06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs, þegar dagskrármál þetta kom fyrst til umr. í síðustu viku, til að skýra þá afstöðu sem ég hafði tekið í utanrmn., en við eigum þar sæti tveir þm. úr Sjálfstfl. og erum þar einu fulltrúar stjórnarandstöðunnar. Áður en ég vík að því efni langar mig til að fara nokkrum orðum um svör hæstv. utanrrh. við þeim spurningum sem hv. 5. þm. Norðurl. v. lagði fyrir hann áðan í framhaldi af umr. sem fram fóru í Ed. í gær.

Niðurstaða mín, eftir að hafa heyrt hæstv. utanrrh. svara ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., er sú, að við séum engu nær því en við vorum í gær að fá skýr og afdráttarlaus svör með skýringum á því, hvað hæstv. ráðh. átti við með yfirlýsingunni sem túlkuð hefur verið svo, að Jan Mayen muni eiga sérstakan rétt til efnahagslögsögu.

Það eru mér mikil vonbrigði, að hæstv. ráðh. skuli ekki gefa skýra yfirlýsingu á þann veg sem bæði mér og að ég held öllum nm. í utanrmn. virtist að væri sameiginlegt viðhorf okkar í vetur, þegar við afgreiddum þáltill. um þetta efni. Ég tek í einu og öllu undir orð formanns utanrmn. um þetta atriði. Skilningur minn við afgreiðslu þáltill. um fiskveiðilögsögu, og þá ekki síst um þá till. sem fjallaði um réttindi umhverfis Jan Mayen, var sá sem hv. formaður utanrmn. sagði einnig vera sinn skilning, að það hlyti að verða eftir till. farið og tekið til starfa í samræmi við þá niðurstöðu sem varð við meðferð þess máls í utanrmn. Ég vík dálitið nánar að því síðar.

Ég leyfi mér að víkja aftur að því, hver ég tel að hefðu átt að verða viðbrögð hæstv. utanrrh. við spurningum um efnisinnihald yfirlýsinga hans í norska sjónvarpinu. Ég tel að þau ein viðbrögð séu skynsamleg gagnvart Alþ., úr því sem komið er, að lagt sé fram orðrétt allt viðtalið sem fram fór í norska sjónvarpinu, á því máli sem það var flutt. Það ættu að vera hæg heimatökin, fyrst viðtalið var tekið upp hér á landi. Ég trúi ekki öðru en hæstv. utanrrh. hafi verið svo fyrirhyggjusamur að eiga sjálfur eða hafa í fórum rn. eintak af viðtali um jafnmikilvægt málefni. Sé svo ekki, sem mig furðar þó á, ættu einnig að vera hæg heimatökin fyrir rn. að óska eftir þeim orðum, sem þarna voru sögð, frá norska sjónvarpinu eða jafnvel norska utanrrn., sem ég þykist vita að hafi haft vit á því að skrásetja hvert orð sem þarna var sagt. Ef það hefur ekki gert það, þá hefur áreiðanlega Norsk fiskarlag gert það, því að yfirlýsingin, sem túlka má með þeim hætti sem margir gerðu, þjónar þeim hagsmunum sem það ber fyrir brjósti og mun þá geta orðið til að aðstoða Norsk fiskarlag við að þrýsta á norsku ríkisstj.

Það er sannarlega rétt sem hæstv. utanrrh. sagði, að þær yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið um að Norðmenn muni ekkert aðhafast í sambandi við réttindi umhverfis Jan Mayen nema hafa samráð við Íslendinga, eru gefnar af hálfu norska ráðamanna, e.t.v. fyrir hönd þeirra persónulega. En hæstv. utanrrh. Íslands gefur yfirlýsingu sem skilja má sem stefnumörkun af hálfu ríkisstj. Íslands og þannig að heyra má um gjörvallan Noreg og víðar.

Hæstv. utanrrh. sagði líka aðspurður í þessum umr., að ríkisstj. væri sammála um þetta mál. Nú sýnist mér að enn þurfi frekari skýringa við. Á hæstv. utanrrh. við að hæstv. ríkisstj. sé sammála um þá yfirlýsingu sem gefin var í norska sjónvarpinu, eða á hæstv. utanrrh. við að ríkisstj. sé sammála um þetta mál í einu og öllu? Ekki veit ég það.

Hæstv. ráðh. þótti ekki óeðlilegt að ekkert sérstakt hefði verið aðhafst í framhaldi af greiðslu þáltill. um þetta efni rétt fyrir jólin, en það mætti hins vegar vera að hún yrði höfð til hliðsjónar eða leiðbeiningar. Ég vil af þessu tilefni leyfa mér að lesa orðrétt þann rökstuðning sem fullt samkomulag var um að fylgdi þegar þetta mál var afgreitt í Sþ. rétt fyrir jólin. Um þennan rökstuðning var fullt samkomulag milli hæstv. utanrrh., formanns utanrmn., allra utanrmn.-manna og 1. flm. þáltill. Þessi rökstuðningur hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Upplýst hefur verið að viðræður við norsk stjórnvöld um Jan Mayen-málið séu hafnar og verði haldið áfram. Jafnframt hefur verið kunngert, að Norðmenn muni ekki grípa til einhliða aðgerða á næstunni. Nefndin leggur því til að till. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að samningaumleitunum verði haldið áfram og leitast verði við að koma í veg fyrir árekstra við Norðmenn.“

Þannig var þessi yfirlýsing. Ég skil niðurlag þessarar yfirlýsingar, þar sem segir að leitast verði við að koma í veg fyrir árekstra við Norðmenn, svo, að það þurfi ekki að þýða að við gefum yfirlýsingar sem Norðmenn geti skilið svo, að þeim sé allur réttur heimill umhverfis Jan Mayen, heldur einmitt að tryggilega sé gengið frá því, að þessi atriði séu leyst í fullu samkomulagi við okkur. Þess vegna verður ljóst að sú stefna, sem mörgum virtist koma fram í yfirlýsingu hæstv. ráðh., er ekki stefna Íslendinga.

Ég vil leyfa mér að ítreka þau tilmæli, sem ég setti fram í Ed. í gær, að hæstv. ráðh. láti fram koma á sama vettvangi og yfirlýsing hans var gefin, þ.e.a.s. í norska sjónvarpinu, afdráttarlausa skýringu og leiðréttingu á ummælunum. Ég held að það hljóti að þjóna hagsmunum bæði Íslands og líka Norðmanna, ef þeir vilja ná sæmilegu samkomulagi við Íslendinga og frændþjóðir sínar í norðurhöfum, og ekki ætla ég norskum stjórnmálamönnum annað yfirleitt. Hitt er líka ljóst og það þekkja hv. alþm., að það getur verið mjög erfitt að standa gegn ásókn mikilvægra þrýstihópa í mikilvægum atvinnuvegi sem sjávarútvegi í þessu máli. Það hljóta menn að sjá. Þess vegna er ljóst hver hætta er á ferðum ef yfirlýsing með leiðréttingu kemur ekki fram eins fljótt og unnt er.

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fjölyrða sérstaklega um þetta mál, þó að margt í því sé vissulega þess virði. Ég vil aðeins ítreka það, að þrátt fyrir þann misskilning, sem upp hefur komið varðandi þetta mál, ber ég fyllsta traust til hæstv. utanrrh., að hann hafi það sjónarmið í þessu efni sem við treystum þegar við afgreiddum þáltill. Ég skil að hæstv. ráðh. þyki leitt að orð hans hafa verið misskilin, en þeim mun eðlilegra er þá að hann komi sem allra fyrst afdráttarlausri leiðréttingu á framfæri, bæði gagnvart Alþ. og gagnvart Norðmönnum.

Herra forseti. Ég kem nú að sjálfu dagskrárefninu, þáltill. um staðfestingu á niðurstöðu viðræðna um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga.

Það hefur nú um alllangan tíma komið fram í ýmsum fjölmiðlum, að þm. hafi verið spurðir um afstöðu sína til þessa máls. Það hefur mikið verið rætt um málsmeðferð í utanrmn. Ég sé ástæðu til þess sem annar sjálfstæðismaðurinn í þeirri n. að lýsa yfir þeirri afstöðu minni, að ég styð eindregið samninga við Færeyinga að þessu leyti. Ég hefði haldið að kvóti þeirra yrði stærri, og rök mín fyrir þessari afstöðu eru ekki einungis tilfinningalegs eðlis, heldur einnig, að því er ég tel, pólitískt skynsamleg rök. Fyrir því vil ég nú reyna að gera nokkra grein. Áður en ég kem að þeirri grg. vil ég samt víkja að þeim atriðum sem fram hafa komið í máli hv. þm. um vinnubrögðin í þessu máli.

Ég get ekki tekið eins harkalega undir þá gagnrýni, sem fram hefur komið hjá ýmsum hv. þm., og e.t.v. mætti ætla. Mér finnst þvert á móti að hæstv. ráðh. hafi haft að flestu leyti eðlilegan hátt á, gagnvart utanrmn. a.m.k. Fyrir því var gerð grein í utanrmn. í desember, að von væri á Færeyingum hingað til lands til þess að ræða um framlengingu á veiðiheimildum Færeyinga að því er varðar loðnuveiðar. Þess var farið á leit, að meðlimir utanrmn. ræddu þetta mál í flokkum sínum. Það er mála sannast, eins og komið hefur fram og hv. þm. skilja, að til þess var einfaldlega ekki tími fyrir þinghlé. Svo mörg mál voru á dagskrá þingflokkafundanna að utandagskrármál, þótt mikilvægt væri eins og þetta, komst þar ekki að til neinnar umr.

Síðar lá það fyrir, að Færeyingar mundu fresta komu sinni, en fram kom skömmu eftir áramótin að þeir væru væntanlegir. Hvenær var það? 8. janúar eða svo. Þá var boðaður, nokkrum dögum áður, fundur í utanrmn. Við stjórnarandstæðingar í n. brugðumst þannig við, að við höfðum samráð okkar í milli og ákváðum að haga störfum okkar þannig að við reyndum hvort um sig að ná tali af þeim þm. í okkar flokki sem við hefðum tækifæri til. Ef við hefðum orðið vör við verulegan ágreining, þá hefði það vitanlega komið fram og við gert grein fyrir því, að við slík vandamál væri að etja í okkar flokki. Svo var ekki.

Við gátum því miður ekki komið því við að hafa samband við alla þm. flokks okkar, en afstaða okkar — ég geri grein fyrir afstöðu minni a.m.k. — var sú, að það væri að ganga til samningaviðræðna við Færeyinga. Að vísu höfðum við ekki mikil gögn í höndunum um þetta atriði. Við höfðum ekki upplýsingar að heitið gæti um ástand þeirra fiskstofna, sem samningurinn tók til, og fleiri atriði, sem til greina hefði komið að athuga í samningaviðræðum, höfðum við ekki í höndum. Engu síður töldum við ljóst í n., að unnt væri að ræða málið og sýna samningsvilja. Töldum við sum, og ég var meðal þeirra, að við ættum að sýna mikið frjálslyndi — ef ég má orða það svo — í samningaviðræðum við Færeyinga, við reyndum að forðast einstrengingslega afstöðu í samningaviðræðum gagnvart þeirri þjóð. Í fyrsta lagi vorum við að semja við frænd- og vinaþjóð, nágranna okkar. Í öðru lagi vorum við að semja við þjóð sem er mjög fámenn og byggir afkomu sína í enn þá ríkari mæli en við á fiskveiðum. Séum við háð fiskveiðum, þá eru Færeyingar það enn meira.

Við lítum svo á, — ég bið hæstv. forseta velvirðingar á því að ég sagði „við“ og stóð þá sjálfa mig að því að vera farin að skýra frá afstöðu fleiri manna í n., það ætlaði ég ekki að gera, — ég leit svo á, að það yrði leitast við svo sem fært var að tryggja okkur fiskveiðiréttindi á móti. Þar var um að ræða kolmunnann, sem Færeyingar kalla því glæsilega nafni svartkjaft. Það var ekki einungis um að ræða svartkjaftinn, það er held ég ljóst. Sagt er mér af fiskifróðum mönnum, að ýmsar fleiri fisktegundir syndi í hafinu umhverfis Færeyjar, og væri með ólíkindum ef svo væri ekki. Þess vegna spurðist ég fyrir um það, hvort tök væru á að athuga um hugsanleg réttindi okkar til veiða á öðrum tegundum, hvort jafnvel kynni að vera um að ræða á þessum slóðum verðmæta tegund, djúprækju eða eitthvað slíkt. Ég vil treysta því að leitast hafi verið við að athuga um möguleika á réttindum til veiða á öðrum tegundum og það hafi einfaldlega af einhverjum ástæðum ekki fengist, enda var þarna um að ræða að við minnkuðum kvóta Færeyinga á loðnuveiðum í helming þess sem hann var áður.

Þessi tvö atriði, samningaviljinn gagnvart frændum og vinum, íbúum smáríkis, og hins vegar hugsanleg fiskveiðiréttindi okkar, eru í sjálfu sér mikilvæg rök. Í þriðja lagi eru mikilvæg rök sem við megum ekki gleyma einfaldlega pólitísk rök með tilliti til samslunginna hagsmuna þessara ríkja. Þetta ríki og önnur ríki, sem byggja afkomu sína á fiskveiðum í Norðurhöfum, nágrannar okkar og vinir, t.d. Grænlendingar, öll hafa þessi ríki svo samslungna hagsmuni einmitt að þessu leyti að við hljótum að sýna mikinn vilja til þess að semja við þau, styðja þau í lífsbaráttu þeirra, eins og við ætlumst til að okkur sé sýnd sanngirni af öðrum þjóðum sem stærri eru. Þess vegna finnst mér hljóma svolítið skringilega þegar menn tala um það sem einbera greiðasemi að við gengum til samninga við Færeyinga. Við skulum vera svo hreinskilin að viðurkenna að samningar eru líka í þágu okkar að þessu leyti. Það styrkir ekki stöðu okkar í samningum við stærri þjóðir að hafa nýlega komið frá samningaborði við miklu minni þjóð og miklu háðari fiskveiðum en við erum, búnir að svipta þá þjóð öllum heimildum til veiða í lögsögu okkar.

Í fjórða lagi hljótum við að taka tillit til fiskifræðilegra raka. Annað væri ekki í samræmi við hagsmuni þeirra ríkja sem hlut eiga að máli. Það hlýtur að vera í samræmi við hagsmuni bæði Íslendinga og Færeyinga að taka tillit til fiskifræðilegra raka, a.m.k. þegar nokkuð líður frá. En eins og ég skýrði frá áðan lágu ekki fyrir n. sérstök gögn um þessa hlið málsins. Því var það, að ég tók þá afstöðu að lýsa þessum rökum og einnig þeirri skoðun minni eindreginni, að okkur bæri að ganga til samninga við Færeyinga og á sig væri töluvert leggjandi til að ná við þá samningum og ganga eins langt og við mögulega teldum okkar geta til þess að veita þeim veiðiheimildir. Mér er ljóst að margir hafa það við þessa afstöðu að athuga, að slíkir samningar gefi fordæmi um samninga við aðrar þjóðir. Ég er á annarri skoðun. Mér finnst þvert á móti að sérstaða Færeyinga sé slík að samningar við þá gefi ekki fordæmi. Hvernig ætti það líka að geta verið fordæmi gagnvart öðrum þjóðum hvað við gerum sjálf, fullvalda þjóð, í samningum okkar við annað ríki? Vitanlega ráðum við því sjálf, hvað við gerum við auðlindir okkar og hvernig við ákveðum að nýta megi þær. Engin önnur þjóð hefur rétt til þess að vísa til þess sem einhvers fordæmis hvað við veitum einni þjóð. Við erum sjálfstætt ríki og ráðum þessu sjálf.

Ég leyfi mér að víkja aðeins að nokkrum ummælum, sem komið hafa fram í ræðum hv. þm. Þótt ræður þeirra hafi verið bæði langar og fróðlegar og að sumu leyti skringilegar sumar hverjar var það aðeins lítið eitt sem ég festi á blað.

Vil ég þá fyrst víkja að ræðu þess fræga manns í sjávarútvegsmálum, hv. 1. þm. Austurl. Hv. þm. átti ekki orð til að lýsa hneykslun sinni yfir vinnubrögðunum. Um það atriði hef ég þegar fjallað og er út af fyrir sig ekkert sérstaklega hneyksluð á þeim. Þó tel ég að það hefði verið til bóta ef haft hefði verið samráð einnig við sjútvn., þótt það sé engan veginn skylt, mér er það ljóst, en ég tel að það hefði verið skynsamlegt. Ég tel líka að skynsamlegt hefði verið að veita talsmönnum fleiri flokka tækifæri til að ræða við Færeyinga, þó ekki væri nema til að varpa ljósi á þá aðstöðu, sem þessi litla þjóð hefur, og átta sig á því, hvernig hagsmunir okkar tvinnast saman.

Hv. 1. þm. Austurl. sagði, þegar hann fjallaði um afstöðu til þess að ræða við frændþjóð og vinaþjóð, smáþjóð sem Færeyinga: Þá reisa menn ekki höfuðið ýkjahátt. Þá þurfa menn alltaf að sýna svo mikla sanngirni. Þetta eru frændur okkar og vinir. — Því miður er mér ekki eins lagið og sumum öðrum hv. þm. að leika hv. 1. þm. Austurl. Ekki er það Alþ. einungis til skammar, að fyrrv. sjútvrh. Íslands hæðist að því að sýnd skuli sanngirni frændum okkar og vinum. Ég tel að það veiki stöðu Íslendinga í samningum gagnvart öðrum þjóðum. Til hvers ætluðumst við íslendingar í allri baráttu okkar fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar? Við ætluðumst til að aðrar þjóðir sýndu okkur sanngirni, bæði frændur okkar og vinir svo og aðrar þjóðir. En við nánustu frændur okkar og vini þykir hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, fyrrv. sjútvrh., rétt að koma fram með þeim hætti að hæðast einfaldlega að því að stigið sé skrefi lengra í samningum til að veita þeim réttindi heldur en gagnvart öðrum þjóðum.

Hv. þm. Alþb., nánar tiltekið hæstv. viðskrh., lýsti einnig yfir atriði sem varpaði afar sérkennilegu ljósi á meðferð þessa máls. Hæstv. ráðh. lýsti því yfir skýrt og skorinort, að þessi samningur um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir hefði ekki enn þá verið borinn upp í ríkisstj. né heldur sú þáltill. sem liggur fyrir þinginu. Nú er ég ekki kunnug heimilishögum hjá hæstv. ríkisstj., en einkennilegt þykir mér að það skuli ekki vera borið upp eða skýrt frá a.m.k. svo mikilvægum þskj. sem þessu. Ég veit ekki til að það sé skylt eftir lögum landsins, en vegna almennrar reglu á heimilinu og sæmilegs samkomulags þætti mér það afar eðlilegt. Ég skil ósköp vel, þótt ég skilji oft ekki þennan hæstv. ráðh., að hann sé bæði sár og hneykslaður á vinnubrögðum þessum út af fyrir sig. En þetta er atriði sem varðar meðferð málsins í ríkisstj. og er náttúrlega fyrst og fremst áhyggjuefni þeirra sem þar sitja, og ég ætla ekki að blanda mér í það atriði efnislega.

Hæstv. viðskrh. benti líka á annað atriði sem honum þótti ámælisvert, og það var að Alþb. sem slíku, eins og hann sagði, var aldrei gefinn kostur á fulltrúa í viðræðunum við Færeyinga. Nú má vel vera að það sé heldur engin skylda að Alþb. fái fulltrúa í viðræðunefnd. Hitt er annað, að óneitanlega er eðlileg ósk að fulltrúi þess flokks sem og annarra þingflokka hefði átt kost á að ræða við Færeyingana með einu móti eða öðru. Ég veit ekki hvort þetta kann að stafa af því, að vitað var að mjög skiptar skoðanir voru í Alþb. um þetta efni.

Það hefur komið fram í afstöðu til annarra mála, hve slæm samviska Alþb. er vegna þessarar afstöðu. Þó að hv. þm. hafi auðvitað fyrst og fremst áhyggjur af eigin afstöðu, þá finnst mér ósköp eðlilegt að það snerti samvisku þeirra ef formaður flokks þeirra hefur svo lítilmótlega afstöðu sem hv. 1. þm. Austurl. lét í ljós. Ég held nefnilega að andstæðingar mínir í Alþb. séu margir hverjir alls ekki eins smásmugulegir í hugsun og kom fram í þessari afstöðu. Afstaða þeirra til þessa máls, einhverra a.m.k., er að ég held bæði ögn höfðinglegri og skynsamlegri. En samviska flokksins er slæm að þessu leyti. Það kom í ljós m.a. þegar hv. 1. þm. Vestf., einnig fyrrv. sjútvrh., hélt ræðu um þetta mál á fundinum í fyrri viku. Hv. 3. landsk. þm., Ólafur Ragnar Grímsson, greip þá allt í einu fram í fyrir hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni. Nú er ekkert nýtt að einn og einn þm. grípi fram í, en það, sem hann spurði um, var þetta: Þegar hv. 1. þm. Vestf. hafði lýst yfir að hann væri mjög hliðhollur og vinveittur vinaþjóð okkar Færeyingum, þá hrópaði hv. þm. úr sæti sínu: „Vill hv. þm. styðja aðild Færeyinga að Norðurlandaráði?“ Hvernig Alþb.-menn sumir hverjir blása það mál út að ýmsu leyti á þann veg að misskiljast megi afstaða annarra þm., sýnir svo ljóst sem verða má, að það er gert til þess að reyna að breiða yfir samviskubitið og hneisuna sem þeir telja sig hafa orðið fyrir vegna hinna ómyndarlegu og óskynsamlegu afstöðu formanns flokksins og fleiri þm. hans að vilja alls ekki sinna — (Gripið fram í: Þeir eru ekki enn þá búnir að tala.) Ég veit það. Ég er svo bjartsýn satt að segja, að mér dettur ekki annað í hug en að hv. 4. þm. Vesturl. hafi bæði skynsamlegri afstöðu og myndarlegri en hv. formaður flokksins. (Gripið fram í.) Já, enda sagði ég aldrei nema sumir, ég sagði aldrei allir. Á þessu var sá fyrirvari.

Hvað sem því líður finnst mér afar skiljanlegt að þessum flokki líði ekki rétt vel í sambandi við þetta mál. Svo mikið höfum við rætt um lífshagsmuni af fiskveiðum, að þegar að lífshagsmunum þessarar vinaþjóðar og frændþjóðar okkar kemur er okkur ekki alveg sama, — þeir geti etið sína fáu fiska, en látið okkar fiska í friði, og okkur sé alveg sama hvort þeir geti e.t.v. fengið einhverja mola af borðum Efnahagsbandalagsins eða eitthvað slíkt. Þetta er afstaða margra Alþb.-manna, sem kom afskaplega vel í ljós þegar hv. þm. Garðar Sigurðsson flutti ræðu í dag. Þá sagði hv. þm. skýrt og skorinort: Það er ekki um samninga að ræða við Færeyinga, heldur að við höfum gefið Færeyingum þennan'afla. Við höfum gefið þeim nokkra milljarða. Og færeyska sendinefndin kom ekki hingað til samningaviðræðna, sagði hv. þm., heldur til þess að taka við tilkynningu um hve mikið við ætluðum að gefa þeim af því sem við megum ekki missa. Ég er hrædd um að einhvern tíma hefði það þótt á Íslandi vera nokkuð meira en bara aðsjálni eða ráðdeildarsemi sem birtist í þessum orðum. Ég er hrædd um að þetta hefði þótt heldur ómyndarlegt og kallast hrein níska.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði um þá aðila, sem undrast og hneykslast á þeirri afstöðu, sem hann hefur til þessa máls, og þeirri afstöðu sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur til þessa máls, að slíkt fólk ætti ekki að leyfa sér að fjalla um sérfræðileg efni. Mér finnst verst að hann er ekki hér nærri enda lætur hann sér vafalaust fátt um finnast þegar hér er 5. þm. Reykv. að fjalla um sérfræðileg efni tveggja Alþb.-manna a.m.k. En ef það er að fjalla um sérfræðileg efni að hafa einhverja afstöðu í máli sem þessu, hvað er þá um afstöðu allrar íslensku þjóðarinnar í málefni sem landhelgismálinu á sínum tíma og þeirri baráttu sem háð var til þess að færa út fiskveiðilögsöguna? Það er nefnilega svo, að hjá þjóð, þar sem hver einstaklingur byggir afkomu sína með beinum eða óbeinum hætti á sjávarafla, er ekki verið að fjalla um sérfræðileg efni þó að borgarar, sem vinna við eitt og annað, láti sig þau mál einhverju skipta og hafi á þeim skoðanir. Jafnvel þótt þeir hv. þm., sem sjálfir hafa verið við að afla fisksins, telji sig mikla sérfræðinga á þessu sviði, þá get ég sagt hv. þm. það, að stundum hvarflar að mér að hér kunni að vera einhverjir þm. sem e.t.v. hafi oftar unnið matvæli úr þessum sjávarafla en margir aðrir þm. Nú bið ég hv. þm. að halda ekki að ég ætli að fara að gefa uppskriftir af fiskréttum, það ætla ég ekki að gera. Ég veit að svo margir hv. þm. vilja ræða þetta mál að ég mun ekki taka frekari tíma fundarins til að lýsa afstöðu minni. En ég vil mótmæla þeim skilningi, sem fram kemur, hvaðan sem hann kemur, að hvaða þm. sem er og hvaða Íslendingur sem er hafi ekki fyllsta rétt til að hafa afstöðu í þessu máli og segja hana hverjum sem er. Og svo að ég ítreki það sem ég byrjaði á: Það þarf enginn Íslendingur frekar að segja afstöðu sína til fiskveiðiréttarmála en sjálfur hæstv. utanrrh. landsins. Og það bið ég hann að gera, svo að jafnmargir Norðmenn megi heyra og heyrðu í honum í sjónvarpinu um daginn og að Alþingi Íslendinga fái í hendur skjal, þar sem skráð er hvert einasta orð sem sagt var í viðtalinu við norska sjónvarpið um daginn um réttindin við Jan Mayen.