01.02.1979
Sameinað þing: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2256 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það eru margir á mælendaskrá og ég óska aðeins eftir að fá að koma inn í umr. til að segja örfá orð út af meðferð málsins, sem ég gerði ekki að umræðuefni, en hv. 1. þm. Austurl. gagnrýndi mjög harðlega.

Gangurinn í meðferð þessa máls var í stórum dráttum á þessa leið: Síðustu dagana í nóv., þegar skeyti bárust frá Færeyingum um að þeir óskuðu eftir viðræðum um endurnýjun á loðnu- og kolmunnasamningunum, þá skýrði ég strax frá því, bæði í ríkisstj. og utanrmn. Um miðjan desember var fundur í utanrmn. og þá tók ég þetta mál aftur upp, sagði að það væri ákveðið, að Færeyingar kæmu snemma í janúar, og óskaði eftir því, að utanrmn.-menn bæru sig saman við flokka sína til þess að geta gefið ráð um afstöðu til þessa máls skýrt og afdráttarlaust. Þar af leiðandi get ég ekki tekið ásökunum um að það sé-mér að kenna ef ekki hefur verið rætt við einhvern af þingflokkunum. (LJós: Lá samningurinn fyrir líka?) Nei. Vitað var um hvað þessar viðræður mundu snúast. Það var lítill vandi fyrir aðra menn, t.d. hv. 1. þm. Austurl., að gera sér grein fyrir því fyrir fram, hvernig þeir teldu að niðurstaðan ætti að vera. Þetta er ekki það flókið mál. (LJós: Við eigum að taka afstöðu til samninga þegar þeir liggja fyrir, en ekki í sambandi við viðræður.)

2. jan. var ákveðið að viðræðurnar færu fram viku síðar. Þá tók ég málið upp í ríkisstj., skýrði frá því að vika væri til stefnu. Auðvitað kunna allir menn utan bókar þær fáu tölur sem um var að ræða, þetta er svo einfaldur samningur. Sjútvrh. lét á þessum fundi í ljós sömu skoðun sem hann hafði látið í ljós opinberlega áður, að hann teldi að það yrði að minnka magnið sem Færeyingar fengju. Ráðh. Alþb. höfðu ekki eitt aukatekið orð um þetta að seg a. Forsrh. sagði þá í lokin: Málið fer þá til utanrmn.“ Ég hafði skýrt frá því, að ég hefði óskað eftir sérstökum fundi í utanrmn. til að fjalla um málið, og orð hans voru þau: „Málið fer þá til utanrmn.“ — Þessi sérstaki fundur í utanrmn. var haldinn og þá kom í ljós hjá utanrmn.-mönnum, að engir þeirra höfðu komið því við fyrir jólin að fá fram umr. á þingflokksfundum hjá sér, þrátt fyrir að um hafði verið að ræða meira en hálfan mánuð til stefnu. Að vísu vitum við hvernig vinnuálag er í þinginu síðustu dagana fyrir jól. Þrátt fyrir þetta fóru fram efnislegar umr. um það, hvernig utanrmn.-menn teldu að hugsanlegt væri að semja, og margir af utanrmn.-mönnum sögðu að þeir hefðu rætt við og heyrt skoðanir hjá allmörgum flokksbræðrum sínum. Það gerðist t.d. að varaformaður utanrmn., hæstv. forseti Sþ., sem hefur þegar verið nefndur, skýrði frá afstöðu sinni. Hann skýrði líka frá því, að honum væri fullkunnugt um af viðræðum við flokksbræður sína, að það væru menn í þingflokki hans sem væru andstæðrar skoðunar. Fulltrúi Alþfl., hv. þm. Árni Gunnarsson, gerði hið sama. Hann lýsti skoðun sinni, en sagði að hann vissi að í þingflokki Alþfl. væru til öndverðar skoðanir. Engu að síður var augljós niðurstaða af þessum fundi utanrmn. Mikill meiri hluti þeirra manna, sem þarna voru mættir, mælti með því að samið yrði við Færeyinga að nýju, en aflamagnið minnkað. Einn maður nefndi töluna 25 þús. tonn af loðnu. Aðrir nefndu ekki tölur.

Nú er það svo, að það er alrangt hjá hv. 1. þm. Austurl. að utanrmn. sé eins og hver önnur undirnefnd Alþingis, það er hún ekki. Utanrmn. hefur algera sérstöðu meðal nefnda Alþ. Ákvæði er í þingsköpum um að hún skuli vera ráðgefandi í utanríkismálum fyrir ríkisstj., og tekið er fram að hún skuli gegna þessu ráðgefandi hlutverki árið um kring. Þetta er eina þn. sem starfar allt árið til að gegna þessu hlutverki. Og með því að félagar mínir í ríkisstj. ræddu þetta mál ekki meir en þeir gerðu og síðustu orð forsrh., áður en hann tók fyrir næsta mál, voru: „Málið fer þá til utanrmn.“ — gerði ég það sem þingsköp mæla fyrir um: ég ráðgaðist við utanrmn. Í samningunum fórum við að vísu ekki alveg eftir því sem mér fannst vera tónninn í utanrmn. Við gengum lengra í því að skera niður aflamagnið. Það að auki tilkynnti ég að formaður utanrmn. mundi verða í samninganefndinni, þannig að hann gæti kallað utanrmn. saman, ef honum þætti ástæða til, hvenær sem væri.

Varðandi það, hverjir fóru með gerð þessara samninga, þá er það alveg eftir venju. Það verkefni að gera samninga við önnur ríki hefur forseti Íslands samkv. stjórnarskránni og fara ráðh. með umboð til þess. Það er ekkert um ríkisstj. sem slíka í stjórnarskránni, að ég held. Umboðið felst í því, að ég og sjútvrh. förum með þessi mál — eða sérstaklega ég, það fylgir starfi mínu. En þetta umboð er takmarkað á þann hátt, að vissar tegundir samninga, sem hafa í för með sér afsal einhverra landréttinda eða hlunninda, skal bera undir Alþingi til staðfestingar eða synjunar. Það erum við að gera nú.

Ég vil að lokum geta þess, að daginn sem Færeyingar voru komnir hingað til viðræðna, sólarhring síðar en ætlað var vegna flugsamgangna, var umr. frestað fram yfir hádegi af því að það var ríkisstjórnarfundur um morguninn. Ég spurði raunar forsrh. fyrir fundinn, hvort hann héldi að samningamálið mundi koma þar upp. „Við skulum sjá til“, sagði hann. En þó að þetta væri á vitorði allra manna í landinu, að fulltrúar Færeyinga væru komnir og viðræðurnar ættu að hefjast síðdegis þennan dag, tóku fulltrúar Alþb. í ríkisstj. ekki til máls um þær, höfðu ekkert sérstakt fram að færa. Þeir höfðu þarna tækifæri nokkrum klukkutímum áður en samningarnir byrjuðu. Ég verð að játa að ég skildi þetta hreinlega þannig, að vegna þess að það væru skiptar skoðanir í þeirra flokki, mínum flokki o.fl., þá teldu þeir að það svaraði ekki tilgangi að vera að eyða tíma í að deila um þetta í ríkisstj., heldur best að láta samráðin fara fram í utanrmn., þar sem Alþb. hefur tvo ágæta fulltrúa.

Ég tel því, þegar á þetta er lítið í heild, að það sé alls ekki réttmætt að bera fram ásakanir um það, að ekki hafi verið ráðgast við alla aðila, stjórn og stjórnarandstöðu, eins og eðlilegt er í máli sem þessu, og að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki haft ærin tækifæri til þess að ræða málin í ríkisstj., ef þeir hefðu óskað eftir frekari umr. þar. Það er nú einu sinni svo um allan þorrann af samningum af þessu tagi, að það er ekki hægt að taka langan tíma eftir að samkomulag hefur náðst í hörðum viðræðum, eins og þessar voru þrátt fyrir allt, og fara svo að bera það undir marga aðila annars staðar og kannske þurfa að kalla saman til nýrra viðræðna. Það gæti orðið tímafrekt verk. Það var því óhjákvæmilegt að fulltrúar utanrrn. og sjútvrn., sem áður hafa farið með samninga sem þessa, að viðbættum formanni utanrmn. nú fyrir hennar hönd gerðu þessa samninga. Svo verður að ráðast hvort Alþ. staðfestir þá eða fellir.