05.02.1979
Neðri deild: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

69. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði það satt, að nauðsyn ber til að þingflokkar nái höndum saman um skynsamlegar breytingar á þeirri stefnu sem fylgt hefur verið í landbúnaðarmálum að undanförnu og leitt hefur til þess ófremdarástands sem ég held að við hv. þm. Stefán Valgeirsson hljótum að vera sammála um. Hv. þm. óskaði sérstaklega eftir samstarfi við Alþfl. í því sambandi og skal ég fúslega verða við beiðni hans um að taka málið upp á vettvangi þingflokks Alþfl.

Hv. þm. nefndi Alþb. líka. Ég svara að vísu ekki fyrir það, en mér finnst stefnumótun Alþb. í landbúnaðarmálum hafa verið næsta einföld, þannig að hún rúmist í mjög stuttu og fáorðu frv., sem gæti heitið eitthvað á þá leið: Frv. til l. um neysluskyldu almennings á landbúnaðarafurðum. Það gæti hljóðað svo:

1. gr.: Hver þjóðfélagsþegn skal éta tvöfalt meira magn landbúnaðarafurða en hann gerir nú.

2. gr.: Til þess að svo megi verða skal sérhver þjóðfélagsþegn greiða í ríkissjóð upphæð jafnháa þeirri og hann nú greiðir fyrir landbúnaðarafurðir.

3. gr.: Upphæðin nú, sem ríkissjóður fær, sbr. 2. gr., skal varið til þess að lækka verð á landbúnaðarafurðum um helming frá því sem það er nú þannig að sérhver þjóðfélagsþegn geti étið tvöfalt meira magn landbúnaðarafurða frá því sem hann gerir nú við óbreyttu verði.

4. gr.: Þar sem hér er um verulega kjarabót að ræða fyrir almenna launþega skal lækka verðbætur í kaupi sem því nemur.

5. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Þetta held ég að sé lýsingin á landbúnaðarstefnu Alþb. í hnotskurn. Hins vegar býst ég við að það verði harla erfitt fyrir Alþfl. að ná höndum saman við Alþb. um slíka stefnumörkun, og satt að segja vona ég að Framsfl. eigi ekki auðveldara með það en við. Það segir sig auðvitað sjálft, að reynslan hefur leitt í ljós, sem menn náttúrlega gátu vitað fyrir, að sú leið Alþb. að vanda landbúnaðarins væri hægt að leysa einfaldlega með því annaðhvort að lækka verð á landbúnaðarafurðum með því að leggja skatta á þjóðina sem síðan yrði varið í niðurgreiðslur, eða með því að hækka kaup til þess að fólk gæti aukið landbúnaðarvöruneyslu sína, er firra sem á ekki við nein rök að styðjast. Vandi landbúnaðarins er miklu meiri en sá, að varan sé of dýr. Um það er að ræða að framleitt er of mikið í landinu af neysluvöru, miklu meira en þjóðin getur við tekið, og þá neysluvöru þarf að flytja út fyrir tilverknað framlaga úr ríkissjóði sem munu á yfirstandandi ári nálgast 6 milljarða kr., ef svo heldur fram sem horfir.

Það sem mér finnst ánægjulegast við þá umr., sem fram hefur farið um þetta frv. á þskj. 75, er það, að svo til hver einasti ræðumaður, sem hefur komið í ræðustól til þess að fjalla um þetta frv., hefur sérstaklega tekið það fram í ræðu sinni, að brýna nauðsyn bæri til þess að breyta stefnunni í landbúnaðarmálum og að í landbúnaði væri nú mikill vandi á höndum. Þetta er í fyrsta sinn, svo langt aftur sem ég man, sem allir þm., sem um þessi mál hafa rætt, hafa beinlínis viðurkennt að offramleiðslan í landbúnaði væri mjög alvarlegt vandamál sem yrði að taka á.

Ég man eftir því, það er ekki mjög langt síðan, að við Alþfl.-menn vorum svo til einir að kveða upp úr með það, að framleiðslustefnan í landbúnaði væri orðin vandamál. Þá var því haldið fram, m.a. af sumum sem hafa talað hér, að í þessum viðvörunum okkar Alþfl.manna væri ekki fólgið neitt annað en ómakleg árás á bændastéttina, við vildum fækka í bændastéttinni, leggja heilar byggðir í eyði. Og þeir neituðu því fyrir ekki meira en 5–6 árum, hver einn og einasti sem um þessi mál talaði á Alþ., að í þessari framleiðslustefnu væri neinn vandi fólginn. Það gleðilega er, að nú koma þeir upp í ræðustól hver um annan þveran. Að vísu hafa þeir ekki fallist enn á þá stefnu sem við Alþfl.-menn höfum mælt fyrir varðandi málefni landbúnaðarins, en þeir viðurkenna hver um annan þveran að viðvaranir okkar séu réttar, að skilgreining okkar á vandanum sé rétt, að það sé ekki lengur eins og áður var haldið fram, að orð okkar Alþfl.-manna væru eingöngu sprottin af illum hvötum í garð bænda.

Þessi tíðindi eru í sjálfu sér ánægjuleg fyrir okkur Alþfl.-menn. En það er ekki ánægjulegt í þessu sambandi, hversu mikið þurfti á að ganga áður en menn sáu þetta. Það, sem á þurfti að ganga áður en menn sáu þetta og viðurkenndu, var einfaldlega að ef ekki er gripið til ráðstafana mjög fljótlega þá verður vandinn, sem framleiðslustefnan í landbúnaði hefur fætt af sér, svo þungur, ekki bara fyrir neytendur og ríkissjóð, heldur fyrir bændur sjálfa, að til landauðnar getur horft. Ég held að hver einn og einasti maður, sem um þetta mál hugsar, hafi núna einna mestar áhyggjur af því, hvaða afleiðingar sú stefna, sem fylgt hefur verið allt frá millistríðsárunum, hefur haft fyrir afkomu bændastéttarinnar og kjör þeirra. — [Frh.]