01.02.1979
Sameinað þing: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2277 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil vegna orða hv. 11. þm. Reykv. upplýsa hér, að þau gögn, sem hann var að geta um að haldið hefði verið fyrir sér eða þm., eru gögn sem stíluð voru til ríkisstj., en ekki til iðnrn., og af þeim sökum taldi ég ekki réttmætt að senda þau formönnum þingflokkanna án þess að um það væri fjallað í ríkisstj. En mér sýnist að hv. 11. þm. Reykv. þurfi ekki að kvarta. Hann er með þessi gögn milli handa og hefur átt aðgang að þeim. Af minni hálfu var ekki neinn ásetningur að leyna þessum gögnum, en ég taldi viðeigandi að um það væri fjallað af hæstv. ríkisstj. áður en farið væri að dreifa þeim opinberlega eða senda þau til þm. Sama er að segja um þá grg. og till. sem ég lagði fyrir hæstv. ríkisstj. 25. jan., að hún var til ríkisstj. og ég taldi ekki eðlilegt að vera að dreifa gagni af því tagi með þeim mörgu upplýsingum sem ég sendi formönnum þingflokkanna. En það mun ekki standa á því, að þessi gögn fáist birt hv. Alþ. ef menn telja ástæðu til. Ég mun þá leita eftir því innan ríkisstj. að fá heimild til þess.

Ég ætla að svo komnu ekki að lengja þessa umr. og ekki misnota leyfi hæstv. forseta til þess að fá að taka hér aðeins til máls.