05.02.1979
Neðri deild: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

69. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér þótti miður að geta ekki verið viðstaddur er framsaga var flutt fyrir þessu máli. Ég ætla ekki að hafa mál mitt langt um þetta frv. og get reyndar í fjölmörgum atriðum tekið undir það sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni.

Með þessu frv. er stefnt að tvennu: Í fyrsta lagi að draga mjög verulega úr útflutningsbótum eða verðtryggingu sem veitt er með útflutningsbótum til landbúnaðarframleiðenda. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að kljúfa þetta sundur í tvennt, þ.e.a.s. fjalla sérstaklega um sauðfjárafurðir og sérstaklega um nautgripaafurðir. Um þetta hvort tveggja mætti vitanlega flytja langt mál. Ég ætla ekki hér og nú að segja að ekki komi til greina að fara þessa leið. Hins vegar er alveg ljóst, að þetta mál er svo víðtækt og kemur svo víða við í okkar þjóðarbúskap, að það verður alls ekki afgreitt með einu frv. sem þessu. Þetta verður að vera liður í stefnumörkun á sviði landbúnaðarins til nokkurra ára og miklu fjölþættari en fram kemur í þessu frv.

Ég þarf ekki að rekja fyrir hv. þm. hvernig útflutningsbætur hafa til orðið. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að útflutningsbætur í landbúnaði eru tekjutrygging sem Alþingi hefur heitið bændum. Ég vek athygli á því, að í 12. gr. laga um Framleiðsluráð landbúnaðarins er beinlínis sagt, að nái bændur ekki viðmiðunarverði fyrir útfluttar afurðir sínar megi þeir ekki ná tekjum sínum með hækkun á afurðum innanlands, en í staðinn komi þessi trygging af hendi ríkissjóðs, allt að 10% af heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða. Þetta er því beinlínis þáttur í viðleitni ríkisins að tryggja bændum það sem segir í fyrri greinum og í upphafi framleiðsluráðslaganna, að bændur skuli hafa svipaðar tekjur og svokallaðar viðmiðunarstéttir. M.a. af þessari ástæðu er þetta má( ákaflega viðkvæmt og hlýtur að falla inn í þá heildarstefnumörkun í landbúnaði sem að er unnið og er mjög nauðsynleg.

Ég held einnig, að áður en ákveðið er að kljúfa svo í sundur þessa tryggingu eins og gert er ráð fyrir í frv. þurfi að skoða mjög vandlega þátt bæði sauðfjárræktar og nautgriparæktar í þjóðarbúskapnum í heild. Á þetta lagði síðasti ræðumaður mikla áherslu og get ég tekið undir það og ég get jafnframt upplýst að að þessu er unnið. Hins vegar er það alls ekki að öllu leyti einfalt mál, en ýmsar tölur, sem hann m.a. færði fram, gefa mjög ljóslega til kynna hve þáttur sauðfjárræktar er mikill í þjóðarframleiðslunni. Sá iðnaður, sem á sauðfjárrækt byggir, þ.e. ullariðnaður og skinnaiðnaður, er sá mikilvægasti af innlendum iðngreinum og er sú iðngrein sem virðist hafa einna mesta vaxtarmöguleika. Það er ekki lítil verðmætaaukning sem verður á t.d. skinninu frá því að það fer frá bóndanum og þar til það er orðið að mokkaskinni eða saumað í pels. Og að sjálfsögðu eykst mikilvægi þessarar framleiðslu eftir því sem okkur tekst að gera verðmætari vöru úr meiri hluta hennar. Að þessu er markvisst unnið, m.a. af þeirri ástæðu sem ég nefndi áðan, að þarna virðist vera einn sá traustasti grundvöllur sem við byggjum á í iðnaði landsmanna nú. Ég nefni þetta m.a. til að sýna að þetta dæmi er alls ekki einfalt. Það er langt frá því, að einfalt sé að meta hve mikill þáttur sauðfjárræktin er í þjóðarframleiðslunni, en tvímælalaust er hann mjög mikill.

Ég vil svo segja það, að í þessu frv. koma fram ýmsar upplýsingar í grg. sem margar hverjar eru réttar, en sumar kannske ekki eins. M.a. vil ég gera aths. við þann samanburð sem gerður er í Töflu II á grundvelli framfærsluvísitölu. Ég held að sá samanburður á útflutningsbótum sé ákaflega vafasamur, því að framfærsluvísitalan er t.d. háð niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum, svo að þetta er gagnverkandi. Ég held að skynsamlegra væri að gera t.d. samanburð á útflutningsbótum sem hundraðshluta af ríkisreikningi. Þar kemur allt annað í ljós. Ef við gerum slíkan samanburð frá 1960–1974, sem ég hef undir höndum, kemur í ljós að útflutningsbætur hafa farið minnkandi frá 27% 1960 niður í 11% 1974 og hafa reyndar aldrei komist niður í 10%. Ég held að sannarlega megi varpa fram þeirri spurningu sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, hvort þarna sé um of mikla tryggingu eða útgjöld ríkissjóðs að ræða, ef lítið er jafnframt á mikilvægi sauðfjárframleiðslunnar sérstaklega fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Ég efast um að svo sé og tel að það dæmi þurfi að skoða miklu betur en gert hefur verið, eins og ég sagði áðan. Hitt er svo ljóst, að umframframleiðslan, eins og hún er orðin nú, er orðin mjög mikil og allt of mikil og því ber, eins og reyndar er samstaða um innan stjórnarflokkanna, að stefna að því að draga úr þeirri umframframleiðslu og takmarka sem mest við innanlandsþarfir.

Að því er nú unnið að marka slíka stefnu og mun verða lögð fyrir Alþ. innan skamms tíma till. til þál. um stefnumörkun í landbúnaði, þar sem farið verður fram á að Alþ. ákveði þau stefnumið sem byggja á á, þannig að unnt verði að vinna að langtímaáætlanagerð í samræmi við þau. Einnig verður í þessari till. farið fram á að Alþ. ákveði hvaða leiðir beri að fara að settum markmiðum. Eitt af þessum markmiðum verður að tryggja bændum tekjur sem eru sambærilegar við það sem aðrar stéttir í þjóðfélaginu hafa og hef ég engan heyrt andmæla því. Spurningin er hins vegar sú, hvaða leiðir má fara að þessu marki, m.a. í þeim beinu samningum ríkisvaldsins og bænda sem ákveðið er að upp verði teknir eða verður lagt til og fram er sett í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, enda í samræmi við óskir bænda sjálfra.

Ég skal engu slá föstu um það hér, hvort útflutningsbætur eiga, þegar slíkir beinir samningar hafa verið teknir upp, að vera fastbundnar við 10%. En hinu vil ég slá föstu sem skoðun minni, að tvímælalaust eiga verðbætur á útflutning að koma til greina í þeirri meðferð sem þá verður á milli bænda og ríkisvalds. Þarna verður tvímælalaust bæði að líta á verðlag innanlands, ýmsa aðstoð sem landbúnaðinum kann að verða veitt á frumstigi, eins og t.d. styrki til jarðræktar o.fl., og verðlag á útflutningi m.a. þá með verðtryggingu að því marki sem um semst. Ýmsir fulltrúar bænda hafa lagt á það áherslu, að ekki megi sleppa þeirri tryggingu sem felst í þessum 10% verðbótum — útflutningsbótum. Ég held að menn verði að skoða það í breiðara samhengi, m.a. með tilliti til þeirrar verðmætasköpunar sem hér hefur verið nefnd og byggist á framleiðslu landbúnaðarins. Mér sýnist alls ekki útilokað að hagkvæmt geti talist fyrir þjóðarbúið í heild að verðbæta jafnvel meira en þar er ráð fyrir gert og ráð fyrir gert í þessu frv. ákveðna landbúnaðarframleiðslu, sem þá að einhverju leyti stendur undir slíkri verðmætasköpun og atvinnuaukningu innanlands.

Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta mál, en stend fyrst og fremst upp til að leggja áherslu á að þetta mál er fjölþætt og það væri að mínu mati mikill skaði skeður ef slík ákvörðun yrði tekin sem gert er ráð fyrir í þessu frv. án þess að tengja það þeirri almennu langtímastefnumörkun á sviði landbúnaðarins sem ég hef talað um. Þetta verður að athuga á miklu breiðari grundvelli en hér er gert ráð fyrir. Ég hef jafnframt lagt áherslu á að slík stefnumörkun er nú í undirbúningi og mun koma fyrir þingið innan stutts tíma, og því er það von mín, að um þetta mál verði fjallað í tengslum við það og þær ákvarðanir sem þar verða teknar. Ég get því ekki lýst stuðningi mínum við þetta frv. eins og fyrir liggur.