30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2199 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er þröngt í búi hjá Reykjavíkurdeild Alþfl. um þessar mundir, enda 1. febr. innan tíðar og ríkisstj. situr sem fastast. Þá virðist vera gripið til gamals kunningja hér í þingsölum, sem hefur löngum verið vinsæll í fjölmiðlum og hjá almenningi þessa lands og hefur gefið góða „pressu“, eins og rannsóknarblaðamennirnir hafa löngum kallað það, en hefur þó yfirleitt frekar byggst á sögusögnum, hindurvitnum og röngum upplýsingum en staðreyndum málsins. Ræða síðasta ræðumanns, hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, sem hefur verið einhvers konar Don Quijote í þessu máli hér í vetur, og enn fremur ræða fyrirspyrjanda, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, bera þessu greinilega vitni.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði að það væri skatturinn sem ætti að dæma, en síðar í ræðu sinni hældi hann fjmrh. mjög fyrir það, að hann hefði nú kveðið upp úr með það, hvað væru lög og hvað væru reglur. Fjmrh. fer ekki með neitt dómsvald í þessum málum, hv. þm. Vilmundur Gylfason. Það er engin lausn á málinu þótt hann hafi lýst ákveðinni skoðun hér. Þessi fullyrðing hv. þm. Vilmundar Gylfasonar sýnir í raun og veru enn einu sinni, að annaðhvort virðist það ekki hafa komist inn í höfuðið á þessum ágæta þm., svo að ég noti lýsingu sem hann var með áðan, að þeir sem hafa dómsvaldið í þessum efnum, ríkisskattanefnd, hafa kveðið upp sinn úrskurð fyrir löngu. Það, sem fjmrh. sagði áðan, breytir út af fyrir sig engu um það.

Ef það var eitthvað flókið fyrir hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að hún fékk ekki þessar greiðslur á þeim launamiða, sem skrifstofa Alþingis sendi henni, þá bar henni einfaldlega skylda til þess að skrásetja það sjálf, það er ekki flókið mál. Það eru engar reglur um það, að launafólki beri ekki skylda til að telja annað fram en það sem það fær á launamiðum inn um sínar dyr. Sú röksemd, hvað stendur á launamiðunum sjálfum, skiptir í raun og veru engu máli í þessu efni. Ég vil beina því til þessara tveggja ágætu þm., og sérstaklega Jóhönnu Sigurðardóttur, að þeir kynni sér betur staðreyndir málsins áður en þessum vindmyllubardaga og krossferð verður haldið áfram.

M.a. sagði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir af mikilli hneykslan og vandlætingu, og sjálfsagt tekur þjóðin það trúanlegt, vegna þess að þjóðin býst væntanlega við því, að þm. fari með rétt mál, að þeir þm., sem byggju í nágrenni Reykjavíkur, fengju dagpeninga. Tiltók hún þar tvö sveitarfélög sérstaklega og annað þeirra var Seltjarnarnes. Nú er ljóst að enginn hv. þm. býr á Seltjarnarnesi utan sá sem hér stendur. Það hefði átt að vera einfalt fyrir hv, þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, ef hún vill hafa það rétta í þessu máli, en ekki bara ná „góðri pressu“, eins og rannsóknarblaðamaðurinn er sérfræðingur í, að kynna sér það, að þm., sem búa á Seltjarnarnesi, fá ekki neina dagpeninga af einu eða neinu tagi og hafa aldrei fengið. Að taka setningar af þessu tagi máli sínu til rökstuðnings er í senn vanvirða við Afþingi og óafsakanlegar aðdróttanir í garð samþm. og til þess ætlaðar eingöngu að koma því inn hjá almenningi, sem trúir enn þá því sem þm. segja hér, að svona sé málum skipað. Ég held að það sé lágmarkskurteisi að þeir þm., sem tala af slíkri vandlætingu um siðferði samþm. sinna, kynni sér það rétta í málinu áður en þeir stiga upp í ræðustól.