05.02.1979
Efri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég leyfði mér að kveðja mér hljóðs til þess að mæla gegn því frv. sem hæstv. iðnrh. var að mæla fyrir.

Ég er í fyrsta lagi andvíg þeirri hugsun sem að baki þessu frv. liggur almennt, þ.e.a.s. þeirri hugsun að landshluti eða byggðarlag, sem býr af einhverjum ástæðum við hagstæðari eða ódýrari þjónustu en annað, sé skyldugt að hækka verð á þjónustu sinni til þess að borga hana niður fyrir hitt byggðarlagið. Þessu sjónarmiði er ég almennt talað andvíg. Sá aðili, sem rekur hagkvæmt fyrirtæki, á að njóta þess sjálfur, en ekki af þeim sökum að greiða kostnað sem verður af því að fyrirtæki annars aðila er hugsanlega ekki rekið með hagkvæmum hætti eða er af öðrum ástæðum dýrt í rekstri.

Hæstv. ráðh. las í ræðu sinni tilvitnun, að ég held, úr bréfi Rafmagnsveitna ríkisins sem rökstuðning fyrir frv. Sá rökstuðningur var á þá leið, að verðmunur á nauðþurftum eins og raforku á mismunandi stöðum á landinu væri með öllu óviðunandi. Ég leyfi mér að spyrja: Hvað þá um verðmun á nauðþurftum eins og húsnæði? Er það ekki svo, að húsnæði sé afskaplega mismunandi dýrt á ýmsum stöðum á landinu? Ég veit ekki betur en húsnæði í Reykjavík sé dýrast. (StJ: Það er ekki rétt. Það er dýrara úti á landi.) Það kann að vera einhvers staðar úti á landi.

Ég hef nýlega haft spurnir af því, að ungt fólk, sem var að leita sér að húsnæði til kaups, ætlar að kaupa sér húsnæði, komst að því að það var miklu ódýrara að kaupa sér húsnæði annars staðar en í Reykjavíik. Nú vildi þetta fólk heldur búa í Reykjavík og þess vegna tók það á sig þann aukakostnað. Þannig er þetta á ýmsum sviðum. Ætli það þætti ekki nokkuð ósanngjarnt ef við Reykvíkingar óskuðum þess, að lagður væri skattur á alla notendur húsnæðis í landinu, þ.e.a.s. alla íbúa landsins, þannig að það yrði tekin upp verðjöfnun á húsnæði og þar með lækkaður húsnæðiskostnaður Reykvíkinga? Ég er ansi hrædd um það. Það eru ósköp svipaðar grundvallarröksemdir á bak við þetta tvennt. Ef það er óeðlilegt almennt séð að verðmunur sé á nauðþurftum, þá á það líklegast við um húsnæði líka. Ég tel að slíkir hlutir hljóti að ráðast af ýmsu.

Það kom einnig fram í sömu röksemdafærslu sem hæstv. ráðh. flutti, að ólíkar byggðalegar og landfræðilegar aðstæður væru þess oft valdandi, að t.d. raforkuöflun eða flutningur á rafmagni væri dýrari á einum stað en öðrum. Það er ósköp eðlilegt. Margháttaðar aðstæður valda því, að einn hlutur verður dýrari á tilteknum stað, en á sama stað getur annar hlutur orðið ódýrari vegna hinna byggðalegu og landfræðilegu aðstæðna.

Ef litið er burt frá þessum almennu bollaleggingum, þá er ég einnig andvíg þeim rökum sem færð eru fyrir þessu frv. sérstaklega og má segja að séu að mati ýmissa bæði takmörkuð og e.t.v. nokkuð tímabundin. Það eru þau rök sem færð eru fyrir því, að hækka þurfi verðjöfnunargjald á raforku til þess að mæta fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins. Ég vil láta í ljós þá skoðun, að verði raforkuverð í Reykjavík hækkað á það að ganga til þess að leysa vandkvæði Rafmagnsveitu Reykjavíkur, þess fyrirtækis sem hefur orðið fyrir miklum búsifjum vegna þess að því hefur verið neitað um heimild til að selja rafmagn við því verði að það geti staðið undir ýmiss konar kostnaði sem nauðsynlegur er. Af þessum sökum hefur Rafmagnsveita Reykjavíkur orðið að taka dýr lán erlendis og hefur orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Undir þessum kringumstæðum er það enn fráleitara að t.d. kaupendur rafmagns frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur beri hækkuð gjöld til þess að greiða niður kostnað af rekstri Orkubús Vestfjarða.

Ég bið hæstv. forseta forláts á því að ég tala með þessum hætti um Orkubú Vestfjarða. Ég veit að sá búskapur er mikið áhugamál hæstv. forseta. En það kemur stundum fyrir, að Reykvíkingar taki kjördæmisafstöðu, og ég verð að játa að í þessu tilfelli er ég ekki sammála hæstv. forseta og ýmsum þeim sem telja að notendur rafmagns víðs vegar á landinu eigi að greiða þann kostnað sem af þeim búskap hlýst.

Það vekur athygli, að hæstv. ríkisstj. sér ekki minnstu ástæðu til að sinna bæði eindregnum mótmælum borgarráðs Reykjavíkur vegna Rafmagnsveitu Reykjavíkur og mótmælum Sambands ísl. rafveitna, sem fram komu fyrir jól. Af þessum ástæðum sá Samband ísl. rafveitna sig til knúið að gera samþykkt á stjórnarfundi 16. jan. s.l. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn SÍR mótmælir enn á ný framlengingu svonefnds verðjöfnunargjalds á raforku og ekki síst fyrirhugaðri hækkun þess úr 13% í 19%. Stjórnin telur að leysa beri fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins á annan hátt, m.a. með beinum framlögum úr ríkissjóði, svo sem stjórn RARIK hefur þegar lagt til við iðnrn. Stjórn SÍR bendir á að mörg raforkufyrirtæki önnur en RARIK eiga við fjárhagsvanda að etja.“

Síðan er bætt við að tveir fulltrúar, þeir Kristján Jónsson og Hafsteinn Davíðsson, taki fram, að þeir treysti sér þó ekki til þess að mótmæla gjaldi þessu meðan ekki komi til aðrar lausnir á fjárhagsvanda RARIK og Orkubús Vestfjarða. Undir skrifar stjórn Sambands ísl. rafveitna: Aðalsteinn Guðjohnsen rafmagnsstjóri í Reykjavík, formaður, Eiríkur Briem framkvæmdastjóri Landsvirkjunar, varaformaður, Adolf Ásgrímsson rafveitustjóri Rafveitu Akraness, Garðar Sigurjónsson rafveitustjóri Rafveitu Vestmannaeyja, Hafsteinn Davíðsson svæðisstjóri Orkubús Vestfjarða, Knútur Otterstedt rafveitustjóri Rafveitu Akureyrar og framkvæmdastjóri Laxárvirkjunar, Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri ríkisins, Óskar Eggertsson framkvæmdastjóri Andakílsárvirkjunar, varamaður.

Þessi ályktun hefur verið send alþm. og ég vona að einhverjir — og nægilega margir — hv. alþm. í Ed. taki tillit til þessara ábendinga og taki að sér að stöðva þetta frv. hæstv. ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. kemur nægilega mörgum málum fram samt með ykkar góðu aðstoð, hv. þm. Ég tel að það væri velgerningur við hin ýmsu byggðarlög, sem menn eru fulltrúar fyrir, ef þetta frv. yrði fellt og fengi þar með viðeigandi afgreiðslu og formlega af hálfu hv. Alþingis.

Ég vil leyfa mér, hæstv. forseti, þó að sum þau atriði, sem ég vitna til, hafi þegar komið fram í Nd. og það margsinnis, að láta þau koma fram í þessari d. Ég tel að þó að þessi hv. d. sé smærri sé hún ekki síðri að gæðum og eigi þess vegna ekki síður skilið að henni séu lesin jafnmerk skjöl og borist hafa í sambandi við þetta furðulega mál. Ég leyfi mér að lesa skjal frá borgarráði Reykjavíkur, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Borgarráð Reykjavíkur mótmælir þeim fyrirætlunum, sem felast í frv. er nú hefur verið lagt fram á Alþ., að hækka verðjöfnunargjald á raforku úr 13% í 19%. Í því sambandi bendir borgarráð á að Rafmagnsveita Reykjavíkur á við fjárhagsvanda að stríða, þar sem stjórnvöld hafa undanfarin ár ekki leyft umbeðnar hækkanir á rafmagnsverði í Reykjavík. Af þeim sökum hefur Rafmagnsveita Reykjavíkur neyðst til þess að taka erlend lán sem íþyngja nú rekstri fyrirtækisins. Sú fyrirætlan að leggja nú á aukið verðjöfnunargjald þýðir 300 millj. kr. aukagjald á notendur Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Borgarráð óskar því eindregið eftir því, að mál þetta verði tekið til endurskoðunar og athugunar að nýju.“

Svo mörg voru þau orð og verður varla hægt að hugsa sér mildari og prúðari mótmæli en þessi. Borgarráð sjálfrar höfuðborgarinnar óskar eftir því að málið verði tekið til endurskoðunar og athugunar að nýju.

Ég leyfi mér sem þm. þessarar sömu borgar að taka undir þessa ósk um endurskoðun og athugun og jafnframt að mótmæla frv. eindregið.