06.02.1979
Sameinað þing: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

333. mál, störf nefndar til að kanna framleiðslu- og þjónustustarfssemi hins opinbera

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Þar sem ein af þeim skýrslum, sem hér hefur verið gerð að umræðuefni, fellur undir dómsmrn. vil ég segja örfá orð um skýrslu n. um Bifreiðaeftirlit ríkisins. Ég fékk þá skýrslu í hendurnar nú fyrir skömmu. Skýrslan er allítarleg og margur fróðleikur í henni. Hins vegar varð ég strax var við, að því er mér fannst, alvarlegan annmarka. T.d. hafði aldrei verið leitað álits forstöðumanns Bifreiðaeftirlits ríkisins og ekki verið, að því er ég best veit, talað við þá aðila í dómsmrn. sem með þessi mál fara. Ég hef því óskað eftir áliti þess manns á till. n., og vænti ég þess, að það liggi fyrir fljótlega.

N. komst að þeirri niðurstöðu, að hefja bæri skipulegan undirbúning að því að flytja skoðunarverkefnið frá Bifreiðaeftirliti ríkisins til löggiltra verkstæða N. tók til athugunar annars vegar álit Bílgreinasambandsins og hins vegar álit hagræðingarfyrirtækis, Hannars sf. Það fyrirtæki telur að kosta muni 40 millj. kr. meira fyrir bifreiðaeigendur að láta skoða á verkstæðum. Hins vegar leggur Bílgreinasambandið áherslu á að verkefni verði að verulegum hluta flutt til verkstæðanna. Með leyfi forseta vil ég lesa úr tillögum Bílgreinasambandsins. Þar segir:

„Nefndin“ — þ.e.a.s. nefnd sú sem Bílgreinasambandið skipaði — „telur að nýtt fyrirkomulag, þar sem hluti ökutækja verði skoðaður á viðurkenndum verkstæðum, jafnframt sem starfsaðstaða Bifreiðaeftirlits ríkisins verði stórlega bætt, muni stuðla að virkara og raunverulegra eftirlit með ástandi ökutækja og þar með auknu umferðaröryggi.“

Nefndin tekur enga afstöðu til þess, hvernig þurfi að bæta aðstöðu Bifreiðaeftirlits ríkisins. Og ég vek athygli á því, að Bílgreinasambandið gerir aðeins ráð fyrir því að skoða ökutækin að hluta á verkstæðum. Eftir að ég hafði kynnt mér þessa skýrslu þótti mér því ljóst að málið væri langt frá því að vera endanlega skoðað. Vitanlega verður jafnframt að gera till. um þá aðstöðu sem Bifreiðaeftirlitið þarf að hafa til þess að geta sinnt þessu verkefni að hluta. Mér sýnist því skýrslan ákaflega ófullkomin.