30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég held að þessar umr. séu ekki til þess að auka sóma Alþingis út á við. Þó að einstaka þm. telji sér henta að reyna að brigsla þm. almennt um skattsvik, þá held ég að menn verði að hafa það í huga, hvað eru tekjur eða hvað er kostnaður víð störf manna. Ég þykist vita að tugir þúsunda skattþegna í þessu landi, sem vinna um lengri eða skemmri tíma fjarri heimilum sínum og fá þar af leiðandi greitt frá atvinnurekendum sínum bæði húsnæði og fæði og ferðakostnað til og frá vinnustað, þetta fólk gefi þetta ekki almennt upp á skattskýrslum sínum, hvorki inn né út, enda er þetta ekki tekjuaukning.

Nú vill svo til, að í einu skattumdæmi landsins voru þm., sem búsettir voru í því skattumdæmi, áætlaðar tekjur af hlunnindum. Tveir þessara þm. eru nú ekki hér á Alþ., en einn er eftir og það er sá sem stendur nú í þessum ræðustól. Við kærðum allir þessa meðferð, þessa áætlun viðkomandi skattstjóra í þessu skattumdæmi, og það vildi svo til, þetta var á árinu 1974, að skattstjóri við kæru felldi niður 1/3 af því sem hann áætlaði ofan á skattframtal mitt, vegna þess að þessar greiðslur frá Alþ. féllu niður hjá mér rétt fyrir mánaðamótin ágústseptember, en hélt áfram 2/3. Ég hélt kærunni áfram eins og hinir tveir félagar mínir. Ríkisskattanefnd úrskurðaði að þetta væru ekki tekjur og þess vegna skyldi þessi álagði tekjuskattsviðauki niður felldur. Ég lít svo á að ríkisskattanefnd sé æðsti dómstóll í þessum málum. Þessum ákvæðum skattalaga hefur ekki verið breytt síðan. Ef það er vilji meiri hl. Alþingis að breyta þessum ákvæðum, þá er um að gera að flytja frv. um breytingu á tekjuskattslögunum, og ég er mjög hræddur um að það hafi áhrif ekki eingöngu á alþm., heldur á þúsundir eða tugþúsundir annarra Íslendinga þar sem þetta er ekki gefið upp. Ég spyr: Hvernig er ástatt með menn sem ferðast mikið vegna starfa sinna? Við skutum taka t.d. fréttamenn sem fara tíðum til útlanda. Hvað er fengið með því að gefa upp allan þann ferðakostnað, bæði inn og út, allt þetta sem ekki er tekjur, sem er kostnaður vegna starfa þessara manna? Ef þar er eitthvað sem er tekjur, þá ber auðvitað að gefa það upp. Ég tel það ekki aukatekjur fyrir okkur að fá greidd afnotagjöld af síma. Greitt er af hálfu Alþingis eitt afnotagjald. Þeir, sem eiga heima úti á landi, hafa tvo síma, annan hér og hinn þar. Þeir borga sjálfir af öðrum símanum. Ef þeir væru ekki alþm. og þyrftu ekki að vinna þessi störf, þá hefðu þeir bara einn síma. Og svo á að telja símakostnað þessara manna tekjur. Það væri ljótt hljóðið í blaðamönnum almennt ef ætti að bæta öllum þeim símtölum, sem þeir hafa vegna starfs síns, við tekjur þeirra á skattaframtalinu. Hvað er með símakostnaðinn hér á Alþ. þegar talað er úr klefunum? Hver ætlar að fylgjast með því?

Ég tek undir það sem hv. 3. landsk. þm. sagði, að það er hverjum skattþegn í lófa lagið og skylda hans að telja fram til skatts. Hvað eru þessir hv. tveir þm., sem hér hafa talað, að kvarta og kveina? Hvers vegna telja þeir ekki fram og tíunda það allt, sem þeir fá, og aðrir þm. sem það vilja og telja sig eiga að gera það? Ef aðrir brjóta lög, þá er það skattyfirvalda að ná í skottið á þeim og þau gera það vafalaust.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég harma að auglýsingastarfsemi eigi sér hér stað með þessum hætti, eingöngu til þess að varpa rýrð á Alþingi.