05.02.1979
Efri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2289 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hér er hreyft máli sem er mjög viðkvæmt fyrir Íslendinga og mikilsvert. Það er líka mikilsvert að upp rísi ekki ágreiningur milli Íslendinga um þetta mál. Ég hafði haldið þar til fyrir skömmu að Íslendingar, hvar í flokki sem þeir stæðu, væru einhuga í þessu máli, að því er varðaði réttindi Íslands á því svæði sem hér er um rætt, á svæðinu milli Íslands og Noregs, og að menn væru sammála um að taka þyrfti upp samninga við Norðmenn um þetta atriði. Það lá fyrir formleg þáltill. þegar í upphafi þings í vetur og henni var vísað til utanrmn. Ég skildi afstöðu allra nm. svo, að menn væru á einu máli um að hana yrði að afgreiða samhljóða. Það hvarflaði ekki annað að mér en orðalagi þáltill. — með þeirri mildun þess, ef svo má orða, sem fram kom í nál. þegar málinu var vísað til ríkisstj. — yrði framfylgt.

Nú skilst mér á hæstv. ráðh. að málið hafi að vísu verið rætt af hálfu ríkisstj. fyrir löngu við ýmsa fulltrúa Norðmanna og ráðamenn þeirra, en aftur á móti skilst mér á hv. fyrirspyrjanda, hv. 5. þm. Norðurl. v., að hann hafi fregnir af því, að málið hafi ekki formlega verið tekið fyrir í ríkisstj. Hlýt ég að undrast það og harma þegar um svo mikilvægt mál er að ræða, sem raunar hefur verið mikið á dagskrá, ekki síður í Noregi en hér á landi.

Það liggur nú fyrir gagnvart Íslendingum og líka Norðmönnum, að sjálfur hæstv. utanrrh. Íslands hefur gefið yfirlýsingu í norska sjónvarpinu, sem er þess eðlis að túlka má hana, svo notuð séu orð hæstv. utanrrh. sjálfs, á þann veg sem fram kom í fregnum af þessari yfirlýsingu í fjölmiðlum hér á landi. Hvort sem sú yfirlýsing hefur verið afdráttarlaus með þeim hætti, að allir skildu hana svo, eða hvort hún var þannig að túlka mætti hana svo, tel ég málið vera stóralvarlegt. Ef ég hefði vitað, þegar við afgreiddum þáltill, um samninga við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi, að hæstv. utanrrh. hefði afstöðu sem túlka mætti sem hans yfirlýsingu eins og nú hefur verið gert þá hefði ég talið nauðsynlegt að samþykkja till. óbreytta. Ég taldi rétt og ýmis rök fyrir því, að ekki væri nauðsynlegt á því stigi að hafa frumkvæði um formlegar viðræður, en eftir að slík yfirlýsing hefur komið fram af munni hæstv. utanrrh. Íslands tel ég nauðsynlegt að taka upp slíkar formlegar viðræður.

Það er ekki að efa, að fjöldi manna í Noregi telur mikinn feng í yfirlýsingu hæstv. utanrrh. Því miður er hætta á því, að yfirlýsing, sem ekki er afdráttarlaus að þessu leyti, gati spillt fyrir rétti Íslands, sérstaklega þegar til þess er litið að ríkisstj. Norðmanna er undir stöðugum þrýstingi frá mikilvægum þrýstihópum úr mikilvægum atvinnugreinum í sjávarútvegi. Það eitt gerir enn þá erfiðara fyrir ríkisstj. Norðmanna að sýna Íslendingum sanngirni, vil ég segja, þegar fyrir liggur að hæstv. utanrrh. Íslands gefur yfirlýsingu sem kann að samræmast hagsmunum einmitt þessara þrýstihópa. Nú efast ég ekki um góðan vilja hæstv. utanrrh. í þessu máli. Ég skora á hann að fara þær leiðir sem unnt er, til að leiðrétta afdráttarlaust þá yfirlýsingu sem fram hefur komið.

Hæstv. ráðh. sagði að margir mánuðir væru liðnir, — hæstv. ráðh. orðaði það ekki svo, en ég skildi það svo, — mér skildist að fljótlega eftir að ríkisstj. hefði verið mynduð hefði verið haft stöðugt samband við norska ráðamenn í þeim tilgangi að Norðmenn færðu ekki út efnahagslögsöguna við Jan Mayen án þess að ráðgast við Íslendinga. Það hefur komið fram hjá norskum ráðamönnum, að gengið væri út frá því af þeirra hálfu. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Fyrst stöðugt samband hefur verið haft við norska ráðamenn af hálfu íslensku ríkisstj. í þessum tilgangi, hefur þá verið sett fram af hálfu Íslands afdráttarlaus beiðni um það og yfirlýsing um að við göngum út frá því, að ekki verði hafist handa að þessu leyti nema með samkomulagi við Íslendinga? Mér sýnist fullt tilefni til þess, að hafi þetta ekki verið berum orðum tekið fram í viðræðum við norska ráðamenn, að fyrir liggi eindregið af Íslendinga hálfu beiðni um slíkt, krafa um slíkt. Ég vil biðja hæstv. ráðh. að skýra okkur frá því, ef slík tillaga eða krafa hefur þegar verið lögð fram af okkar hálfu. Mér er vel kunnugt að ýmsir norskir ráðamenn hafa lýst þessu yfir í viðtölum við einstaka Íslendinga, þannig að þeir persónulega ganga út frá þessu, en eftir því sem mál standa nú þarf það að vera miklu afdráttarlausara og formlegra.

Hæstv. ráðh. segir að fulltrúar Íslands hafi aldrei látið í ljós að Jan Mayen ætti rétt til efnahagslögsögu. Í sömu ræðu segir hæstv. ráðh. að hann hafi gefið yfirlýsingu sem túlka mætti svo. Þetta er ekki heldur nægilega afdráttarlaust og er nauðsynlegt að komi enn betur fram.

Hæstv. ráðh. nefndi sem þriðja atriðið í ræðu sinni, að það hefði komið fram í reglugerðinni um útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar á sínum tíma að Ísland mundi ekki framfylgja útfærslu nema að miðlínu til Jan Mayen. Um þetta atriði spyrja Norðmenn mjög. En það er auðvitað ljóst og þarf að vera ljóst gagnvart þeim, að ástæðan fyrir því, að þetta var í íslensku reglugerðinni á sínum tíma, var sú, að þessi mál voru mjög í deiglunni þá. Með þessu var ekki gefin yfirlýsing sem gildir um aldur og ævi, hvað sem liður alþjóðlegum hafréttarreglum.

Hæstv. ráðh. nefndi í fjórða lagi, að samkomulag væri þegar komið á um að auka rannsóknir á loðnustofni og loðnugöngum og er það vitanlega gott. Síðan fór hæstv. ráðh. betur út í þann þrýsting sem norska ríkisstj. verður fyrir af hálfu samtaka, fyrst og fremst Norsk fiskarlag, og að Eyvind Bolle lýsti því yfir að yrði ekki fiskveiðilögsagan við Jan Mayen færð út a.m.k. þetta ár. Þetta er vitanlega gersamlega ófullnægjandi.

Þá komu vangaveltur, eins og vel geta verið og eru vafalaust hjá einhverjum Norðmönnum, um að það kunni að vera einhver hernaðarleg sjónarmið í sambandi við hafið í kringum Jan Mayen sem valdi tregðu Norðmanna varðandi útfærslu lögsögunnar þar. Þetta eru sennilega sjónarmið sem koma t.d. fram hjá mönnum í Norsk fiskarlag. Ekki veit ég það. En ástæðan fyrir því, að þetta mál var ekki mjög á dagskrá hjá Norðmönnum fyrr í vetur, var nokkuð augljós. Það var vitanlega vegna þess að Jens Evensen, þáv. hafréttarráðh. Noregs, var algerlega upptekinn við að reyna að ná samkomulagi við Sovétmenn um svæðin á Barentshafi. Á meðan Norðmenn stóðu í því var ekki eðlilegt að þeir gæfu sér tíma til að sinna sérstaklega málunum í kringum Jan Mayen og viðræðum við Íslendinga, þjóð sem stendur allt öðruvísi að vígi í flestum málum en stórveldi eins og Sovétríkin. Þetta held ég persónulega að hafi verið ástæðan fyrir því, að Norðmenn hafa ekki þegar tekið málið um hafið í kringum Jan Mayen upp sérstaklega eða í meira mæli en verið hefur.

Hæstv. ráðh. ræddi að lokum um viss vandkvæði eða viss rök sem hann teldi e.t.v. mæla gegn því að hefja formlegar, opinberar viðræður við Norðmenn. Ég sé í fyrsta lagi ekki nauðsynina á því, að formlegar viðræður þurfi að vera opinberar. Mér hefur einmitt virst að ýmsar formlegar viðræður um mikilvæg þjóðréttarleg málefni yrðu að fara fram sem trúnaðarmál milli þeirra sem þátt tækju í þeim. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðh. hafi átt við að fram færu formlegar viðræður sem allur heimurinn vissi um að væru í gangi. En hæstv. ráðh. segir, eftir því sem mér tókst að skrifa eftir honum, að ef opinberar viðræður færu fram væri enginn vafi á því að óskir, jafnvel kröfur kæmu frá öðrum ríkjum um réttindi til veiða á sama hafsvæði. Ef hættan af því að alþjóð viti um viðræður milli Norðmanna og Íslendinga er svona mikil, hver er þá hættan af því að gefa yfirlýsingu í sjálfu norska sjónvarpinu sem túlka má sem stefnumótandi í þessum málum af hálfu utanrrh. Íslands?

Ég held að sú hætta, sem hæstv. ráðh. telur stafa af slíkum formlegum viðræðum, sé ekki fyrir hendi. Auðvitað er hverri þjóð, sem hagsmuna telur sig hafa að gæta á þessu sviði, algerlega ljóst að þessar viðræður eru sagðar vera í gangi. Það hefur komið fram opinberlega af hálfu hæstv. ráðh. á Alþingi Íslendinga. Þær þjóðir, sem telja sig eiga hagsmuna að gæta á þessu svæði, fylgjast vitanlega með því hvað gerist í þessum málum á þjóðþin um landanna.

Ég skil það á máli hæstv. ráðh., auk þess sem það liggur almennt ljóst fyrir, að það hlýtur að fela í sér vissa hættu og mikla hættu fyrir stöðu okkar í þessum málum að fram komi óljósar yfirlýsingar að þessu leyti, og það liggur fyrir gagnvart okkur að hæstv. ráðh. ætlaði sér í raun alls ekki að taka undir óskhyggju Norsk fiskarlag, heldur hefur hann, að ég held, afstöðu sem er miklu meira í samræmi við afstöðu okkar hinna. Vegna þessarar hættu tel ég brýna nauðsyn til að miklu afdráttarlausari yfirlýsing en jafnvel hér hefur komið fram af hálfu hæstv. ráðh. sé gefin og ekki aðeins hér, heldur helst á sama vettvangi og hin fyrri yfirlýsing var gefin, svo að hæstv. ráðh. geti gert Norsk fiskarlag ljóst hvað það var raunverulega sem hann átti við. Annars gæti svo farið að yfirlýsing hæstv. ráðh. kynni að verða sterkasta vopnið í höndum Norsk fiskarlag, að þessu leyti. Það væri illa farið, því að það eru fyrst og fremst sameiginlegir hagsmunir þessara þjóða sem við ætlum að semja um, en ekki hagsmunir einstakra hópa innan þeirra.

Ég er alveg að ljúka máli mínu, herra forseti, en vil, til að ítreka þá samstöðu sem þarf að vera í þessu máli, leyfa mér að lesa þá stuttu yfirlýsingu sem gefin var af hálfu hv. form. utanrmn. um þetta mál f.h. nefndarinnar þegar það var afgreitt rétt fyrir jól og því vísað til ríkisstj. Yfirlýsingin hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Upplýst hefur verið, að viðræður við norsk stjórnvöld um Jan Mayen-málið séu hafnar og verði haldið áfram. Jafnframt hefur verið kunngert, að Norðmenn muni ekki grípa til einhliða aðgerða á næstunni. N. leggur því til að till. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess að samningaumleitunum verði haldið áfram og leitast verði við að koma í veg fyrir árekstra við Norðmenn.“