30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2196 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

Umræður utan dagskrár

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt af hálfu okkar forseta Alþingis að segja örfá orð um þetta mál að því er tekur til skrifstofu Alþingis, sem segja má að forsetar beri fulla ábyrgð á. Mér er tjáð að það hafi aldrei tíðkast, að skrifstofa Alþingis gæfi upp á launaseðlum þá kostnaðarliði sem greiddir eru vegna alþm. í sambandi við þingmannsstörf þeirra, og sé þetta byggt á því, að hér sé ekki um skattskyld hlunnindi, heldur greiðslu kostnaðar að ræða. Mér þykir rétt að það komi fram í sambandi við umr. um þetta mál, að fyrir liggur að ríkisskattanefnd hefur hinn 13. apríl 1976 kveðið upp úrskurð í kærumáli þm., sem hafði af viðkomandi skattstjóra verið ætluð tekjuviðbót vegna ófullnægjandi framtals að dómi skattstjórans að því er varðar ýmsar greiðslur til kæranda umfram þingfararkaup hans. Í úrskurði þessum segir:

„Í D-lið 10. gr. laga nr. 68/1971 segir, að endurgreiðsla, er skattgreiðandi fær, ef hann verður að vera um stundarsakir fjarverandi frá heimili sínu vegna starfa í almenningsþágu, teljist ekki til tekna. Í málinu er ekki leitt í ljós, að kærandi hafi notið skattskyldra hlunninda af greiðslum þeim, er Alþ. innti af höndum vegna þingsetu hans. Er krafa kæranda, (þ.e.a.s. alþm.) því tekin til greina“

Ég tel mig ekki dómbæran um það, hvort kostnaðarliðir þeir, sem hér um ræðir, einhverjir, sumir eða allir, teljast framtalsskyldir. Mér skilst að jafnvel hinir fróðustu menn í skattalögum séu ekki á einu máli um þetta. En mér virðist af þessu, að það liggi fyrir úrskurður ríkisskattanefndar um að þeir teljist ekki skattskyldir. En hvað sem því líður, þá vænti ég þess, að allir hv. alþm. geti verið á einu máli um að varðandi greiðslur margvíslegs kostnaðar í sambandi við þingstörfin sé engu að leyna og eigi engu að vera að leyna. Þessi er einnig skoðun þingforseta og því hafa þeir falið skrifstofu Alþingis að taka saman skrá um kostnaðarliði vegna þm. og þingstarfa á liðnu ári og senda ríkisskattstjóra þessa skrá. Hver þm., eins og hver annar þegn í þessu þjóðfélagi, ber að sjálfsögðu ábyrgð á sínu skattframtali, og ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það hefur aldrei verið og verður að sjálfsögðu engin fyrirstaða á því hjá skrifstofu Alþingis að veita umbeðnar upplýsingar um þær fjárupphæðir sem getur hér verið um að ræða.

Þetta vildi ég láta koma fram af hálfu forseta Alþingis í sambandi við skrifstofu þingsins og þessi gjöld.