30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég gleðst yfir því að ég skuli vera talinn læs, því skuli vera lýst yfir í áheyrn Alþingis. Ég tók fullnaðarpróf á sínum tíma og var úrskurðaður læs þá þegar. En það, sem ég vil bæta við þessar umr., er ekki langt mál. Ég greindi frá því áðan, að það væri álit ríkisskattstjóra, að rétt væri að telja fram þingfararkaup, bílastyrk inn og út og afnotagjald af síma. Hins vegar sagði ég ekkert um það, hvernig hv. alþm. hafa talið fram á sínum skattframtölum á undanförnum árum. Ég hef ekki hugmynd um það. Það er einkamál hvers og eins, og ég vil hafa það alveg á hreinu að ég hef ekki sagt eitt eða annað um það efni. Ég gat þess, hvernig ég hef gert þetta sjálfur, og það, sem ég hef sennilega ekki gert fyllilega rétt, er að ég hef aldrei talið fram afnot af síma, hvorki út né inn. En ég held að það sé ástæðulaust að gera því skóna, að alþm. hafi ekki talið fram tekjur sínar eins og lög standa til, nema nefnd séu þess dæmi, eins og hér hefur komið fram.

Það er talsverður áburður að bera það á menn, að menn telji ekki rétt til tekna lögum samkv. það sem menn bera úr býtum. Ég ætla alþm. ekki að þeir telji ekki rétt fram til skatts og hef enga ástæðu til að ætla að þeir geri það ekki, ekki heldur neina ástæðu til að ætla, að þeim hafi ekki verið gerður skattur í samræmi við rétt skattalög.