30.01.1979
Sameinað þing: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

164. mál, hækkanir opinberra stofnana, framfærsluvísitölu og kaupgjaldsvísitölu

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni fyrir þessar fsp. og eins greið svör hæstv. forsrh. Ég kemst samt ekki hjá því að vekja athygli á að í svari hæstv. forsrh. um hækkanabeiðnir til verðlagsstjóra eða verðlagsnefndar var ekkert minnst á, hve háar þær væru og að hve miklu leyti þær kæmu inn í vísitöluna. Hefði vissulega verið ástæða til þess að fá upplýsingar um það, ef svo kynni að fara að þær hækkanabeiðnir verði látnar ná fram og hafa þannig áhrif á vísitöluna, sem er nú kannske þungamiðjan í þeim leik sem er stundaður í íslenskum efnahagsmálum, ekki aðeins af þessari ríkisstj., heldur oft áður.

Það er alveg rétt, að það er kauplagsnefnd sem á endanum reiknar þetta út og hún hefur að undanförnu tekið tillit til þess, að hækkanabeiðnirnar séu afgreiddar eftir mánaðamót í reikningsmánuðinum.

Nú liggur ljóst fyrir að verðbótavísitalan fer 1. mars n.k. upp fyrir 5%, og þá vakna ýmsar spurningar. Þá vakna þær spurningar, hvort ríkisstj. ætlar að fara Alþfl.-leiðina og banna frekari kauphækkanir en sem nemur þessum 5% eða hvort á að fara leið Alþb., sem er hin nýja leið Alþb. og hefur verið auglýst bæði af yfirráðh. þessarar ríkisstj., Lúðvík Jósepssyni, og eins af Ragnari Arnalds í sunnudagspostillu hans í Þjóðviljanum á sunnudaginn, þar sem verðbólgan skiptir ekki lengur aðalmáli, heldur á að koma í veg fyrir að hægri öflin láti sínar tillögur ná fram að ganga. Og mér skilst að þegar þeir tala um hægri öfl, þá eigi þeir við Alþfl. að sjálfsögðu.

Það er ástæða til þess í þessum umr. að fá það skýrt fram, hvaða leið ríkisstj. ætlar að fara út úr þessu máli. Einnig er ástæða til þess, fyrst hreyft er þessu'máli, að spyrjast fyrir um störf svokallaðrar vísitölunefndar. Er hún að störfum? Hefur hún skilað einhverjum árangri? Ef svo er, hver er sá árangur?