26.10.1978
Sameinað þing: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

5. mál, iðngarðar

Flm. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 5. þm. Suðurl. að flytja till. til þál. um iðngarða.

Á nýloknu iðnkynningarári, þar sem menn voru mjög hvattir til þess að kaupa íslenskar vörur og efla þannig íslenskan iðnað, sem vissulega hefur haft áhrif, var einnig mjög rætt um hvað verða mætti að öðru leyti til þess að styrkja iðnaðinn. En allir eru sammála um að hann hlýtur að taka við meginhluta þess fólks sem bætist á vinnumarkað ef vel á að fara.

Eitt þeirra atriða, sem þá var rætt um, var það mál sem till. þessi fjallar um, þ.e. bygging iðnaðarhúsnæðis. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu bygging húsnæðis er stór hluti af stofnkostnaði fyrirtækja. Það að sveitarfélög ásamt einstaklingum og félögum með stuðningi ríkis byggi iðngarða mundi óefað mjög létta iðnfyrirtækjum byrjunarspor.

Hér er hreyft máli sem kallar á aðgerðir um land allt og getur, ef vel tekst til, orðið undirstaða stórvaxandi atvinnutækifæra um breiðar byggðir landsins.

Til þess að hægt sé að standa undir þeirri félagslegu og menningarlegu velferð, sem allir eru sammála um að efla beri og viðhalda, þarf að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið þannig að ávallt sé völ á fjölbreyttum atvinnutækifærum í þjóðfélaginu í samræmi við menntun og hæfni hvers og eins.

Það má segja, að stutt sé síðan við Íslendingar hófumst handa um uppbyggingu atvinnuveganna með nútímasniði og meginkrafturinn hefur farið í að byggja upp hina hefðbundnu atvinnuvegi, landbúnað og fiskveiðar. Í þeim atvinnuvegum liggja enn fyrir mikil verkefni til úrlausnar og síður en svo allt fullgert, enda stundum verið sótt fram meira af kappi en forsjá. Meðan þessi öra þróun í landbúnaði og sjávarútvegi hefur verið í gangi hefur vaxið upp framleiðsluiðnaður og að sjálfsögðu þjónustuiðnaður og byggingariðnaður sem að verulegu leyti hefur verið tengdur áðurnefndum frumgreinum. Sá iðnaður hefur verið meira gjaldeyrissparandi iðnaður fyrir heimamarkað heldur en útflutningsiðnaður. En sem betur fer hefur iðnaður hin síðari ár sótt á erlendan markað í vaxandi mæli, þannig að í dag er talið að í iðnaði starfi 28–29 þús. manns eða rúmlega 30% starfandi manna í landinu. Í grófum dráttum mun skipting mannaflans vera á þann veg, að 11700 manns starfi í framleiðsluiðnaði, 4900 í þjónustuiðnaði og 12000 í byggingariðnaði. Á þessum tölum sést hversu snar þáttur iðnaður er þegar orðinn í þjóðarbúskap Íslendinga.

Íslenskur iðnaður á undir högg að sækja, þar sem annars vegar er smæð hins íslenska markaðar og hins vegar öflugur iðnaður ýmissa nágrannaríkja sem stendur á gömlum merg og auk þess kröftuglega studdur leynt og ljóst af ríkisvaldi viðkomandi landa.

Þegar við stöndum andspænis því, að landbúnaður og sjávarútvegur getur ekki tekið á móti meiri mannafla svo að nokkru nemi hljóta augun að beinast til iðnaðarins. Nú þurfum við að samhæfa krafta okkar til að létta iðnaðinum erfið spor til vaxtar og eflingar.

Tillaga þessi snertir eina mikilvæga forsendu iðnþróunar, sem hægt er að segja að sé samnefnari fyrir allan iðnað, þ.e. að leita leiða til að auka framboð á hentugu iðnaðarhúsnæði með byggingu iðngarða. Hér er alls ekki um óþekkta leið að ræða, heldur hefur hún verið farin með góðum árangri víða erlendis, þar sem hið opinbera hefur reist iðngarða sem hafa haft víðtæk áhrif á iðnþróun í þessum löndum. Hér á landi hafa verið umr. um slíkar byggingar, svo sem áður kom fram, og hafa þær komist í framkvæmd hjá sumum sveitarfélögum með góðum árangri.

Það, sem fyrst og fremst liggur að baki þessari tillögu er að fyrirtækin hafi möguleika á að nýta betur takmarkað eigið fjármagn í hlutfallslega auknum mæli til fjármögnunar nauðsynlegum véla- og tækjabúnaði og til rekstrar. Þá má nefna að með samstarfi um undirbúning og teikningar og með sameiginlegu skipulagi framkvæmda og fjármögnunar má eflaust auka hagkvæmni hvað byggingarkostnað snertir, þótt jafnframt sé tekið tillit til margbreytilegra þarfa iðnaðarins fyrir húsnæði. Þá má nefna hagræðingu sem getur falist í samstarfi við ýmsa sameiginlega þjónustu vegna rekstrar, t.d. sameiginleg mötuneyti og félagslega aðstöðu starfsfólks, einnig notkun sérhæfðra véla og bókhaldsþjónustu. Þótt gert sé ráð fyrir að hér sé m.a. um leiguhúsnæði að ræða, þá á ekkert að vera því til fyrirstöðu, að fyrirtækin gætu í upphafi keypt húsnæði sem byggt væri með þessum hætti eða síðar meir gegn ákveðnum skilmálum, þegar þau hefðu fjárhagslegt bolmagn til.

Ekki er farið út í það af tillögumönnum að benda á ákveðnar fjármögnunarleiðir, svo sem hvernig hinir ýmsu sjóðir, er þegar veita lán út á iðnaðarbyggingar, mundu fjármagna byggingu iðngarða eða hver þátttaka sveitarfélaga og ríkisins að öðru leyti yrði. En að sjálfsögðu er það grundvallaratriði í væntanlegri löggjöf um iðngarða, ef samþykkt verður, að fjáröflun sé á hreinu og beinlínis að ríkisvaldið stuðli að því að svo sé.

Í þessu sambandi má benda á þátt ríkisvaldsins í endurnýjun og dreifingu togaraflotans, hvernig sú aðgerð varð til þess að efla og styrkja atvinnulífið víða um land. Gæti ekki aðstoð ríkisvaldsins við skipulega uppbyggingu iðnaðarhúsnæðis ekki aðeins í stærri byggðarlögum, heldur og á smærri stöðum, kauptúnum og í sveitum, verkað hliðstætt sem aflgjafi kröftugrar iðnþróunar sem yrði til hagsældar byggðum landsins og þjóðinni í heild.

Herra forseti. Að öðru leyti vísa ég til meðfylgjandi grg. En að lokum til marks um mikilvægi þessarar till. til þál. um iðngarða vil ég benda á að það eru bóndi og útvegsmaður sem flytja hana.

Ég legg til að till. verði vísað til atvmn.