30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það er gömul hefð, að Alþingi hefur notið sérstöðu í þjóðfélaginu á margvíslegan hátt. Það var langt fram á fyrstu árin sem ég sat hér á Alþ. alveg föst regla, að við greiddum ekki skatta nema af hálfu þingfararkaupinu, sem var að vísu ekki mikið þá. Það var regla hér á Alþ. þangað til fyrir örfáum árum, að þeir, sem sátu hér í forsetastólum, fengu að kaupa áfengi og tóbak á heildsöluverði, og ég efast um að þeir hafi nokkurn tíma talið það fram til skatts. Þetta og fleira hefur meira eða minna verið á meðvitund þjóðarinnar og er arfur frá gamalli stéttaskiptingu, sem ekki er langt síðan við losnuðum við, ef við erum þá lausir við hana enn þá.

Við skulum ekki undrast þó að tortryggin sé í landinu þar sem forsagan er á þennan hátt. Ég tel að það sé glöggt dæmi um að þessi tortryggni ristir djúpt þegar skattstjóri á Vestfjörðum tekur það upp hjá sjálfum sér að áætla hlunnindi á þrjá þm. kjördæmisins Þetta er virðulegur embættismaður sem kann sín verk. (SvH: Nei, hann er ekki virðulegur.) Hann hlýtur að hafa haft einhverjar ástæður fyrir því að gera þetta, jafnvel þó að hann hafi tapað málinu. Ég nefni þetta aðeins til þess að biðja menn um að hlaupa ekki upp af standinum þó að yngri kynstóðin í landinu vilji fá þessi mál á hreint, af því að svona mál eru um allt þjóðfélagið meira eða minna. Þess vegna er eðlilegt að gerðar séu miklar kröfur til okkar.

Þó að eitthvað fjúki, sem ekki reynist vera alveg rétt, og þó að það, sem mönnum er talin trú um eða er almannarómur, sé ekki allt nákvæmlega samkvæmt því sem hægt er að réttlæta eða sem skattyfirvöld komast að niðurstöðu um, þá skulu menn ekki halda að virðing Alþingis sé þar með fallin. Ég held að virðing Alþingis muni aukast við það, að ungt fólk af nýrri kynslóð, sem kemur hingað inn, er ófeimið við að taka til máls um það sem hefur verið feimnismál í þessum sölum um áratugi og ófeimið við að leggja fram þá kröfu, að þjóðin fái að vita um þetta, þannig að Alþ. verði hafið yfir allan vafa í þessum efnum. Ég vil vænta þess, eins og ýmsir ræðumenn hafa látið í ljós, að með þessari umr. verði loftið hreinsað. Og ég tel að þessi umr. hafi þegar náð miklum árangri, því að forsetar Alþingis viðurkenna réttmæti grunsemdanna, réttmæti kvartananna með þeirri ákvörðun að telja rétt að senda skattyfirvöldum nákvæma skýrslu um allar greiðslur til alþm.

Ég vona því að þessi umr. hafi hreinsað loftið og gert sitt gagn. Viðbrögð forsetanna eru lofsverð og þau munu hjálpa til þess einnig að hreinsa þetta mál og öll slík, þannig að Alþ. geti framvegis losnað við að þurfa að ræða slík mál. En fortíðin er þannig, að það er vissulega tilefni til þess orðspors sem hefur af okkur farið. Við höfum sjálfir tekið ákvarðanir um að skattleggja allt okkar kaup, við höfum sjálfir tekið ákvarðanir um að afnema hlunnindi eins og áfengi og tóbak, og ég veit að við viljum öll hafa þessi mál á hreinu. Ég vona að svo verði í framtíðinni.