26.10.1978
Sameinað þing: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

5. mál, iðngarðar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að segja hér nokkur orð í sambandi við þessa þáltill. og greina frá þeirri afstöðu minni, að ég tel að hún sé góðra gjalda verð og það mál sem hún reifar. Ég vil einnig greina frá því, að á vegum iðnrn. er nú unnið að athugun þessa máls og að samstarfsnefnd um iðnþróun, sem rn. hefur nýlega skipað, hefur fengið þetta mál til meðferðar ásamt ýmsum fleiri þáttum er iðnþróun varða. Ég vænti þess, að þessi n. muni áður en mjög langt líður taka á þessu máli og skila till. til iðnrn. um það, á hvern hátt best verði ráðist í þetta mikilsverða hagsmunamál fyrir iðnaðinn, sem ekki varðar minnst möguleika á uppbyggingu iðnaðar úti um hinar dreifðu byggðir landsins. Svo vill til, að í samstarfsnefnd um iðnþróun hafa valist menn sem eru starfandi eða mega teljast fulltrúar eða tengiliðir við þær stofnanir sem þáltill. gerir ráð fyrir.

Ég vildi að þetta kæmi fram við þessa umr. og að þetta mál á fullan stuðning í iðnrn. Ég tel að það sé frekar til að ýta undir málið, að það er komið til umr. á Alþingi með flutningi þessarar tillögu.