31.01.1979
Neðri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

69. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að vísa á bug þeim rökstuðningi, sem fram kom í till. hv. 1. flm. um n. í málið. Þetta er að sjálfsögðu landbn.-mál og á þangað að fara, ef það á annað borð á erindi til n., sem getur nú kannske vafist fyrir manni að fullyrða. En allt um það, þá held ég að óhjákvæmilegt sé að frv. hljóti þinglega afgreiðslu og þinglega meðferð, og ég geri það að till. minni, herra forseti, að þetta mál fari til hv. landbn. deildarinnar.

Mér þykir fyrir því, að hér í salinn vantar hv. þm. Finn Torfa Stefánsson, 2. landsk. þm., vegna þess að ég hefði haft löngun til þess að ræða við hann og fá fram skoðanir hans á þessu máli og á prent í Alþingistíðindum. Á framboðsfundum í fyrravor í Norðurl. v. kvað aldeilis við annan tón hjá hv. þm. Finni Torfa Stefánssyni en kveður við í þessu frv. Hann sagði nefnilega landbúnaðarstefnu Alþfl. gerbreytta. Þessi gamla stefna, sem fylgt hefði verið, væri horfin af sjónarsviðinu með gömlum mönnum — vitnaði til fyrrv. formanns Alþfl. Gylfa Þ. Gíslasonar í því sambandi — og nú væri aldeilis annað uppi á teningnum.

Vissulega gaf það nokkrar vonir um að annað væri uppi á teningnum þegar Alþfl. fékkst til þess að standa að stjfrv. um framleiðsluráðslög sem hér er til meðferðar í d. En síðan ber formaður þessa sama þingflokks ásamt þrem öðrum hv. þm. fram þetta frv., endurflytur þennan samsetning og gerir það nú á þskj. 75. Þetta frv. var til umr. í fyrra og það hefur ekkert breyst. Það kemur sem sé í ljós, þrátt fyrir fullyrðingar hv. 2. landsk. þm. um að landbúnaðarstefna Alþfl. sé breytt, að hún er enn hin sama, eða a.m.k. botna ég ekki í þeim tvískinnungi sem felst í því að standa að báðum þessum frv. Á þessu þskj. er sami gamli kratagrauturinn, hann er kannske aðeins viðbrenndari en í fyrra, en hann er a.m.k. ekki betri.

Þetta er að mínum dómi slæmt frv. Það er slæmt m.a. vegna þess, að það stefnir að því að ná, samkv. því sem segir á bls. 8, réttum 2 milljörðum aukalega frá bændastéttinni miðaðviðverðlagsárið 1977–1978. Ef það hefði verið í fullu gildi, hefðu bændur tapað aukalega 2 milljörðum. Þetta gerir fast að 500 þús. kr. á hvern bónda. Og ég bið menn að taka eftir: Það er allt saman tekið af kaupi bóndans, vegna þess að hann getur ekki fært þetta með nokkru móti á annan. Hann verður að borga þetta af kaupi sínu. Þetta er kannske ekki nema eins og hálfs mánaðar kaup hjá flugmönnum í landinu, en íslenska bændur munar nú upp og ofan um upphæð eins og þessa. Þetta bætist ofan á fyrirsjáanlega tekjurýrnun vegna vöntunar á útflutningsbótum. Í þessu felst bein kjaraskerðing og ekkert annað.

Það er rétt að fara ofurlítið fleiri orðum en hv. flm. gerði um 10% regluna og hvernig þessar útflutningsbætur eru komnar til. Að mörgu leyti greindi hann rétt frá, en kjarni málsins er náttúrlega sá, að útflutningsbæturnar voru teknar upp til þess að fría neytendur í landinu við að hallanum af útflutningi yrði jafnað á vöruverð í landinu. Þetta er sem sagt stjórntæki til þess að halda niðri vöruverði í landinu. Bændur áttu þann rétt að geta jafnað þessum halla niður lögum samkv. og jafnað honum niður á vöruverð innanlands, ef til þess kom að flytja þurfti út. Að sjálfsögðu búum við við aðrar tölur núna en árið 1960–1961. Blessuð krónan okkar er orðin ansi miklu minni og aðstæður í þjóðfélaginu eru orðnar talsvert aðrar og samanburðurinn við aðrar þjóðir er orðinn talsvert óhagstæðari. Þjóð, sem býr við 30–50% verðbólgu á ári, getur ekki til langframa keppt á mörkuðum við þjóðir sem búa við innan 10% verðbólgu á ári. Þetta er einfalt mál, og þess vegna verður að grípa til sérstakra ráðstafana.

Framleiðsla landbúnaðarafurða er helst til mikil á Íslandi eins og stendur. Það þarf að draga úr henni. Þegar góðæri í landinu og framkvæmdahugur undanfarinna ára hjá bændum leggst á eitt, en neysla þjóðarinnar á landbúnaðarvörum dregst saman, þá safnast að sjálfsögðu fyrir búvörur sem þarf að flytja úr landi eða afla markaða fyrir með öðrum hætti. Nokkuð af þessari framleiðsluaukningu er til komið vegna nýrra búgreina, m.a. verksmiðjubúskapar sem tekinn hefur verið upp á nokkrum búum, þar sem farið er að framleiða landbúnaðarvörur í miklu stærri einingum en áður hefur tíðkast á landinu. Fyrir 10 árum var uppi mikið skynvæðingarfjas og menn, sem alltaf kunnu ráð við öllu, ætluðu að bjarga þjóðinni með því að stækka einingarnar, stækka búin. Þá á ég ekki við hin venjulegu meðalbú eða kannske ofurlítið stærri, ég á við að mönnum hélst uppi að setja upp miklu stærri bú en áður höfðu þekkst, og þessi bú hafa raunar reynst — sum þeirra — mjög óhagkvæm og þetta er allt saman fallið um sjálft sig. En eftir sitjum við með vandann sem af þessum búum skapaðist, og raunar er enn í fullum gangi uppsetning verksmiðja þar sem framleiddir eru kjúklingar, egg eða svín.

Það er vissulega mikill vandi fyrir höndum í landbúnaði. Bændum er manna best ljóst hvað þessi vandi er mikill, og á þeim brennur hann náttúrlega fyrst og fremst. Þeir hafa beðið um aðstoð Alþingis og stjórnarvalda til að bægja honum frá. Þeir hafa farið þess á leit við ríkisstj., að hún beitti sér fyrir lagasetningu um framleiðsluráð, og það frv. er nú til meðferðar hjá hv. landbn. d. Sýnir það náttúrlega þann skilning að framleiðsluráðslög eiga heima hjá landbn. Því miður voru viðtökur þessa frv. ekki þannig að ég eigi von á að það nái fram að ganga. Það er heldur ekkert algott frv. sem liggur nú hjá hv. landbn. En ég held að það sé þó skásta og sársaukaminnsta lausnin fyrir bændur sem ég fæ komið auga á í bili, enda er það undirbúið með þeim hætti, að bændur hafa samið það sjálfir og náð um það tiltölulega góðri samstöðu. Þó að nú sé reynt að eyðileggja þá samstöðu og efna til fundarhalda til þess að kveða hana niður. Og það er ekki víst að þetta frv. leysi allan vanda, en ég held að það sé skref í rétta átt og líkur til að það bæti nokkuð úr, a.m.k. forði frá óförum, ef að lögum yrði, sem annars mundu dynja yfir. Ef ekkert er gert í málinu kann að reka að því og ég óttast að það reki að því, að hallinn, sem þessi mikla framleiðsla skapar, verði til þess að menn fái ekki verðið sem þeim er reiknað fyrir afurðirnar og þessi skellur komi allur eftir á. Og það er áreiðanlega sárasta leiðin fyrir bændur og því verri sem búin eru minni og aðstaða bænda er lakari. Þetta er skárra fyrir þá bændur, sem betur mega sín, og ef nokkuð er, gerir þá fátæku fátækari.

Það er náttúrlega tómt mál að tala um þá lausn sem Alþb.-menn héldu fram fyrir síðustu kosningar og raunar eru ekki alveg af baki dottnir með enn þá, að það væri nóg að hækka kaupið, auka niðurgreiðslurnar og lækka skattana og þá mundi fólkið borða meira af landbúnaðarvörum. Þessi kenning hefur verið prófuð að nokkru leyti, en því miður heldur hún ekki.

Þó að menn mikli fyrir sér þennan vanda sem skapast af mikilli landbúnaðarframleiðslu, þá er ekki því að gleyma, að úr landbúnaðarafurðum eru framleiddar mjög mikilvægar iðnaðarvörur fyrir þetta þjóðarbú. Iðnaður úr ull og skinnum er orðinn ein okkar mesta útflutningsframleiðslugrein, og að sjálfsögðu mundi draga úr ullar- og skinnaframleiðslu ef fénu fækkaði í landinu, þannig að menn mega ekki einblína á kjötframleiðsluna. Og hinar miklu smjörbirgðir, sem til eru í landinu, eru m.a. til komnar vegna þess að mjólkurbúin hafa ekki verið tæknilega undir það búin að framleiða þá osta sem helst er hægt að flytja út. Úr þessu þarf að bæta og það sem skjótast og er enda unnið að því.

Bændur eru tekjulægsta stétt í þessu landi. Það dæmi lagaðist að vísu á s.l. ári og blessunarlega dró saman með bændum og öðrum stéttum, en þó vantar mikið á að þeir fái það kaup sem þeim er ætlað lögum samkv., fái það kaup sem viðmiðunarstéttirnar hafa. Ríkisstj. hefur gert ýmsar ráðstafanir sem líklegar eru til að stytta þetta bil. En sú framleiðsluráðslagabreyting, sem er lögð til á þskj. 75, er ekki líkleg til að verða til þess að draga þarna saman. Þvert á móti er hún vís til að skerða hlut bænda, og þetta er lakasta hugmyndin af öllum þeim mörgu hugmyndum sem hreyft hefur verið af hinum og þessum aðilum til lausnar á þeim vanda sem við er að etja í landbúnaðinum.

Hv. 1. flm. þurfti að taka það fram í lok ræðu sinnar, að hann væri ekki beint að miða að því að finna leið til þess að skera bændur niður við trog. Seinna var hann kominn á það að halda þessari sláturtíð í fjögur ár, skildist mér. En allt um það hlýtur náttúrlega samþykkt þessa frv. ein og sér að verða til þess. Hann mælti margt réttilega þegar hann sagði frá því, að það þyrfti að finna ráð til að bæta bændum upp tekjutapið. En þá var bara ekki lengur orðið neitt samræmi í málflutningnum og þá hefði hann betur ekki lagt þetta frv. sitt fram.

Ég held að þetta frv. verði þrátt fyrir galla þess að fá þinglega meðferð, og það verður að sjálfsögðu að ganga til landbn. Ég gerði mér ekki neina rellu út af því, þó að það sofnaði þar. Ef landbn. teldi sig til þess knúða að afgreiða það, þá vona ég að hún leggi til að það verði fellt.