31.01.1979
Efri deild: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

149. mál, ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot

Jón G. Sólnes.:

Herra forseti. Einhverra hluta vegna fór 1. umr. þessa frv. fram hjá mér, annaðhvort hef ég ekki verið viðstaddur eða orðið af umr. af einhverjum öðrum ástæðum.

Ég vil í sambandi við þetta mál, sem hér er til meðferðar, benda á eitt atriði sem ég held að menn þurfi að hafa í huga varðandi það mál sem þetta frv. fjallar um. Og nú vil ég taka það fram, að þau ummæli, sem ég mun hafa hér á eftir, eru ekki stíluð á að andæfa því að tryggja nauðsynlegan rétt launafólks í sambandi við laun þess þegar til gjaldþrotaskipta fyrirtækja kemur og önnur vandræði steðja að. Ég vil aðeins benda á, að ég held að nauðsynlegt sé fyrir löggjafann að taka til athugunar að við megum ekki hafa þetta allt of opið. Samkv. þeim ákvæðum, sem eru í þessu frv., og reyndar lögum, sem höfðu áður verið afgreidd svipaðs eðlis, er ekki útilokað að fyrirtæki geti gert algerlega óraunhæfa launasamninga, sem eiga sér ekki neina eðlilega stoð, og svo þegar til gjaldþrotaskipta kemur sé hægt að ávísa á ríkissjóð til fullnægingar slíkum samningum. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir löggjafann að setja einhverjar skorður við því, að ákvæði, sem felast í lögum eins og þessum verði ekki á neinn hátt til þess að skapa möguleika á misnotkun sem gæti kostað ríkissjóð stórfé. Þetta held ég að sé ekki óeðlilegt að taka til athugunar, að þarna þurfa að vera einhver ákvæði sem fela í sér varúð eða varnaðarorð á þann veg að ekki verði stefnt í einhverja ófæru sem erfiðleikar geta orðið á að komast út úr.

Herra forseti. Ég vildi aðeins benda á þetta atriði við 2. umr. þessa máls, en ég tel að þetta sé mikilvægt atriði.