06.02.1979
Sameinað þing: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

333. mál, störf nefndar til að kanna framleiðslu- og þjónustustarfssemi hins opinbera

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hinn 30. mars 1977 skipaði þáv. fjmrh. n. til að meta hvort ýmissi framleiðslu- og þjónustustarfsemi, sem hið opinbera hefur með höndum, sé betur fyrir komið hjá einstaklingum eða samtökum þeirra og jafnframt hvort aðild ríkisins að atvinnustarfsemi í landinu í samkeppni við einkaaðila sé æskileg. Í n. voru skipuð Árni Vilhjálmsson, formaður, Gísli Blöndal, Guðríður Elíasdóttir, Ingi Tryggvason, Ólafur Sverrisson, Steinþór Gestsson og Víglundur Þorsteinsson. Hinn 1. sept. 1978 tók Brynjólfur Sigurðsson sæti Gísla Blöndal í nefndinni.

N. skilaði í des. 1977 skýrslu um Landssmiðju og Siglósíld. Meginniðurstaða n. um Landssmiðju er sú, að sem ríkisfyrirtæki skuli hún lögð niður og þeir fjármunir fyrirtækisins, sem ríkið kýs ekki að nota til annarrar starfsemi, verði seldir.

Um Siglósíld er meginniðurstaða n. sú, að gerðar verði ráðstafanir til þess að selja fyrirtækið, t.d. með þeim hætti, að hrein eign fyrirtækisins yrði seld aðilum sem stofnuðu félag til að kaupa og reka fyrirtækið, eða með þeim hætti, að ríkið stofnaði fyrst hlutafélag um reksturinn og seldi að því búnu meirihlutaaðilum, sem vildu standa saman að rekstrinum.

Í maímánuði s.l. skilaði n. skýrslu um Ferðaskrifstofu ríkisins og í okt. um Bifreiðaeftirlit ríkisins og Slippstöðina á Akureyri. Þessar þrjár skýrslur hafa ekki enn verið birtar opinberlega.

Skýrslur um Landssmiðjuna og Siglósíld voru sendar þm. eftir að þær höfðu verið lagðar fyrir ríkisstj. Enn fremur var skýrslunum dreift til fjölmiðla. Skýrsla um Ferðaskrifstofu ríkisins var send til fyrrv. ríkisstj., en hefur ekki verið send til þm. eða fjölmiðla. Skýrsla um Bifreiðaeftirlit ríkisins hefur verið send til núv. ríkisstj., en hefur ekki verið send til þm. eða fjölmiðla. Og seinasta skýrslan, um Slippstöðina á Akureyri, hefur ekki verið lögð fyrir ríkisstj. enn þá.

Að lokinni umfjöllun ríkisstj. verður fyrst tímabært að kynna niðurstöður skýrslnanna, sem hafa ekki verið birtar nú þegar, og viðhorf ríkisstj. til þessara mála. Almennt vil ég segja það, að ég er andvígur því að þenja ríkisbáknið meira út en þegar hefur verið gert. Þarf frekar að hagræða og draga úr kostnaði. Þessar skýrslur eru ítarlegar og n. hefur unnið ágætt verk, það eru margþættar upplýsingar sem koma fram í þessum skýrslum, þó að skoðanir kunni að vera skiptar um þær niðurstöður sem koma fram í þessum skýrslum. En ég tel nauðsynlegt að þær verði athugaðar vandlega og um þær fjallað, og væntanlega verða hv. þm. sendar mjög bráðlega þær skýrslur sem ekki hafa þegar verið sendar þeim.