06.02.1979
Sameinað þing: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

328. mál, nafnlausar bankabækur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Mér er ekki ljóst hvernig þessi könnun hefur farið fram í öllu bankakerfinu, en ég vil taka undir það sem hv. þm. Jón Sólnes sagði áðan, en kom e.t.v. ekki nógu greinilega fram, að þarna er um að ræða t.d. alls konar félagsskap. Það t.d. kemur þarna, að allir fullnaðarprófsbekkir í landinu eru með svona bækur. Það eru saumaklúbbar, það eru ferðaklúbbar. Ég veit að þegar þessi könnun fór fram í sumum bönkunum, þá var þetta allt talið með, en ég veit ekki um það í öðrum. Síðan vil ég benda á það sem ég hef líka orðið var við, að það er töluvert af gömlu fólki sem vill ekki láta ættingja sína vita af því, að það á smáupphæðir í bankabók, vegna þess að það er hrætt um að fá ekki frið með það fyrir þeim. Ég hef hitt á einum 2–3 árum eina 6–8 sem hafa komið til mín og tjáð mér þetta. Það eru því ýmsar aðrar ástæður fyrir því, að menn hafa þetta sparifé nafnlaust, heldur en að það sé verið að leyna því í raun og veru fyrir skattyfirvöldum. Mér finnst rétt að þetta komi fram.