06.02.1979
Sameinað þing: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

333. mál, störf nefndar til að kanna framleiðslu- og þjónustustarfssemi hins opinbera

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að þegar á mál stjórnmálamanna er hlýtt á ferðum þeirra um landið til að afla sér fylgis, sé alloft sem opinberan rekstur ber á góma og þá láti menn gjarnan í ljós þá skoðun, að haga beri málum svo, að ríkið sé ekki að vasast í of miklu, og eðlilegt sé að draga úr rekstrargjöldum ríkis og ríkisfyrirtækja og minnka umsvif hjá ríkissjóði og ríkisfyrirtækjum. Þetta er, held ég, öllum kunnugt. Ég taldi því rétt sem fjmrh. fyrrv. ríkisstj. að gera könnun á þessum atriðum, og eins og fram kom í skipunarbréfi til þeirrar n., sem hér hefur verið til umr., var henni falið að athuga hvort ýmissi framleiðslu- og þjónustustarfsemi, sem hið opinbera hefur með höndum, væri betur fyrir komið hjá einstaklingum eða samtökum þeirra, og hvort aðild ríkisins að atvinnurekstri í landinu í samkeppni við einkaaðila sé æskileg undir þeim kringumstæðum sem kanna skyldi.

Þegar þessi n. hefði lokið athugunum sínum eftir verkefnum hlaut að sjálfsögðu að verða það næsta að þær skýrslur yrðu lagðar fyrir ríkisstj., og þau rn., sem hefðu yfirstjórn viðkomandi fyrirtækja eða þjónustustarfsemi, athuguðu skýrsluna og gerðu aths. ef ástæða þætti til. Það hlaut svo að verða ákvörðunaratriði ríkisstj., hvort farið yrði að þeim till. sem þessi n. gerði. Hún var skipuð í sambandi við þau verkefni sem fjárlaga- og hagsýslustofnun eru ætluð samkv. þeirri reglugerð sem gildir um Stjórnarráð Íslands. Það verður síðan að koma í ljós, hvort till. n. hafi verið nægilega grundaðar og hvort áhugi sé fyrir því að gera þær breytingar, sem n. leggur til, og hvort menn séu þá sjálfum sér samkvæmir um að draga úr rekstrargjöldum ríkisins eða minnka umsvif ríkisfyrirtækja.