbeiðni sinni vera að fara inn á þá braut að láta notendur farartækja Strætisvagna Reykjavíkur bera stærri hluta af kostnaði við rekstur vagnanna. Til þess að halda sama hlutfalli notenda í áætluðum rekstrarkostnaði Strætisvagna Reykjavíkur fyrir árið 1979 þyrfti hækkun fargjalda að nema 30%. Gjaldskrárnefnd hefur ekki gert tillögu í málinu.

5. Þjóðleikhúsið: Þjóðleikhúsið hefur óskað eftir 25% hækkun á miðaverði. Menntmrn. hefur mælt með hækkuninni. Gjaldskrárnefnd hefur ákveðið að gera ekki tillögu um hækkun að sinni.“

Verðlagsskrifstofan hefur sent svo hljóðandi svar: „Með tilvísun til orðsendingar rn., dags. 26. jan. 1979, viðvíkjandi fsp. í Sþ. á þskj. nr. 319 frá Matthíasi Bjarnasyni um hvaða hækkanabeiðnir liggi fyrir hjá verðlagsnefnd og hvort þær verði afgreiddar fyrir 1. febr. n.k. og ef svo verði ekki, hvenær megi ætla að afgreiðsla þeirra fari fram. Hér á eftir fara óafgreidd erindi, sem liggja fyrir hjá verðlagsnefnd:

1. Olíumál, verð á bensíni og olíum og magnálagning olíufélaganna. 2. Verslunarálagning. 3. Aðgöngumiðaverð að kvikmyndahúsum. 4. Smjörlíkisverð. 5. Björgun hf., verð á steypuefni. 6. Gjaldskrá vinnuvéla. 7. Verð á steypu án sements. 8. Far- og farmgjöld í innanlandsflugi. 9. Gjald fyrir uppskipun, útskipun og pakkhúsleigu skipafélaganna. 10. Landleiðir hf. vegna fargjalda á sérleyfisleiðinni Reykjavík-Hafnarfjörður. 11. Flutningsgjöld með vöruflutningabifreiðum. 12. Verð á brauðum. 13. Olíufarmgjöld innanlands. 14. Verð á harðfiski.

Það eru sem sagt 14 beiðnir eða erindi sem liggja þannig hjá verðlagsnefnd óafgreidd. Samkv. upplýsingum formanns verðlagsnefndar er ekki ráðgert að halda fund í verðlagsnefnd fyrir 1. febr. 1979 og hefur enn ekki verið ákveðið hvenær næsti fundur verði haldinn.

Virðingarfyllst,

Gunnar B. Þorsteinsson,

varaverðlagsstjóri.“

Þá les ég svar frá hagstofustjóra:

„Vegna 3. liðs fsp. Matthíasar Bjarnasonar á Alþingi. Hækkun framfærsluvísitölu 1. febr. 1979 og tilheyrandi hækkun verðbótavísitölu frá 1. mars 1979.

Hækkun framfærsluvísitölu frá 1. nóv. 1978 til 1. febr. 1979 er af Hagstofunni áætluð 2.8%; en hækkun frá nóvembervísitölu að frádreginni aukinni niðurgreiðslu í des. 1978 er 5.2%. Hækkun verðbótavísitölu frá 1. des. 1978 til 1. mars 1979 er áætluð 5.5%. Sú hækkun fylgir í stórum dráttum fyrrnefndri hækkun framfærsluvísitölu frá nóvemberbyrjun 1978 að frádreginni aukinni niðurgreiðslu í des. s.l. Í þessari áætluðu hækkun framfærsluvísitölu og verðbótavísitölu er ekki reiknuð nein hækkun á töxtum þjónustustofnana. Gjaldskrárnefnd, sem gerir tillögur til ríkisstj. um hækkanir á opinberum þjónustutöxtum, hefur nú til meðferðar m.a. hækkunarbeiðnir frá Pósti og síma, Landsvirkjun, Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Reykjavíkur og Strætisvögnum Reykjavíkur. Munu tillögur nefndarinnar þessu viðkomandi vera væntanlegar á næstunni. Ef hækkanir þær sem, sem þessar stofnanir fara fram á að fá, yrðu leyfðar að fullu mundu áhrif þess á verðbótavísitölu verða um 2.3% til hækkunar, og verðbótavísitalan 1. mars 1979 mundi þá hækka alls um 7.8% miðað við áætlun Hagstofunnar að öðru leyti.

Áætlun Hagstofunnar um framfærsluvísitölu 1. febr. og verðbótavísitölu 1. mars 1979 er mikilli óvissu bundin og því látin í té með fyllstu fyrirvörum.“

Þetta voru svörin, sem mér hafa borist frá þeim aðilum sem ég óskaði upplýsinga hjá. Það má segja, að tveir fyrri liðir fsp. heyri frekar undir viðskrh. en forsrh.

Ég vil bæta því við, að það eru fordæmi fyrir því, að hækkanir hafi verið leyfðar á opinberri þjónustu eftir mánaðarlok útreikningsmánaðarins, en áður en vísitala er reiknuð út, og þá hafa slíkar hækkanir, sem þannig hafa verið samþykktar, alltaf verið teknar inn í vísitöluna. Þessi framkvæmd hefur aldrei sætt neinum aths. í kauplagsnefnd, enda liggur í augum uppi að með þeim hætti er ekki hallað á launþega.

Eins og fram kemur í því svari, sem ég hef lesið upp, eru 5 óafgreiddar hækkunarbeiðnir á opinberri þjónustu hjá gjaldskrárnefnd. Ef þær verða afgreiddar í ríkisstj. á næstunni og af þeim leiðir einhverja hækkun, þá verður það gert áður en vísitalan verður gefin út og þá verða þær teknar upp í hana.

Eins og þegar kom fram af því sem ég las upp, mæla viðkomandi rn. í sumum tilfellum með þeirri hækkun sem farið er fram á. Í öðrum tilfellum mæta þau aðeins með hækkun að hluta. Og eins og fram kom í svari hagstofustjóra mundu áhrif þessara hækkana, ef hækkunarbeiðnir væru teknar til greina að fullu og öllu, nema um 2.43%. Ef aftur á móti væri miðað við tillögur rn., þar sem þau hafa gert tillögur, þá mundi hækkunin nema 1.79%. En auðvitað er sá möguleiki fyllilega fyrir hendi að gjaldskrárnefnd geri aðrar og lægri tillögur en viðkomandi rn. hafa gert. Á þessu stigi er ekki hægt að segja til um það, hvort þessar hækkanir verða leyfðar eða ekki. Um það verður fjallað í gjaldskrárnefnd og svo í ríkisstj. á næstu dögum.

Það er rétt að undirstrika það, að útreikningur vísitölunnar er alltaf nokkurri óvissu háður, eins og hagstofustjóri tekur fram, og það er ekki hægt að segja til um það á þessari stundu með neinni vissu, hver verðbótavísitalan kann að verða. Það er kauplagsnefnd sem reiknar út vísitöluna. Hún er æðsti úrskurðaraðili í því efni. Úrskurði hennar verður ekki áfrýjað til eins eða neins. En það er svo, að það eru nokkur atriði, sem varða útreikning vísitölunnar, sem eru matsatriði og kauplagsnefnd verður að meta, þ. á m. svokallaður verðbótaauki. Enn fremur er þess að gæta, að enn hefur ekki verið tekið upp meðalverð það í verslunum hér í Reykjavík sem lagt er til grundvallar, og þess vegna ber enn að undirstrika að allar ágiskanir í þessu efni verður að taka með nokkrum fyrirvara.

Út af þeim fsp., sem hv. þm. Matthías Bjarnason bætti við, spurningunni um hækkun á lyfjakostnaði, þar sem gert er ráð fyrir að hækkun á þeim efnum eigi sér stað, — það er gert ráð fyrir því í fjárl. og eins og hann sagði er gert ráð fyrir, ef ég man rétt, um 900 millj., — þá get ég sagt það, að um þetta hefur verið og er verið að fjalla í ríkisstj., en þetta heyrir að sjálfsögðu undir heilbr.- og trmrh. Það hefur sem sagt ekki verið endanleg ákvörðun tekin um þetta atriði. Sama er í raun og veru að segja um annað efni sem hann spurðist fyrir um, varðandi niðurgreiðslur. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun í ríkisstj. um að hverfa frá þeim ákvörðunum sem nú gilda um niðurgreiðslur.

Ég vona, herra forseti, að ég hafi gert þessum fsp. nokkur skil. Að sjálfsögðu er hér um nokkurt talnaflóð að ræða og þess vegna hefði e.t.v. verið heppilegra að fá skriflegt svar við fsp. Ég vona samt að ég hafi ekki farið of hratt yfir þetta, og ég treysti því, að hv. fyrirspyrjandi hafi náð meginatriðum úr því sem ég sagði.