30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég veitti athygli, að fjölmargir þm. hafa hver á fætur öðrum risið upp og talað um að þm. ættu að ganga á undan með góðu fordæmi. Þetta orðtak er ekki til í íslensku. Það heitir að ganga á undan með góðu eftirdæmi og skiptir auðvitað ekki máli þótt eftirdæmið þýði fordæmi í þessu sambandi. Menn hafa þá ekki eyra fyrir hrynjandi málsins ef þeir finna ekki undireins muninn á þessu: á undan með eftirdæmi að sjálfsögðu. Þetta bið ég menn að taka til athugunar og eftirbreytni.

Hér er að því vikið, að virðing Alþingis fari þverrandi, og nú á víst að auka hana með því að bera það á þm. að þeir brjóti lög og það í ekki óviðkvæmara máli en framtali til skatts. Það er enn fremur talað um það, til þess nú að auka virðingu okkar, að það hafi verið leynd hvílandi yfir launakjörum okkar hér, eða því sem kallað er hlunnindagreiðslur, og verða menn nú enn að athuga hvað orðið hlunnindi þýðir. Hlunnindi voru talin reki á jörð, varp, mótekja o.s.frv., en endurgreiðslur á útlögðum kostnaði eru ekki hlunnindi. Menn þurfa þannig að athuga vel um merkingu orða þegar þeir eru að starfa að því að auka virðingu Alþingis.

Það hefur engin leynd hvílt yfir kaupi og kjörum alþm., — ekki þá tíð sem ég hef átt sæti á hinu háa Alþingi. Þvert á móti hefur verið opin umræða um þessi mál öllsömul, sem betur fer, alls engu undan skotið í því efni. Hinir heimsfrægu rannsóknarblaðamenn hafa og verið okkur innan handar í þessu efni og ekkert fyrir þeim dulið eða undan skotið í umr. Svo hefur verið um mörg ár. Ég vil biðja um að nefnd séu dæmi um það, að einhverju hafi verið undan skotið í því framtali.

Hæstv. forseti Sþ. vitnaði til laga sem eftir hefur verið farið, skýlausra laga, 10. gr. skattlaga, D-liðar, sem kveður á um að til tekna teljist ekki endurgreiðslur sem greiddar eru mönnum sem þurfa að stunda starf sitt utan heimilis síns í almennings þarfir og fá kostnað þess vegna endurgreiddan. Þetta stendur skýrum stöfum í lögum — og hvers vegna bera menn nú ekki fram breytingu á þessum lögum og fá hana samþykkta hér á Alþ., því að það er ástæðulaust að hafa þetta í lögum úr því að talið er að það sé virðingu Alþingis fjötur um fót? Ég mundi verða fyrstur manna til þess að fylgja slíkri breytingu. Það er ástæðulaust annað en að koma í þessu efni til dyranna eins og menn eru klæddir, og hina brýnustu nauðsyn ber til að fólki verði ekki talin trú um það, og að þessu leytinu að ósekju, að þm. séu að skjóta undan skatti. Hins vegar er það svo annað mál, að forsetar Alþingis fengu á tal við sig í morgun formann ríkisskattanefndar, sem m.a. hefur kveðið upp þann úrskurð, sem hæstv. forseti vitnaði til, og hann taldi að framtal eins og þetta, að telja út og inn á skattskýrslu útlagðan kostnað og endurgreiddan, væri eingöngu til þess að auka skriffinnsku, enda sæi maður sína sæng útbreidda ef ætti að tíunda. — (Gripið fram í.) Ja, það fer tvennum sögum af því. Þetta er hvort tveggja rétt og á rétt á sér. En ég er tilbúinn til þess að nota hitt í viðlögum. En t.a.m. það, að þm., sem eiga sæti í Norðurlandaráði, og því er ég kunnugur, ættu á framtali sínu að tíunda allar ferðir, allan kostnað, sem er af höndum reiddur vegna ferðalaga þeirra, dagpeninga og annað, það yrði auðvitað aukin skriffinnska og ekkert annað.

Ég legg sem sagt áherslu á það, að þm. vindi nú bráðan bug að því að breyta skattalögunum þannig að ekkert fari milli mála um það, að þeir geti tíundað allt sem eðlilegt þykir af þeim greiðslum sem til þeirra ganga. Hins vegar er alls ekki um neinar hlunnindagreiðslur að tefla, heldur um endurgreiðslur, og getur auðvitað gengið út í öfgar ef á að elta allt slíkt uppi hjá mönnum sem stunda eins margháttuð störf og hafa eins mikil umsvif og þm. í hinum margháttuðu erindum sínum sem þeir eiga bæði um landið og til útlanda. Ég vil benda á að samkv. reglum á þm., sem fer í pólitískum erindum utan kjördæmis síns, rétt á að fá greidd t.a.m. km-gjald vegna eigin bifreiðar sem hann ekur og enn fremur að fá endurgreidda flugfarsseðla, ef hann flýgur bæði í kjördæmi sitt og eins til annarra kjördæma, ef það er sannanlega í pólitískum erindum. Það gæti auðvitað ært óstöðugan ef ætti að fara að telja allt slíkt fram.

Hæstv. forseti gat um það, að forsetar hefðu nú tekið ákvörðun um að Alþ. gæfi upp til ríkisskattstjóra allar þær greiðslur sem til þm. ganga vegna umsvifa þeirra og vegna endurgreiðslna á útlögðum kostnaði hér innanlands, og væntanlega ætti það þá að verða til þess að ganga til móts við óskir sem fram hafa komið. Svo er eftir aðeins þetta: að breyta þessum lögum, sem kveða svo á um skýrum stöfum að þessar greiðslur teljist ekki til tekna og þess vegna samkv. lögum ekki fært að færa þær inn á tekjuhlið framtals einstaklingsins.