06.02.1979
Sameinað þing: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

333. mál, störf nefndar til að kanna framleiðslu- og þjónustustarfssemi hins opinbera

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að leggja hér nokkur orð í belg út af því máli sem hér er til umr.

n., sem hér hefur verið talað um að skilað hafi áliti um nokkur ríkisfyrirtæki, var skipuð af fyrrv. ríkisstj., líklega á árinu 1976, og hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir þeim skýrslum sem hún hefur lagt fram og ýmist eru opinberar eða hefur verið skilað til ríkisstj. Ég vil að það komi hér mjög ákveðið fram af minni hálfu, að ég tel að störf þessarar n. hafi verið á margan hátt óeðlileg. Út af fyrir sig er það að setja á fót n. til þess að kanna tiltekna þætti í samræmi við ríkjandi viðhorf hjá þeirri ríkisstj. sem í hlut á, og ég efast ekki um að í fráfarandi ríkisstj. hafi verið býsna hátt skrifuð og ráðandi þau viðhorf sem endurspeglast í starfi þessarar nefndar, þ.e.a.s. að stefna að því að fækka sem mest ríkisfyrirtækjum. Till., sem frá n. koma, a.m.k. endurspegla þetta viðhorf. En ég tel að innan núv. ríkisstj. séu viðhorfin önnur og það sé í rauninni mjög óeðlilegt að n. af þessu tagi haldi áfram störfum nema þau málefni, sem henni er ætlað að fjalla um, séu tekin til endurmats. Ég tel mig a.m.k. mæla fyrir munn Alþb. þegar ég lýsi andstöðu minni við það, að verið sé að vinna að tillögugerð og kannske frekari undirbúningi að því að breyta eignarformi ríkisfyrirtækja sem sannað hafa á marga lund ágæti sitt, staðið sig vel og skilað hagnaði og þar sem starfsfólk er áhugasamt um málefni fyrirtækjanna. Ég tel óeðlilegt að unnið sé að slíku undir merkjum núv. ríkisstj.

Í n., sem hér um ræðir, eru ekki fulltrúar Alþb. svo að mér sé kunnugt, og það hefur ekki verið um neina endurskipulagningu á henni að ræða, enda á ég ekki von á að við hefðum áhuga á að hlúa að því að hún starfi áfram.

Það er sérstaklega athyglisvert í sambandi við störf þessarar n., sem fjallaði um fyrirtæki sem heyra undir önnur rn. en fjmrn. sem skipaði n., að hún hefur ekki séð ástæðu til þess að leita eftir viðhorfum annarra rn. Þannig hefur hún þegar skilað álitsgerðum varðandi stofnanir sem heyra undir iðnrn., svo sem um Landssmiðjuna og um Lagmetisiðjuna á Siglufirði, og mér er ekki kunnugt um, að við undirbúning þess máls hafi verið haft samráð við iðnrn. Og mér hefur verið sagt, að hæstv. fyrrv. iðnrh. hafi síður en svo verið ánægður með þau vinnubrögð.

Varðandi Landssmiðjuna tel ég nauðsynlegt að það komi fram, að að minni tillögu samþykkti ríkisstj., líklega í nóv. s.l., að setja á fót vinnuhóp til að athuga um húsnæðismál þess fyrirtækis og gera tillögur um endurbætur þar á. Sá vinnuhópur hefur verið að starfi og unnið ötullega og þess er að vænta, að þaðan komi fljótlega tillögur um endurbætur á málefnum þessa fyrirtækis. Starfsmenn þess og stjórnendur hafa mikinn áhuga á þessu máli, og ég vænti þess, að þarna verði gert átak, m.a. í samvinnu við sveitarfélög hér í Reykjavík og nágrenni, þannig að unnt verði að tengja þetta myndarlega ríkisfyrirtæki, sem skilað hefur hagnaði undanfarin ár, skipasmiðamiðstöð á þessu svæði.