30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

75. mál, kaup og sala notaðra bifreiða

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að gefa fulltrúum fjölmiðla, sem hér kunna að vera viðstaddir og hlýða á umr., nein fyrirmæli um það, hvernig þeir eigi að túlka þau mál sem hér eru til umr. Ég held að þeir séu alveg einfærir um það, án þess að alþm. séu að gefa fyrirmæli eða leiðbeiningar þar um.

Það mál, sem hér er á dagskrá, er till. til þál. um kaup og sölu notaðra bifreiða. Um það þarf ekki mörgum orðum að fara, svo augljóst er það, að þessi viðskipti, þ.e.a.s. kaup og sala notaðra bifreiða, eru einhver algengasta tegund lausafjárkaupa sem eiga sér stað meðal manna hérlendis.

Um s.l. áramót munu skráð ökutæki hér á landi hafa verið eitthvað kringum 80 þúsund talsins og á árinu 1977 fóru fram hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins rúmlega 18 þúsund umskráningar ökutækja, þar sem eigendaskipti áttu sér einnig stað. Fjölmiðlum varð á s.l. hausti tíðrætt um sviksemi og pretti af ýmsu tagi sem átt hafa sér stað í sambandi við kaup og sölu notaðra bifreiða. Rannsóknarlögregla ríkisins var á tímabili með til umfjöllunar og rannsóknar hartnær 50 mál er vörðuðu þessi atriði, kaup og sölu notaðra bifreiða, þar sem grunur lék á að svik hefðu verið höfð í frammi. Þá voru einnig á s.l. hausti þrír menn um skeið hnepptir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar slíkra mála.

Auðvitað er skylt að taka það fram, að ekki eiga allir hér jafna sök af þeim sem þessi viðskipti stunda. En það er ævinlega misjafn sauður í mörgu fé, og á höfuðborgarsvæðinu munu nú vera starfræktar einar 18 bílasölur hið minnsta, og víst er að þar eru líka aðilar sem í engu mega vamm sitt vita í viðskiptum. Hitt er og augljóst og ég byggi það á áreiðanlegum upplýsingum, að það kemur ekki nema brot af þeim málum til rannsóknar sem rannsaka þyrfti. Hér er það aðeins sá hluti jakans sem upp úr stendur sem kemur til afskipta Rannsóknarlögreglu ríkisins.

Þær reglur, sem nú gilda um kaup og sölu notaðra bifreiða, virðist á ýmsan hátt svo rúmar og svo lausar í öllum reipum, að þær gefa nánast óendanlega möguleika til svindls og brasks, ef vilji er til slíks á annað borð. Algengasti hátturinn, sem hafður mun á um sviksemi í þessum viðskiptum, mun vera sá, að bílasali, sem hyggst fara þessa leiðina, kaupir sjálfur þann bíl, sem um er að ræða, og notar til þess nafn kunningja síns eiginkonu eða einhvers sem honum er handgenginn, selur síðan bílinn aftur með ærnum hagnaði án þess að nafn þessa milliliðar komi nokkurs staðar fram, og ágóðanum stingur hann síðan í eigin vasa. Oft er það fólk, sem þannig er leikið, í tímabundinni fjárþröng og þarf að losa um peninga, eins og kallað, er í flýti. Bílasalinn gerir þá tilboð sem hann veit að er lægra en gangverð og hljóðar upp á sölu strax, en veit manna best að með því að bíða í fáeina daga getur hann e.t.v. selt bílinn fyrir miklum mun meira. Þessa eru allmörg dæmi.

Ljóst er, að því er þessi viðskipti varðar, að þar njóta borgararnir ekki þeirrar lögverndar sem eðlileg hlýtur að teljast, og ber því brýna nauðsyn til að setja um þessi mál öll fastari reglur en gilt hafa til þessa. Því er það, að ég hef leyft mér ásamt nokkrum öðrum þm. að flytja hér þáltill. sem gengur í þá átt, að ríkisstj. beiti sér fyrir breytingum á þar að lútandi lögum og reglum til að tryggja hagsmuni almennings í þessum efnum.

Nú er það svo, að hv. þm. Helgi Seljan hefur í Ed. flutt frv. .til l. um sölu notaðra lausafjármuna sem gengur mjög í sömu átt og þessari till. er ætlað að gera, án þess að ég þori þó að fullyrða, hvort það mundi nægja til að setja undir alla leka í þessum efnum, en þeir eru vissulega margir. Það er í sjálfu sér ekkert aðalatriði, hver á frumkvæðið að því að þessi mál verði færð í betra horf. Aðalatriðið er að þessi viðskipti verði gerð öruggari en verið hefur og þeim megi treysta.

Ég ætla að lokum aðeins að benda á örfá atriði sem ég hygg að til greina komi í sambandi við breytingar á þessum sviðum í átt til aukins öryggis fyrir borgarana. Það þarf að gera strangari kröfur til þeirra sem þessi viðskipti stunda. Athuga ber t.d. hvort ekki væri rétt að gera þeim að sæta fastmótaðri skráningu og einnig hvort ekki komi til álita að gera þeim að setja tryggingarfé svipað og ferðaskrifstofum er nú gert að gera. Ég hef lesið í erlendum blöðum nýlega, að í Bandaríkjunum og víðar tíðkast nú nýir viðskiptahættir með notaða bíla, sem eru þannig að sá sem hyggst selja bíl leigir stæði, ef svo má segja, á bílasölu þar sem bíll hans stendur gegn ákveðinni þóknun. Síðan kemur einhver sem vill kaupa og þá er það eingöngu mál seljanda og fyrirhugaðs kaupanda að gera út um þessi viðskipti, án þess að nokkur bílasali komi þar nálægt. Þá mætti sömuleiðis athuga hvort ekki ætti að númera afsöl þannig að auðveldara væri að rekja mál af þessu tagi, ef grunur leikur á að brögð hafi verið í tafli.

Þá skortir verulega á að sölutilkynningum sé skilað til hlutaðeigandi aðila, og mun t.d. ekki óalgengt að aðili, sem kaupir notaðan bíl, fái um leið í hendur 5 eða jafnvel 10 sölutilkynningar sem hefur verið vanrækt að skila, tilkynningar sem aldrei hafa komist í hendur hlutaðeigandi yfirvalda. Ég held að það sé öllum ljóst, að hér verður að gera breytingar á. Löggjafanum er skylt að láta þessi mál til sín taka með einhverjum hætti. Þess krefjast veigamiklir hagsmunir almennings, og hér er hvorki um að ræða flókið mál né heldur mál sem væri útlátasamt fyrir ríkissjóð. Því ætti ekki að þurfa að vefjast lengi fyrir Alþ. að koma þessu í viðunandi horf.

Ég legg til, herra forseti, að umr. um þetta mál verði frestað og málinu vísað til allshn.