30.01.1979
Sameinað þing: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2188 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég er mjög sammála hv. 1. þm. Vestf. í þessu efni og vil gera nokkra grein fyrir afskiptum mínum og ríkisstj. af þessari vinnudeilu, sem er milli Flugleiða hf. annars vegar og Félags ísl. atvinnuflugmanna hins vegar.

Með bréfi, dags. 18. þ.m., skipaði ég eftir samþykki í ríkisstj. þriggja manna sáttanefnd til að vinna að lausn deilunnar með skírskotun til 3. gr. laga nr. 33 frá 1978, um sáttastörf í vinnudeilum. Málið var þá þegar komið til meðferðar hjá ríkissáttasemjara sem mál nr. 3 frá 1978 og tók sáttanefndin strax við meðferð þess. Í nefndinni eiga sæti Hallgrímur Dalberg ráðuneytisstjóri, sem er formaður nefndarinnar, en auk hans Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri og Guðlaugur Þorvaldsson háskólarektor. Nefndin hóf störf strax þann 19. þ.m. og átti hún þá viðræður við deiluaðila og kynnti sér málavexti. Fór nefndin strax fram á að verkfallsaðgerðum, sem hefjast áttu kl. 19 næsta dag, yrði frestað í 2 vikur. Samþykkti stjórn og trúnaðarmannaráð Félags ísl. atvinnuflugmanna beiðnina, en þó þannig, að fresturinn var aðeins veittur í eina viku. Hefur sáttanefndin síðan unnið svo til sleitulaust að lausn þessarar deilur og haldið fjölmarga fundi með deiluaðilum.

Í ljós hefur komið, að þessi deila er óvenjuleg og á ýmsan hátt frábrugðin venjulegum kjaradeilum. Sú sérstaða varðar bæði deiluaðila og deiluefnið. Þótt deilan standi að formi til milli stjórnar Flugleiða hf. og Félags ísl. atvinnuflugmanna, er ljóst að þær leiðir, sem gætu leitt til lausnar, hljóta að hafa áhrif á samninga Loftleiða hf., dótturfélags Flugleiða, við félag Loftleiðaflugmanna. Gætu slíkar lausnir raskað að meira eða minna leyti forsendum fyrir samningi þessara aðila, sem er frá 20. júlí 1978 og gildir til 1, febr. 1980.

Eðli deiluefnisins er að því leyti óvenjulegt, að hér er ekki fyrst og fremst um að ræða venjulega kaupdeilu, heldur snýst hún jöfnum höndum um svonefndan starfsaldurslista, skiptingu flugleiða milli flugmanna og loks um svonefnda launajöfnunarstefnu eða launajöfnunarkröfu. Þykir mér rétt að skýra hvern þessara þátta deilunnar nokkru nánar.

Raunveruleg orsök deilunnar er sennilega öðru fremur deilan um starfsaldurslistann. Þótt yfirstjórn Loftleiða hf. og Flugfélags Íslands hf. hafi verið sameinuð 1. ágúst 1973, hefur aldrei verið gengið frá sameiginlegum starfsaldurslista flugstjóra og flugmanna sem störfuðu hjá þessum tveimur félögum. Var raunar ákveðið svo í byrjun, að þótt Flugleiðir yfirtækju allan sameiginlegan rekstur skyldu gömlu félögin fyrst um sinn annast rekstur flugvélanna. Var þannig skotið á frest þeim vandamálum sem sameining starfsaldurslista hlaut að hafa í för með sér, og hefur lítið í því gerst síðan — því miður.

Árið 1976 varð ágreiningur innan Félags ísl. atvinnuflugmanna, sem þá var félag allra íslenskra atvinnuflugmanna. Þessi ágreiningur varð til þess, að félagið klofnaði. Stofnuðu flugmenn Loftleiða eigið félag, Félag Loftleiðaflugmanna, og er Félag ísl. atvinnuflugmanna því nú í raun félag flugmanna hjá Flugfélagi Íslands svo og annarra minni flugfélaga. Hefur þessi klofningur enn aukið á vandkvæði samfara sameiningu starfsaldurslistanna.

Í mars 1978 ritaði stjórn Flugleiða síðan bréf til Félags atvinnuflugmanna, þar sem boðað var að Flugleiðir hf. tækju við rekstri flugvéla Flugfélags Íslands og Loftleiða frá 1. des. 1978. Var jafnframt boðin fram öll hugsanleg aðstoð við framkvæmd á sameiningu starfsaldurslistanna. Vann síðan nefnd beggja flugmannafélaganna að þessu verki, og skilaði sameiginlegum tillögum 13. des. s.l., sem stjórn Flugleiða samþykkti í öllum meginatriðum. Félag Loftleiðaflugmanna hefur síðan samþykkt þessar tillögur fyrir sitt leyti, en Félag ísl. atvinnuflugmanna hins vegar hafnað þeim, a.m.k. að svo stöddu, og virðist nú sem jafnlaunakrafan og e.t.v. einnig krafa um skiptingu flugleiða séu settar sem skilyrði fyrir samþykki við sameiningu starfsaldurslistanna.

Krafan um skiptingu flugleiða felur það í sér, að flugmenn Félags ísl. atvinnuflugmanna sjái um flug á öllum leiðum milli Íslands og Evrópu, nema til Lúxemborgar, á öllum innanlandsflugleiðum og á öllum nýjum flugleiðum, einnig allt leiguflug nema vestur um haf. Félag Loftleiðaflugmanna fái hins vegar flugleiðirnar milli Ameríku og Íslands og til Lúxemborgar. Það er álit stjórnar Flugleiða, að með því að ganga að þessum kröfum væri stjórnin í raun búin að firra félagið öllum möguleikum til hagræðingar í rekstri, raunverulegum umráðum yfir flugvélum félagsins og að lokum kljúfa Flugleiðir hf. endanlega.

Jafnlaunakrafan felur hins vegar í sér kröfu um að allir flugliðar Flugleiða hf. fái sömu laun án tillits til þess, hvaða flugvélategundum þeir fljúga, miðað við að starfsaldur sé hinn sami. Nú eru hins vegar greidd nokkru hærri laun til þeirra, sem fljúga stærstu vélunum, og er hlutfallið þannig, að ef laun flugmanna á DC-8 eru talin 100%, þá fá flugmenn á Boeing 727 94% og á Fokker Friendship vélunum 86.5–87.4%, eftir starfsaldri. Í raun felur launajöfnunarkrafan það í sér, að allir fái sömu laun og nú eru greidd hæst hjá félaginu. Stjórn Flugleiða mun hins vegar telja að samþykkt slíkrar hækkunar, sem í raun mundi valda margfalt meira launaskriði hjá flugmönnum en fáein prósentustig í beinni kauphækkun, yrði til þess eins, að Félag Loftleiðaflugmanna kæmi fram með nýjar kröfur, þannig að skapast mundu keðjuverkandi kröfur og víxlverkandi kröfur um launahækkun annars vegar og launajöfnun hins vegar.

Þess má geta, að föst mánaðarlaun flugstjóra á DC-8 vélunum eru á einu ári 724 þús. kr. og komast eftir 29 ára starfstíma upp í 1182 þús. kr. á mánuði. En í reynd eru lægstu flugstjóralaunin í dag 1 millj. 17. þús. kr., en meðalflugstjóralaun eru 1 millj. 87 þús. kr. á mánuði. (Gripið fram í: Hærra en hjá þm.) Það er hærra en hjá þm., já. En aðstoðarflugmennirnir fá aftur á móti í föst mánaðarlaun frá 512 þús. kr. á fyrsta ári, sem enginn flýgur nú reyndar eftir, og upp í 737 þús. kr. Í reynd er það þannig, að lægstu laun í dag eru 572 þús., en meðallaun hjá aðstoðarflugmönnum eru 679 þús. Auk þess greiðast í lífeyrissjóð frá félaginu 11%. Ég vil taka það fram, að þessi laun, sem ég get um, eru föst laun, en auk þess fá flugmenn greidda dagpeninga, sem ég veit ekki nánar um upphæð á.

Í dag er staða þessa máls sú, að sáttanefndin hyggst halda áfram viðræðum við deiluaðila og í framhaldi af því leggja fram sáttatillögur í þessari viku. Verða ákvarðanir um framhaldið að bíða undirtekta við þeirri tillögu. Sjálfur hef ég mjög ákveðnar skoðanir á því, hvað eigi að gera, ef sáttatillögurnar ná ekki fram að ganga, en ég tel ekki tímabært, þar sem ég skipaði sáttanefndina, að ræða málið nánar á þessu stigi en vona að fram verði komin sáttatillaga fyrir helgi.