30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er auðvitað mætavel ljóst, og ekki síst eftir svar hæstv. fjmrh., að undanfarin ár — og ekki veit ég hve lengi — hefur Alþ. leyft sér að virða skattalögin í landinu að vettugi. Um það þarf varla að hafa fleiri eða stærri orð.

Það er skýlaust í hinum almennu skattalögum, að gefa beri upp aukagreiðslur samkv. sérstökum reglum, eins og hv. þm — Jóhanna Sigurðardóttir lýsti og las áðan, þó svo fyllilega megi rökstyðja að þessar greiðslur séu fyrir útlögðum kostnaði. En hvort sem þær eru fyrir útlögðum kostnaði eða tekjuaukning, þá á ekki hv. þm. Sverrir Hermannsson að vera dómari í þeim efnum, heldur eru það skattstofur í landinu. Þessi meinloka hefur einhvern tíma verið barin inn í höfuðið á Sverri Hermannssyni og hefur reynst ókleift að berja hana þaðan út aftur. Þetta er grundvallaratriði: Það er skatturinn sem á um það að dæma, hvort þetta skuli teljast fjármunir til tekjuauka fyrir viðkomandi eða fyrir útlögðum kostnaði. Þm. í Reykjavík t.a.m. fá, að ég hygg, 0,5 millj. kr. á ári í ferðakostnað. Hver er það sem segir að þeir ferðist nákvæmlega fyrir 1/2 millj., ekki fyrir eitthvað meira eða ekki fyrir minna? Hv. þm. Sverrir Hermannsson er enginn dómari í þeim efnum, alla vega kæri ég mig ekkert um dómsniðurstöðu hans. Það er skatturinn sem um þessa hluti á að dæma. Um þetta hafa verið orðræður og deilur undanfarin ár, en nú hafa þau gleðilegu tíðindi gerst að hæstv. fjmrh. hefur tekið af öll tvímæli með það, hvað er satt og rétt í þessum efnum.

Kjarni þessa máls er auðvitað sá, að í þessu landi er borin afskaplega lítil virðing fyrir skattalögum. Þm. eftir þm., ráðh., lýsa því yfir, að brot á skattalögum — ég nota ekki stærri orð — séu þjóðarmeinsemd sem beri að uppræta. Ríkisvaldið hefur venjulega látið þar við sitja og aðgerðir hafa verið litlar sem engar. Þarf ekki að tíunda það, með hverjum hætti er farið í kringum þessi lög. En það er auðvitað gersamlega óþolandi ef Alþ., löggjafinn í landinu, er ekki gersamlega hafið yfir grun í þessum efnum. Undanfarin ár hefur Alþ. ekki verið hafið yfir grun í þessum efnum. Þessir hlutir hafa verið eigum við að segja, nota ekki sterkari orð — afar umdeilanlegir. Alþ. á ekki að vera umdeilanlegt í þessum efnum. Það á að vera gersamlega og að öllu leyti hafið yfir grun. Það hlýtur að vera grundvallarkrafa í þessum efnum, að sjálft Alþ. gangi á undan og um það leiki ekki hin minnsta tortryggni eins og hefur verið. Alþ. ber að hlýða skattalögunum og um það hefur skrifstofa Alþ. ekkert að segja og á ekki að hafa. Það eru skattyfirvöld, sem hafa um það endanleg orð að öðru leyti en því, að hér eru auðvitað lögin sett. Og því aðeins getur Alþ. vænst þess, að samfélagsþegnar fari eftir skattalögum í einu og öllu, að Alþ. geri það sjálft og um það leiki ekki hinn minnsti vafi.

Um þessi mál hefur verið rætt á undanförnum árum. Sverrir Hermannsson vék að rannsóknarblaðamönnum að því er þetta varðar. Það er út af fyrir sig rétt, að fyrir nokkrum árum hófst umr. um þetta mál. Þá var hv. 5. þm. Austurl. formaður þfkn., og mér er það minnisstætt, að það bæði tók langan tíma að fá hann til að koma þá upp í sjónvarp til að fjalla um þessi mál og það var ekki létt, það þurfti nærri því að draga svörin út úr honum með töngum. Þau komu samt áður en yfir lauk. Nú allnokkru löngu síðar hefur það gerst, að fjmrh. hefur kveðið upp úr með það, hvað séu lög og leikreglur í þessum efnum. Við skulum koma málum svo fyrir, að það sé gersamlega hafið yfir grun, að Alþ. hlýði leikreglum í þessum efnum. Þá fyrst getum við vænst þess að ná árangri í skattamálum annars staðar í þjóðfélaginu.