05.02.1979
Efri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2286 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. hefur flutt fróðlega ræðu með fsp. sínum og fjallar að minni hyggju um tvo þætti hafréttarmálanna sem ekki er nauðsynlegt að þurfi að fara saman.

Það kom til umræðu og hefur lengi verið til meðferðar á Hafréttarráðstefnunni, hver skuli vera lögsaga ríkja og þá hvers konar mismunandi lögsaga, og náðist fljótlega árangur í stórum dráttum. Í lok þeirrar lotu má segja að við höfum með átökum okkar við tvö stórveldi, sem áður veiddu hér við Ísland, unnið raunverulega lokasigur í landhelgismáli okkar. En ljóst er að enn eru óleyst vandamál, annars vegar varðandi mörk á milli landa og réttindi eyja á svæðinu fyrir norðan Ísland sem okkur snerta, og svo er hitt málið, sem ég held að við ættum ekki að blanda algerlega saman við þetta, en það eru ytri mörk landgrunnsins og sá réttur sem ríki eiga að hafa til auðlinda í landgrunninu sjálfu og í hafsbotninum, jafnvel utan við 200 mílur. Þetta síðastnefnda ræddi hv. þm. allítarlega og gerði grein fyrir því, enda rík ástæða til. Það mál er miklu styttra komið en hitt og má segja að nú standi yfir hvað heitust meginátök um stefnu í því máli á Hafréttarráðstefnunni, eins og honum er mætavel kunnugt um þar sem hann hefur verið fulltrúi þar.

Það er, að því er mér er tjáð af mönnum sem þekkja vel til þessara mála, vel hugsanlegt að ein þjóð eigi rétt til auðlinda í botni á sjálfu landgrunninu, en á sama stað geti önnur þjóð átt réttinn til auðæfanna í hafinu fyrir ofan. Þetta fer eftir því, hverjar niðurstöður verða á Hafréttarráðstefnunni, en þar er um að ræða fleiri en eina meginhugmynd. Þar eru ríki sem aðhyllast þá skoðun, að draga eigi ein og sömu mörkin og segja að 200 mílur skuli gilda bæði fyrir hafið og fyrir botninn, en mörg ríki eru á annarri skoðun, — telja að gilda eigi sérstakar reglur fyrir hafsbotninn þar sem hann teygir sig út fyrir 200 mílur. Togast þar á tvær megintillögur. Annars vegar er sú sem kennd er við Íra. Þeir hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga, því að þeir vilja ná valdi á grunnu hafsvæði sem er alllangt út af Írlandi, þar sem talið er hugsanlegt að allmikill olíuauður sé. Hin kenningin er kennd við Sovétríkin. Mun væntanlega koma í ljós á þeim fundi Hafréttarráðstefnunnar sem næst verður haldinn og byrjar eftir miðjan næsta mánuð, og síðan væntanlega í framhaldi hans, hvernig þessu máli lyktar.

Það er að sjálfsögðu rétt hjá hv. þm., að það getur farið svo, að Íslendingar öðlist mögulegan rétt til hafsbotns sem yrði utan við 200 mílna mörk okkar, þar sem yrði um réttindi til hafsins þar fyrir ofan að ræða, og þess vegna veitum við þessu máli mikla athygli. Það verður tekið til frekari athugunar um leið og undirbúningur næstu Hafréttarráðstefnu hefst.

Varðandi það, að ekkert hafi verið gert til að afla upplýsinga um þetta mál, vil ég aðeins vísa til yfirlýsinga Hans G. Andersen ambassadors á fundi utanrmn., þar sem hann tiltók margvíslega upplýsingasöfnun og þ. á m. að á síðasta hafréttarráðsfundi fór sá jarðfræðingur, sem mest þekkir til þessara mála, héðan vestur um haf.

Hitt málið er mönnum vafalaust öllu frekar hugleikið hér á landi, en það snertir línur á milli landa og þar með réttindi sem næðu yfir markalínur milli landa á svæðinu fyrir norðan Ísland. Um þetta hafa orðið nokkur blaðaskrif, sem hv. þm. nefndi, nú síðustu dagana. Hefur verið vísað þar í viðtal sem norska sjónvarpið átti við mig, og hafa orð mín verið túlkuð á mismunandi hátt. Í því sambandi vil ég lýsa afstöðu minni, sem ég tel að sé í beinu sambandi við þá afstöðu sem Íslendingar hafa mótað sér í þessum málum og engin breyting er á. Að gefnu þessu tilefni óska ég að taka fram:

1) Síðan núv. ríkisstj. var mynduð hefur utanrrn. haft stöðugt samband við norsk yfirvöld, ráðh., ambassadora og aðra embættismenn, um lögsögumál Jan Mayen. Tilgangurinn hefur verið að fylgjast mjög vandlega með framvindu málsins í Noregi og fara fram á að Norðmenn færðu ekki út fiskveiðilandhelgi Jan Mayen án þess að ræða það mál vandlega við íslensk yfirvöld. Fyrirheit um slík samráð hafa verið gefin. Ég tel mig hafa þau afdráttarlaus.

2) Fulltrúar Íslands hafa aldrei látið í ljós neins konar viðurkenningu á rétti Jan Mayen til fiskveiðilögsögu. Ummæli mín í norska sjónvarpinu, þar sem minnst var á texta Hafréttarráðstefnunnar um lögsögu eyja, fjallar aðeins um kunna staðreynd og felst engin viðurkenning í þeim.

Ætlunin með svarinu var beinlínis að vísa í texta Hafréttarráðstefnunnar, sem eins og hv. þm. benti á er ekki hinn endanlegi enn þá. (StJ: Er ekki hægt að fá þessi ummæli orðrétt?) Ég held að þau hafi verið birt orðrétt í Morgunblaðinu. Mér skildist að Morgunblaðið hefði orðréttan texta. Annars skal ég gera ráðstafanir til þess ef þess er óskað.

3) Í reglugerðinni um útfærslu íslensku fiskveiðilandhelginnar í 200 mílur, sem Matthías Bjarnason sjútvrh. gaf út í júlí 1975, er tekið fram í lok 1. gr., að Íslendingar muni ekki framfylgja útfærslunni út fyrir miðlínu gagnvart Jan Mayen. Norskir blaðamenn hafa mikið spurt um þetta atriði og hvort Íslendingar muni fallast á miðlínu eða „grátt svæði“ gagnvart Jan Mayen. Ég hef ávallt neitað að segja orð um miðlínu eða nokkrar aðrar línur, en hef í þess stað lagt áherslu á að í öllu þessu máli beri að láta sanngirnissjónarmið ráða, á Íslandi búi heil þjóð, sem lifir á fiskveiðum, en á Jan Mayen búi enginn maður, sem lifi á auðlindum lands eða sjávar.

4) Samkomulag hefur orðið um að auka samstarf um rannsóknir á loðnustofninum og göngum hans. Munu fundir um það hefjast í Reykjavík eftir nokkrar vikur.

Í Noregi hafa verið feiknamiklar umræður um þessi mál s.l. hálft ár og Norsk fiskarlag, samtök útgerðarmanna og sjómanna, hefur lagt þunga pressu á ríkisstj. að færa út mörkin við Jan Mayen. Síðast á fimmtudaginn var gengu fulltrúar frá Norsk fiskarlag á fund forsrh., utanrrh. og sjútvrh. Noregs, en eftir því sem ég kemst næst hefur enginn árangur orðið af þeim fundi. Fiskimálaráðh. Norðmanna, Eyvind Bolle, hefur lýst því yfir í sjónvarpsviðtali, sem við fengum á sínum tíma texta af, að ekki væri að vænta útfærslu allt þetta ár a.m.k. Hann gaf þá aðalskýringu á þessu, að það þyrfti að rannsaka fiskstofna og aðrar auðlindir í hafinu kringum Jan Mayen miklu betur áður en að útfærslu kæmi.

Það hefur verið margt um þetta talað í Noregi. Ég hef grun um að þar hafi stundum verið borið við að það væri vegna Íslendinga og af einhverjum hernaðarlegum sjónarmiðum á Íslandi sem norska stjórnin sýndi þá tregðu, sem hún augsýnilega gerir, að verða ekki við svo hörðum kröfum sem þarna er um að ræða.

Þrem dögum áður en margumrætt sjónvarpsviðtal átti sér stað birtist frétt frá sama fréttamanni, sem kom til að reyna að fá botn í þessi mál, þar sem hann spurði mig: Eru Íslendingar ekki tilbúnir að hefja viðræður um fiskveiðilögsögu kringum Jan Mayen? Svarið var afdráttarlaust: Já, við erum alltaf reiðubúnir til þess að ræða mál varðandi fiskveiðilögsögu á okkar svæðum. — Í lok þessarar fréttar segir fréttamaðurinn frá eigin brjósti, að nú liggi ljóst fyrir að það séu norsk stjórnvöld sem standi á. Það var spurningin sem hann vildi fá svar við. Þess vegna tel ég að það sé ekki rétt að tala um að tregðulögmál hafi ríkt í þessum efnum af hálfu ríkisstj. Íslands.

Hins vegar eru viss vandkvæði á því að hefja formlegar opnar viðræður um þessi hafsvæði. Þetta mundu verða viðræður, ef þær ættu að vera á formlegum grundvelli, um úthafssvæði, a.m.k. þangað til Norðmenn hefðu náð einhverju samkomulagi eða fært út án samkomulags einhliða, — það hefur komið fyrir áður að þjóðir færðu út einhliða, og síst skulum við fordæma það. En ef umr. yrðu á formlegan hátt tilkynntar og hafnar opinberlega um fiskveiðar og hagnýtingu á auðlindum hafsins á þessu svæði, sem er við núverandi aðstæður opið haf, þá er alveg öruggt að á stundinni mundu koma fram óskir eða jafnvel kröfur frá fleiri ríkjum um að komast þarna að. Ég hef örugga vissu fyrir því, að önnur voldug fiskveiðiríki en Ísland og Noregur fylgjast vandlega með því sem þarna er að gerast og mundu sannarlega gera kröfu til að verða aðilar að samningaumleitunum um fiskveiðar á þessu svæði. Ég held það sé tvímælalaust hagur okkar Íslendinga að draga sem fæstar aðrar þjóðir þarna inn í, vegna þess að þeir fiskstofnar, sem við höfum megináhuga á og þekkjum best á þessu svæði, eru viðkvæmir og voldugustu veiðitæki nútímans gætu breytt miklu um líf þeirra.

Ég skal ekki, þó ég hafi til að skjótast undan beinu svari bent á síðasta texta sem Hafréttarráðstefnan er með um eyjar, fara langt út í það sjónarmið. Í hafréttarsáttmálanum gildir það meginsjónarmið, að öll lönd eigi rétt á efnahagslegri lögsögu eða fiskveiðilögsögu, og síðan koma undanþágur, hverjir eigi ekki að fá þann rétt.

Eins og texti 121. gr, er í dag er undanþága aðeins ein, í 3. lið þeirrar greinar: Klettar, sem ekki geta haldið uppi eigin byggð eða efnahagslífi, skulu ekki öðlast efnahagslögsögu. Það er greinilega talað um kletta. Hins vegar er það rétt, sem hv. þm. sagði, að ýmsar þjóðir hafa gert tilraunir til þess að fá þetta rýmkað og undanskilja einnig það sem kallað er smáeyjar. Ég skal engu spá um það, hvort þeim tilraunum verður haldið áfram, það er þó líklegt, eða ef þær bera árangur, hvaða þýðingu þær hafa. Þetta mál mun skipta miklu þjóðirnar sem búa á Kyrrahafi, þar sem klasar af smáeyjum eru víða. Það getur jafnvel skipt sköpum fyrir ýmsar smáþjóðir sem þar eru nú orðnar frjálsar, og á fleiri svæðum, eins og t.d. á hafinu milli Grikklands og Tyrklands. Þetta er flókið mál og erfitt að spá um hvort á þessu verður breyting eða ekki sem mundi hafa úrslitaáhrif á það svæði sem við búum á.

Ég vil að lokum taka það fram, að Bretar halda enn þá fast við það —þeir eru ein þeirra þjóða — og berjast fyrir því að afnema undanþáguna varðandi klettana, því að þeir vilja auðvitað fá að draga landhelgi sína frá Rockall. Í tilefni af því að Alþ. vísaði till. um Rockall til ríkisstj. fyrir jólin hefur þegar borist heilmikil mótmælaorðsending frá Bretum sem ítreka hitt og þetta sem þeir hafa sagt í orðsendingum áður, og þeim hefur verið svarað í nákvæmlega sama dúr og við fyrri atvik. Við færðum út fulla 200 mílna landhelgi til suðurs án þess að taka neitt tillit til Rockall, og það er að sjálfsögðu ekki ætlun nokkurs manns að breyta því. Ef Rockall fellur endanlega undir það að fá ekki nein réttindi, þá fylgir þar með að Rockall getur ekki talist eiga neitt landgrunn — út fyrir kannske 4 eða í mesta lagi 12 mílur.

Ég vil biðja menn um að kippa sér ekki upp við það, þó að orðalag í viðtali um mál sem er hitamál í Noregi, og það er það sem norskir blaðamenn eru að fiska eftir, sé hugsanlega hægt að nússkilja. Ég læt það ekki koma mér á óvart þó að kannske ríki mismunandi pólitísk tilhneiging í þeim efnum. Það verður að ganga sinn gang. En ég dreg af hreinni samvisku fram þá fullyrðingu sem ég las upp áðan, að hvorki ég né aðrir fulltrúar Íslands hafa látið í ljós neins konar viðurkenningu.

Þær spurningar, sem mér hafa reynst erfiðastar í þessum viðtölum, sem ég hef yfirleitt reynt að forðast, hafa verið varðandi síðustu atriðin í Í. gr. reglugerðar okkar, þar sem við ákváðum að framkvæma ekki landhelgisútfærslu okkar nema að miðlínu gagnvart Grænlandi. Það er það, sem er erfiðast að komast þannig frá að það muni, þegar til alvörunnar kemur í þessum málum, ekki hafa neina raunhæfa þýðingu, en eins og ég hygg að Matthías Bjarnason hafi sagt á þeim tíma: með því afsölum við okkur engum rétti.