31.01.1979
Neðri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það, sem kemur mér til að standa upp, er tónninn í upphafsorðum hæstv. ráðh. þegar hann tók til máls í fyrra skiptið. Hann talaði með þvílíkri fyrirlitningu um umsögn Vinnuveitendasambands Íslands, að ég verð að segja að ég varð furðu lostinn, enda-eins og hann sagði — ekki við öðru að búast úr þeirri átt en neikvæðri umsögn! Ég harma það, að ráðh. sjálfur skuli ekki finna að hann á að vera samnefnari aðila vinnumarkaðarins þegar hann á annað borð skiptir sér af vinnumarkaðinum eða samkomulagi sem verið er að reyna að koma á milli aðila vinnumarkaðarins, — nema hann vilji staðfesta að Vinnuveitendasambandið sé orðið það lítils megnugt að það taki því ekki að líta á það og þá aðila, sem standa að þeim samtökum, sem aðila vinnumarkaðarins. Kannske sósíalisminn eða kommúnisminn sé kominn á það stig, að aðilar vinnumarkaðarins frá þeirra sjónarmiði séu eingöngu ríki og sveitarfélög. Það er rétt, að þetta eru orðnir langstærstu vinnuveitendur í landinu, og þar af leiðandi telur ríkisstj. sér ekki skylt að eyða miklum tíma í að tala við þá aðila vinnumarkaðarins sem tilheyra Vinnuveitendasambandinu, sem sagt hina frjálsu atvinnurekendur. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig. Það er þá rétt að þjóðin geri sér ljóst að við erum komnir þetta langt í að drepa af okkur frjálst framtak.

En það getur vel verið að einn góðan veðurdag vakni ríkisstj. upp við vondan draum. Það er ekkert víst að hún geti leyft sér að ganga fram hjá vinnuveitendum almennt, vegna þess að ég held að ríkisstj. springi og það kerfi, sem hún er búin að byggja upp á nokkuð mörgum undanförnum árum, springi á sínum eigin vinnumarkaði. Ríkisstj. er ekki tilbúin, langt frá því að hún sé undir það búin að taka við því vinnuafli sem gæti skapast við atvinnuleysi á hinum frjálsa vinnumarkaði. Og þó að sá skömmtunarseðill til hinna frjálsu vinnuveitenda, sem hér er lagður fram á þskj. 273, nái fram að ganga og vinnuveitendur í Vinnuveitendasambandi Íslands fái þar engu um ráðið og ekkert tillit verði tekið til umsagna þeirra sem þeir veita að beiðni opinberra aðila, þá getur vel verið að það verði til þess að atvinnurekendur loki í enn ríkari mæli en þegar er orðið fyrirtækjum sínum — og hvað ætlar ríkisstj. þá að gera við það fólk sem kemur á vinnumarkaðinn?

Ég get ekki betur séð en það sé samdráttarstefna, sem ríkisstj. rekur, og þá samdráttarstefna náttúrlega á þeim vinnumarkaði, sem hún ræður best við, og ætlast þá til að hinn frjálsi atvinnurekandi taki við því vinnuafli sem kemur á frjálsan markað af þeim vinnumarkaði sem ríkisstj. ræður yfir, á sama tíma og hún er að knésetja hinn frjálsa atvinnurekanda með íþyngjandi aðgerðum.

Ég harma það, að ríkisstj. skuli ekki taka meira tillit til umsagna samtaka vinnuveitenda, þó svo að ríkisstj. beri ekki meiri virðingu en raun ber vitni fyrir þeim samtökum. Ég álít að hér sé um valdboð að ræða sem setur hinn frjálsa vinnuveitanda og þann vinnumarkað í hættu.

Ég lýsi furðu minni á því, að ekki skuli vera vilji fyrir því að skipa sameiginlega nefnd manna, bæði frá verkalýðshreyfingunni og frá ríkisstj. sjálfri og frá samtökum frjálsra vinnuveitenda, Vinnuveitendasambandi Íslands. Ég er hræddur um að endanlegur kostnaður og langmesti kostnaðurinn við það frv., sem hér er á dagskrá, lendi á ríki og sveitarfélögum sjálfum sem langstærstu vinnuveitendunum.

Á sama tíma sem þessar íþyngjandi aðgerðir eru samþykktar gagnvart hinum frjálsa vinnuveitanda eða vinnumarkaðinum í heild má segja, þá vitum við að fyrirtæki eru fjárvana. Það er rétt, sem hefur komið fram hjá guðföður þessarar ríkisstj., að almennur rekstur þolir ekki fjármagnskostnað þann sem í dag hvílir á hinum almenna frjálsa rekstri. Þessi frjálsi rekstur getur hvorki hækkað álagningu né getur hann skattpínt fólk, eins og ríkisstj. gerir til þess að standa undir ráðstöfunum sínum. Hann verður að taka af rekstri sínum og eignum eða bara keyra sig í strand á lánum til að fresta því að loka fyrirtæki sínu. Hér er sem sagt um að ræða annaðhvort vísvitandi eyðileggingu á hinum frjálsa vinnumarkaði eða hreina eignaupptöku, sem er í gangi þar sem ríkið ætlar sér það hlutverk að verða endanlega eini vinnuveitandinn ásamt sveitarfélögum á Íslandi.

En það er óþarfi að ráðamenn, eins og t.d. í þessu tilfelli hæstv. ráðh., láti kné fylgja kviði og tali í lítilsvirðingartón um Vinnuveitendasamband Íslands og umsögn þess í þessu dauðastríði, sem vinnuveitendur eiga nú í, því að það er barátta annars vegar á milli opinberra aðila og hins vegar hins frjálsa vinnumarkaðar sem á sér stað. Spurningin er: Deyr hinn frjálsi vinnumarkaður út áður en ríkisstj. er öll?