30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

Umræður utan dagskrár

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að fara að taka þátt í þessum umr., en mér er nákvæmlega sama um það, ég tel fram eins og fyrir mig er lagt og hef alltaf reynt að gera. Ég vil við þetta tækifæri minna hv. alþm. á það, að í skattalögum, sem voru afgreidd hér á síðasta þingi og á að leggja á skatt eftir á árinu 1980 og eiga að gilda um tekjurnar 1979, þar er þetta ákvæði sem ég tel raunverulega deilt um, hreint og skýrt. Það, sem er verið að deila um hér, eru ekki skattsvik, heldur framtalsskylda. Það er ekki verið að deila um það, að útlagður kostnaður vegna fæðis eða veru frá lögheimili sínu annars staðar á einn eða annan hátt eða ferðakostnaður sé skattskyldur. Hann er það ekki. Þess vegna er hann færður inn og út á skattframtalinu. Í minni ráðherratíð hef ég fengið frá ríkisbókhaldinu útlagðan kostnað sem mér hefur verið greiddur vegna ferðalaga minna erlendis. Ég hef fært það inn og út á framtalinu. Og það hafa ekki verið neinar vangaveltur um það. Um þetta mál þurfum við ekki heldur að vera neitt að deila, því að það kemur aðeins við skattframtali á þessu framtalsári, en með nýju skattframtali fyrir árið 1979 vegna skattársins 1980 er beint fram tekið að það skuli tekið fram inn og út á skattframtali.

Ég vil segja það, að ég var einu sinni í yfirskattanefnd og lenti þá í deilum innan yfirskattanefndar einmitt út af þessum kostnaði alþm. Ég, sem var þar í minni hl., sagði: Víð skulum ekkert vera að deila um þetta. Ríkisskattanefnd hefur úrskurðarvaldið og þangað fer málið. — Það fór til ríkisskattanefndar og var úrskurðað á þann veg sem ég hélt fram, var hvorki framtals- né skattskylt. Ég var ekkert að fylgja málinu eftir, heldur beið úrskurðar ríkisskattanefndar. Alveg eins varð með þm. Vestf. Ég var svo lánsamur þegar ég var fjmrh., að ég fékk að skipa einn skattstjóra í embætti og það er skattstjórinn á Ísafirði. (Gripið fram í.) Sá sem almenna ánægju hlýtur þeirra sem njóta. En þessi úrskurður hans stóðst ekki fyrir ríkisskattanefnd. Hún úrskurðaði, eins og vera ber, að það ætti ekki að skattleggja þetta, því að þetta væri ekki skattskylt. Sama er að segja ef við tökum sparifjáreign manna. Hún er skattfrjáls nema þeir skuldi meira en veðlán sem svarar láni hjá Húsnæðismálastofnun. Þetta er eins með spariskírteini og þessi ákvæði eru í lögum. Þess vegna erum við ekki hér að deila um skattsvik eða skattsvik ekki, heldur um framtalsskyldu eða framtalsskyldu ekki. Það er nákvæmlega sama upp á skattinn hvort þetta fer inn og út í skattframtalinu.

En ástæðan til að ég kvaddi mér hljóðs var sú, að hæstv. utanrrh. nefndi hér breytingu frá því að við komum fyrst á þing, við erum báðir búnir að vera hér lengi. En þá var þetta á þann veg sem hæstv. ráðh. sagði um framtal og skattskyldu. En þá voru líka, eins og ráðh. gat um, hlunnindi, ekki bara forseta Alþingis, heldur og ráðh. til kaupa á áfengi og tóbaki. Þá fengu þeir það eins og sendiherrar erlendra ríkja, án tolla og þeirrar álagningar sem fjmrh. á hverjum tíma ákveður um útsölu á þeim vörum. Ég gerði það, er ég var fjmrh., að ég bað Áfengisverslunina að láta mér í té lista yfir innkaup fyrrv. ráðh., en tók fram að það mætti ekkert vera þannig á listanum að hægt væri að greina hvað nafngreindur ráðh. hefði fengið mikið keypt. Ég hafði nefnilega ekki hugsað mér málið sem sérstakt auglýsingamál eða svívirðingarmál á fyrrv. ráðh. Þeir fóru að þeim reglum, sem gilt höfðu um fyrirrennara þeirra, og ég hafði ekki hugsað mér misnotkun á þessu. En ég bar fram í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar í fyrsta eða öðrum mánuðinum þá till., að þetta skyldi niður fellt. Það var samþykkt. En lesið Alþýðublaðið frá því að ég flutti fjárlagaræðuna um haustið og greindi frá þessu, hvað mér var hrósað fyrir það. Ég ætla ekki að fara að hafa yfir þau orð sem þar voru viðhöfð, en betur hefðu verið ósögð — ekki mín vegna, heldur þeirra sem þau sögðu, svo að ekki þykir nú allt breyting til batnaðar þó að gert sé. En þeir, sem nú sitja í ráðherrastólum, verða vafalaust að búa að þessari till. minni og fara á mis við það sem þeir nutu sem á undan voru. En þetta er eins og fleira, þetta er breytingum háð. Og deila okkar í dag er ekki um skattsvik, heldur um framtalsskyldu eða framtalsskyldu ekki. Lögin, sem við samþykktum í fyrravetur, eru búin að ákveða hvernig með þetta skuli fara eftir framtalsárið 1979.