06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Forseti. Það hafa vissulega komið fram ýmis blæbrigði í málflutningi manna að því er varðar þessa samninga við Færeyinga, allt frá því að of hart hafi verið að Færeyingum gengið til hins endans, að þeir ættu ekkert að fá.

Ég mun ekki blanda mér inn í umr. um fortíðina né heldur um formsatriði. Það hefur komið fram hjá mér áður, að ég tel í sambandi við fiskveiðisamninga ástæðu til að draga úr veiðum útlendinga hér við land á þá stofnum sem eru ofnýttir, annaðhvort með því að láta vera að endurnýja í óbreyttri mynd samninga eða segja þeim upp. Í þessu sambandi minnti ég sérstaklega á samningana við Færeyinga um loðnuveiðar, þeir hefðu verið gerðir við þær aðstæður, að af nógu var að taka, en þær aðstæður hefðu breyst og því væru ekki þessar forsendur fyrir loðnuveiðum Færeyinga hér. Meining mín með þessum orðum á sínum tíma var sú stefnumörkun sem ég trúi að flestir hér séu inni á, að það þurfi að draga úr þessum veiðum eftir föngum.

Að því er varðar þá samninga, sem hér eru til umr. og eru nú til umfjöllunar, var um að ræða ósk Færeyinga um endurnýjum á samningum um loðnuveiðar. Niðurstaðan varð sú, að helmingaður var afli loðnu sem þeim var heimilað að veiða hér, en jafnframt var dregið úr sókn í annan fiskstofn ekki síður mikilvægan, þorskstofninn. Og síðast en ekki síst voru sett strangari ákvæði um það, hvernig eftirlit skyldi haft með veiðum Færeyinga hér við land. Ég tel að einmitt það, að það eftirlit hafi e.t.v. ekki verið nægilega strangt, hafi vakið tortryggni umfram það sem nauðsynlegt hafi verið meðal íslenskra sjómanna og meðal annarra Íslendinga. Þannig eru ný ákvæði í þessari bókun um það, að telji Landhelgisgæslan að fullnægjandi athugun á færeyskum skipum og veiðum þeirra hér við land geti ekki átt sér stað um borð í skipunum, þá sé þessum færeysku skipum skylt að hlíta fyrirmælum Landhelgisgæslunnar um að fara til nálægrar hafnar þar sem athugun getur farið fram. Annað nýmæli í þessa átt er að það áætlaða aflamagn, sem skipunum er ætlað að skila og hefur verið ætlað að skila tilkynningum um daglega, skuli vera sundurliðað eftir tegundum. Enn er það, að færeysku skipunum sé skylt að halda afladagbók á formi sem íslensk stjórnvöld ákveða og hún skuli sýnd Landhelgisgæslunni hvenær sem óskað er. Við heimför skulu hin færeysku skip með þriggja sólarhringa fyrirvara tilkynna um heildaraflamagn, sundurliðað eftir tegundum. Loks eru tvö ný atriði og þá það fyrst, að allur sá afli, sem landað er að lokinni veiðiferð færeysks skips sem hefur stundað veiðar í íslenskri fiskveiðilandhelgi, skuli teljast hafa verið veiddur á Íslandsmiðum. Og að síðustu, að ef íslensk stjórnvöld telji þörf, þá geti þau sent sérstakan eftirlitsmann til þess að fylgjast með löndun og aflatölum og landsstjórn Færeyinga muni sjá um að hann geti rækt slíkt starf.

Hér er þess vegna um að ræða þrennt: Það hefur verið dregið úr aflamagninu á loðnu, það hefur verið dregið úr þorskaflanum og það hefur verið tekið upp strangara eftirlit sem ætti að verða til þess að minnka tortryggni í þessu sambandi.

Auðvitað hefði ég kosið að um meiri samdrátt hefði getað verið að ræða í veiðum erlendra þjóða hér með tilliti til þeirra takmarkana, sem við setjum á okkur sjálfa. En eftir aðstæðum taldi ég rétt að gera þessa samninga.

Að því er þær umr. varðar sem farið hafa fram um Jan Mayen, þá tel ég að þar séu viðræður í gangi og það skipti ekki meginmáli hvort þær séu formlegar eða óformlegar. Ég tel að það sé augljóst, að það sé sameiginlegt hagsmunamál Norðmanna og Íslendinga að ná samkomulagi um nýtingu þessara stofna, og ég treysti utanrrh. til þess að halda fast á hagsmunum okkar í þessu sambandi.

Að því er varðar afskipti sjútvrn. af þessu máli, þá var þegar í haust að tilhlutan þess rn., að fiskimálastjóri, Már Elísson, og Jakob Jakobsson voru sendir á fund í Bergen til þess að tala okkar máli að því er varðaði loðnustofninn við Bergen. Á þeim fundi var að þeirra frumkvæði ákveðið að halda fund vísindamanna til þess að gera úttekt á þessum stofni, og sá fundur mun verða haldinn dagana 26.–27. mars n.k.

Ég tel að þarna hafi verið um eðlilegt vísindasamstarf að ræða til að undirbyggja það sameiginlega hagsmunamál sem það hlýtur að vera Íslendingum og Norðmönnum að ná samkomulagi um nýtingu stofnanna, en þó ekki síður að halda því til streitu að því er okkar hagsmuni varðar, að hér sé um hinn íslenska loðnustofn að ræða og hversu vel við liggjum við veiðum á þeim stofni.