05.02.1979
Neðri deild: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

69. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs undir umr. um þetta mál á síðasta fundi þessarar hv. d. Frv. fjallar um breytt fyrirkomulag útflutningsbóta á þá lund, að útflutningsbótarétturinn greinist á milli sauðfjárafurða annars vegar og nautgripaafurða hins vegar og fari smálækkandi á 5 árum, úr allt að 20% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða á fyrsta ári niður í 12% á sauðfjárafurðir og niður í 8% á nautgripaafurðir. Frv. þetta er að mestu leyti shlj. frv. sem hv. 1. flm. þess, Sighvatur Björgvinsson, flutti á síðasta Alþ., en varð þá eigi útrætt. Ég gerði þá allmiklar athugasemdir við frv. og get vísað til þeirra umr. að verulegu leyti.

Nú vil ég taka það fram, að í sjálfu sér er núverandi fyrirkomulag á útflutningsbótakerfinu þess háttar, að vel er hægt að hugsa sér þar á einhverja breytingu, og á meðal þeirra breytinga, sem hægt er að hugsa sér, er að útflutningsbótaréttinum verði skipt á milli þessara tveggja höfuðgreina landbúnaðarframleiðslunnar. Þetta er þó ekki aðalatriði frv., heldur er hitt aðalatriði þess, að draga saman útflutningsbótaréttinn og draga þannig úr þeirri tryggingu sem bændastéttin hefur til þess að ná tekjum sínum. Útflutningsbótarétturinn hefur oft dugað til þess að unnt væri að greiða fullt verð, en nú er svo komið að það er hvergi nærri að þessi trygging dugi til þess, eins og öllum mun kunnugt.

Þetta er meginefni frv., alveg eins og þess frv. sem flutt var á síðasta þingi, að draga úr útflutningsbótaréttinum, draga saman þá tryggingu, sem ríkisvaldið veitir til þess að tryggja kjör bænda, og þá væntanlega um leið að vinna að minnkun framleiðslu í landbúnaði.

Ég skal ekki gera margar athugasemdir við ræðu hv. 1. flm., en þar var því ástandi, sem við er að etja, lýst sumpart með réttum hætti, þar sem er um stórkostlegt vandamál að ræða, en sumt var í þeirri ræðu sem ég get ekki fallist á, en ég skal láta liggja á milli hluta að þessu sinni. Kemur glöggt fram í grg. frv. hvert það stefnir, og vil ég aðeins víkja að því sem þar kemur fram.

Þar er sagt að flm. sé ljóst að hér sé um að ræða talsvert stórt skref í átt til eðlilegrar skipunar á þessum málum, að draga úr þeirri tryggingu sem bændastéttin hefur í sínum kjaramálum. Það er kunnugt, að bændastéttin býr við lakari kjör en aðrar stéttir, og sá samdráttur útflutningsbóta, sem frv. gerir ráð fyrir, mundi auðvitað enn rýra kjör þessarar stéttar, ef ekki kæmi annað til.

Sagt er í grg. frv., að frv. mundi hafa í för með sér að greiðslur vegna verðábyrgðar verðlagsárið 1976–1977, sem sagt s.l. verðlagsár, mundu hafa lækkað um röskan 1 milljarð kr. frá því sem nú er, ef ekkert annað kæmi til. Þetta annað, sem kemur til, er það, að þessi breyting á að gerast á 5 árum, en ekki í einni svipan. Það er sem sagt augljóst hver aðaltilgangur þessa frv. er, þ.e. að draga úr þessari útflutningstryggingu og væntanlega vinna þannig að því að draga saman landbúnaðarframleiðsluna í landinu.

Það er sagt að flm. vilji benda á að í þessu felist ekki endanleg lausn þessara mála, heldur aðeins lausn um takmarkaðan tíma, til þess fallin að snúa af rangri braut yfir til réttari áttar, og enn fremur, að takmarkið sé auðvitað að landbúnaðarframleiðslan sé ávallt og fyrst og fremst í samræmi við innanlandsmarkaðsþarfir hvað varðar magn, gæði, fjölbreytni o.s.frv. Tilgangur frv. er sem sagt ljós og þarf raunar ekki að útlista það frekar, þ.e. að draga saman framleiðsluna, draga úr verðtryggingu bænda fyrir útfluttar landbúnaðarvörur og koma framleiðslumálum landbúnaðarins í það horf, að framleiðslan miðist við innanlandsþarfir og ekkert þurfi að flytja út.

Nú er það spurning, sem ekki hefur verið svarað, hvort þetta sé rétt eða hagkvæmt. Er hagkvæmt að landbúnaðarframleiðslan sé dregin það saman að hún miðist einungis við innanlandsþarfir? Þeirri spurningu hefur hvergi verið svarað svo að mark sé í raun og veru á takandi. Þess vegna held ég að það sé mjög nauðsynlegt að fá hlutlægt mat á því, hvert sé þjóðhagslegt gildi þessarar svokölluðu umframframleiðslu.

Nú eru landbúnaðarmál mjög á dagskrá og margir bændur, starfsmenn bændasamtaka og stjórnmálamenn hafa látið til sín heyra um landbúnaðarmálin og er það vel. Í blaðagreinum hafa komið fram ýmsar merkilegar og athyglisverðar hugleiðingar í þessu sambandi, og mig langar til að vitna hér örlítið í eina grein, sem birtist í Morgunblaðinu 1. febr. s.l., eins konar varnargrein fyrir útflutningsbæturnar. Grein þessi er eftir Jóhannes Torfason á Torfalæk í Austur-Húnavatnssýslu og ber yfirskriftina: „Gjaldið“. Í greininni segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef stefna skal að því að framleiða mjólk og kindakjöt aðeins til innanlandsneyslu, blasir við að fækka þarf bændum um ca. 2 þús. stk. Er þá miðað við að meðalbúið stækki ekki frá því sem nú er.“

Það, sem hér er sagt, á væntanlega við það, að þeir bændur, sem mundu hætta sinni framleiðslu séu með nokkru minni framleiðslu heldur en meðalbúin eru í landinu, sem sé að smábændurnir mundu fremur hætta heldur en stærri bændurnir.

Þá segir enn í þessari grein, með leyfi forseta: „Þessum bændum fylgja væntanlega 1600–1800 húsfreyjur og einnig 1000–2000 unglingar og lausafólk eldra en 16 ára, auk barna og gamalmenna.

Eru þá rúmlega 5000 manns sem missa atvinnu sína í sveitum. Hvert bóndastarf skapar 2–3 störf í öðrum atvinnugreinum. Þá má nefna verslun og viðskipti með rekstrar- og fjárfestingarvörur, starfsemi vinnslustöðva og fullvinnsluiðnað, flutninga o.fl., o.fl. Þarna gætu því glatast a.m.k. 4000 atvinnutækifæri vegna þeirra 2000 bænda sem hætta þyrftu búskap. Þyrfti því að sjá a.m.k. 8000–9000 manns fyrir atvinnu við aðra og arðbærari framleiðslu. Þá ber að hafa í huga að afskrifa þarf alla þá fjárfestingu sem bundin er í ræktun, byggingum og vélum, bæði í sveitum svo og á vinnslustöðvum, þar sem niðurskurðurinn yrði. Auk þess er vafasamt að það íbúðarhúsnæði, sem þetta fólk býr nú í, nýtist áfram.

Til að nefna dæmi um 2000 bænda fækkun má geta þess, að á svæði, sem spannar yfir Strandasýslu og til og með Norður-Þingeyjarsýslu, búa nálega 2000 bændur. Þetta dæmi skyldu leiðtogar launþegasamtaka gaumgæfa rækilega og hve margir launþegar hafa sitt framfæri á offramleiðslu búvara. Vart verður því trúað að atvinnuleysi sé mesta náð og gæfa skjólstæðinga þeirra.

Þá má efast um hæfni annarra atvinnugreina til að taka á móti öllu þessu fólki (8000–9000 manns a.m.k.) á örfáum árum, til viðbótar eðlilegri fjölgun sem þegar virðist ærinn vandi að leysa. Einnig er til efs að Ísland verði byggilegra með slíkum niðurskurði.“

Enn segir í þessari grein, með leyfi hæstv. forseta: „Útflutningsbætur eru því „gjaldið“ sem greiða þarf til að allt þetta fólk hafi fulla atvinnu og byggð haldist.“

Ef útflutningsbætur væru stórlega skertar, hvað þá ef framleiðslumálum bænda væri komið í það horf, að framleiðslan miðist einungis við innanlandsþarfir, þá væri komið svo að kannske allt að 2000 bændur mundu hætta búskap og heil byggðarlög legðust í auðn. Þetta er vert að athuga þegar menn tala í þessum tón á þá lund, að það, sem þeir kalla umframframleiðslu í landbúnaði, sé til óþurftar og þurfi að koma, eins og orðað er í grg. með þessu frv., eðlilegri og bættri skipan á þessi mál með það fyrir augum að landbúnaðarframleiðslan sé einvörðungu við hæfi innanlandsmarkaðar.

Hér kemur auðvitað miklu fleira til og er hin mesta nauðsyn, eins og ég hef þegar getið um, að fá hlutlægt mat á hvert er þjóðhagslegt gildi þessarar framleiðslu.

Í grein Jóhannesar á Torfalæk segir enn, með leyfi hæstv. forseta:

„Augljóst er að ríkissjóður leggur ekki fé til útflutningsbóta án þess að fá neitt á móti.

Í fyrsta lagi eru það toll- og skattatekjur af þeim vörum sem fást fyrir þann gjaldeyri sem útfluttar landbúnaðarafurðir skila.

Í öðru lagi eru tollar og skattar af rekstrarvörum sem snerta framleiðslu, úrvinnslu og fullvinnslu landbúnaðarafurða, sem eru umfram neysluþörfina.

Þá er að nefna toll- og skattatekjur sem sá gjaldeyrir skapar sem kemur fyrir þann hluta útfluttra iðnaðarvara sem unninn er úr hráefni er til fellur vegna kindakjötsframleiðslu umfram neyslu. Gæti þetta svarað til iðnaðarvara úr um 400 000 gærum og tilsvarandi af ull. Nefna má, að 60–70% útfluttra iðnaðarvara (án áls) eru úr hráefni frá landbúnaði.

Þá eru í fjórða lagi skattar og opinber gjöld þeirra launþega og þess atvinnurekstrar sem byggir á meðhöndlun offramleiðslunnar, sem væntanlega rýrnuðu verulega ef hún fellur burt.

Nokkuð erfitt er að meta þessar tekjur ríkissjóðs, en þær skipta örugglega milljörðum. Því er víst að raunveruleg útgjöld ríkissjóðs vegna útflutningsbóta eru ekki eins mikil og sýnist. Eflaust er líka auðveldara að afla tekna til þeirra en að útvega 8000–9000 manns atvinnu og jafnvel húsnæði, þótt ónotuð og yfirgefin fjárfesting lægi óbætt hjá garði. Útflutningsbótunum var í upphafi ætlað að jafna út árstíða- og árferðissveiflur í landbúnaðarframleiðslunni, tryggja þannig framleiðendum fullt afurðaverð og neytendum ávallt nægilegt framboð neysluvara. Í því sambandi má minna á taugatitring fjölmiðla þegar landið varð nær smjörlaust á vordögum 1976.

Útflutningsbæturnar hafa einnig áhrif til að tryggja atvinnu, ekki aðeins bændum, heldur fjölmörgum öðrum. Þær stuðla að framgangi byggðastefnu og betri nýtingu fjárfestingar og vinnuafls, bæði í landbúnaði og öðrum atvinnugreinum. Þó er þetta ekki aðalmarkmið þeirra og á ekki að vera.“

Í þessari grein Jóhannesar á Torfalæk og auðvitað hugleiðingum ýmissa manna, sem um þessa hluti hugsa, kemur glöggt fram að það kynni að skapast gífurleg þjóðfélagsleg röskun, stórkostlegur missir atvinnu fyrir fjölda fólks, ekki einasta sveitafólks, heldur þess fólks sem vinnur að þjónustu og úrvinnslu og alls konar störfum tengdum landbúnaðarframleiðslunni, ef hún drægist saman svo að hún miðaðist við innanlandsþarfir.

Minna má á að kindakjötsframleiðslan eða sauðfjárafurðir eru nú um 30–35% umfram innanlandsþarfir og nautgripaframleiðslan um 24% umfram innanlandsþarfir, og ef þessari framleiðslu væri kippt burt væri stórt skarð eftir fyrir það fólk sem að þessu starfar. Þegar gerðar eru tillögur um að stefna í þá átt, þá þarf jafnframt að færa sönnur á að unnt sé að skapa þessu fólki lífsviðurværi og afkomu á þann hátt, að það hafi a.m.k. sambærilega tryggingu fyrir afkomu sinni eins og er við núverandi ástand, og jafnframt hitt, að það verði þá ekki enn þá dýrara fyrir þjóðfélagið, fyrir þjóðfélagsheildina, heldur en að viðhalda þeirri byggð og þeirri framleiðslu sem fæst með þessu móti eins og nú standa sakir. Þetta haggar ekki því, að við mikil vandamál er að etja í landbúnaðarframleiðslunni. Það haggar ekki því. Og birgðasöfnun, eins og orðið hefur í smjörframleiðslunni, leiðir yfir okkur stórkostlega hættu og við slíkri birgðasöfnun þarf í raun og veru að reisa skorður.

Ég vildi vekja á þessu athygli í sambandi við frv. sem hér liggur fyrir, og ég vænti þess, að flm. þessa frv. leiði hugann að því, með hvaða hætti þeir ætli að sjá fyrir því, að fólki, sem missir viðurværi sitt við samdrátt landbúnaðarframleiðslunnar, verði bættur sá missir. Enn fremur legg ég á það áherslu, og ég hafði þegar fyrir jól óskað eftir því við starfsmenn Framleiðsluráðs landbúnaðarins og ítrekaði þá ósk mína í janúar, að þeir gerðu útreikninga á því, hvert væri þjóðhagslegt gildi svokallaðrar umframframleiðslu í landbúnaðinum. Ég hef engar niðurstöður fengið og ekki fengið nein svör frá þessum ágætu mönnum enn þá og þykir mér það mikið miður, en þetta er spurning sem þarf að svara og meta hlutlægt hvert er þjóðhagslegt gildi þessarar framleiðslu og ef þessi framleiðsla fellur niður, hver verður þá kostnaður þjóðfélagsins við að byggja upp atvinnu, byggja upp íbúðarhúsnæði og aðstöðu, þjónustu fyrir það fólk sem hverfur úr þessum framleiðslugreinum og verður með einhverjum hætti að fá lífsviðurværi á annan hátt.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að ég lengi umr. um þetta. Ég vísa til þess er ég sagði um mjög sambærilegt frv. á síðasta Alþ., þar sem ég mælti gegn því frv. Ég get enn lýst því yfir, að ég er andvígur þessu frv. Enda þótt hægt sé að hugsa sér einhverjar breytingar á núverandi útflutningsbótakerfi, þá tek ég ekki undir það með nokkrum hætti að skerða þessa tryggingu bændastéttarinnar og þess fólks, sem að landbúnaðarframleiðslunni starfar, án þess að sýnt sé fram á með gildum rökum, að meginhluti þessarar framleiðslu sé óhagstæður, og sýnt fram á að það sé þjóðfélaginu hagstæðara að veita þessu fólki aðstöðu og lífsframfæri annars staðar. Þess vegna lýsi ég yfir andstöðu við þetta frv. Ég vænti þess auðvitað að því verði vísað með þinglegum hætti til landbn. þrátt fyrir óskir hv. 1. flm. Þetta er landbúnaðarmál, enda þótt það snerti auðvitað einnig fjármál. Frv. um breyt. á framleiðsluráðslögum eða um Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur ævinlega verið vísað til hv. landbn., og ég set hér fram, herra forseti, óskir um að svo verði einnig um þetta frv., og ég vænti þess, að sú hv. n. s jái til þess að það fái þinglega meðferð.