06.02.1979
Sameinað þing: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

333. mál, störf nefndar til að kanna framleiðslu- og þjónustustarfssemi hins opinbera

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf við þessum fsp. mínum, svo langt sem þau náðu að sjálfsögðu, því að eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. hefur enn engin ákvörðun verið tekin um það, hvað gera skuli við þær niðurstöður sem þegar hafa fengist. Hins vegar finnst mér ástæða til þess að benda á og fagna viðhorfum hæstv. ráðh. til málsins.

Ég vek enn fremur athygli á því, að ríkisvaldið hefur í raun enga stefnu gagnvart þeim félögum sem ríkið á aðild að, annaðhvort með sameignarfélagsforminu eða þá hlutafélagsforminu. Þótt ríkisvaldið hafi þar menn í stjórn, þá virðast þeir yfirleitt ekki fá nein erindisbréf og ekki virðist vera fylgt neinni ákveðinni stefnu í þeim efnum. Ég minnist á þetta hér vegna þess að kominn er tími til þess að það sé meiri hreyfanleiki í stjórn ríkisins á eignum sínum, og kemur vissulega til greina að losað verði um þessar eignir, þær seldar einstaklingum og síðan verði fjármunirnir notaðir til þess að leggja í áhættufé til nýrra atvinnutækifæra. Nefni ég þá sérstaklega iðnaðinn, meðalstór fyrirtæki í iðnaði, þar sem mikill fjármagnsskortur er fyrir hendi.

Það er að mínu viti grundvallaratriði, að ríkið sé ekki að vasast í atvinnurekstri, ef hægt er að koma honum fyrir hjá einstaklingum og samtökum þeirra. Annars er hætta á of mikilli miðstýringu og bákni þar sem skilvirknin minnkar óðum og engin leið er til að meta raunverulegt verðmæti framleiðslunnar, hvað þá verðmæti fyrirtækjanna sjálfra. Alveg sérstaklega er það út í bláinn að ríkið sé að fást við atvinnurekstur í samkeppni við einkaaðila.

Það er afar mikilvægt í augum þeirra manna, sem vilja í raun valddreifingu, að hagvaldinu sé dreift, ákvörðunarvaldið sé hjá þeim sem best þekk ja aðstæður og verða að lifa eftir ákvörðunum. Þess vegna eru það engin rök fyrir ríkisrekstri, að fyrirtækjum í eigu ríkisins sé vel stjórnað eða þau gefi arð, þótt það sé í sjálfu sér mikilvægt atriði. Grundvallaratriðið er að þrengja verkefni ríkisins og byggja sem mest á sjálfstæðum atvinnurekstri frjálshuga og ábyrgra einstaklinga sem hafa kjark, þor og þekkingu til að takast á við ný verkefni og skapa í landinu ný atvinnutækifæri. Mér virðist koma til greina, ef um áframhaldandi störf þessarar n. verður að ræða, að benda á fyrirtæki sem gjarnan mætti taka fyrir. Þá á ég við fyrirtæki eins og Ríkisútgáfu námsbóka, Gutenberg, Síldarverksmiðjur ríkisins og Skipaútgerð ríkisins, svo að nefnd séu nokkur fyrirtæki.