06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þeim er ekki fisjað saman sem geta haldið 50 mínútna ræðu við þær aðstæður sem ríkja í þessum sal núna, þar sem blasa við tómir stólar, en þeir sem ekki eru tómir eru að vísu vel mannaðir. Mér telst til að hér séu staddir 13 þm. og af þeim 6 Alþb.-menn. Hér er m.ö.o. fámennt, góðmennt og notalegt, og hvað það snertir kannske einmitt fundurinn til þess að tala í 50 mínútur eða 45 a.m.k. En ég er ekki viss um að ég geri það. Ég læt í ljós um leið viðurkenningu á flestu því sem síðasti ræðumaður sagði, ég tek undir allt sem hann sagði, og aðdáun mín er þeim mun meiri sem ég verð að játa að þetta var hin ágætasta ræða flutt við þessar aðstæður. Ég bæti því við, að þetta gerist meira að segja þegar ekki eru viðstaddir nema tveir menn í blaðamannastúku. Að vísu eru það tveir af virðulegustu fulltrúum heimspressunnar, þ.e.a.s. fréttaritarar Morgunblaðsins og Þjóðviljans.

En snúum okkur að því efni sem hér er til umr., samkomulagi við Færeyinga, staðfestingu á því í þáltill.

Ég átti því láni að fagna árið 1956 að vera vikutíma síðsumars á færeyskri skútu, og ætli ég hafi ekki þá fyrst lært að meta Færeyinga verulega. Ég kynntist þeim ekki verulega fyrr en þá, þó að við, sem ólumst upp í sjávarplássunum, fylgdumst að vísu nokkuð með þessum þöglu, friðsömu mönnum sem gengu um götur í sínum þykku peysum með hendur í vösum. Stundum heyrðist að vísu svolítið til þeirra. Það var þegar þeir dönsuðu heilar nætur á bryggjunum. En það var ekki fyrr en þetta sem ég kynntist þeim og síðan er mér mjög hlýtt til Færeyinga. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim.

Árið 1956 er þannig ástatt með útgerð þeirra að þeir eru enn með hátt í 100 kúttera á Íslandsmiðum og veiðarfæri og allt líf um borð með þeim hætti, að það er eins og maður sé staddur í eigin persónu í einhverju merkasta fræðiriti um sjómennsku sem skrifað hefur verið á íslensku. Ég er hér að tala um Skútuöldina eftir Gils Guðmundsson. Færeyingar voru þá enn í skútuöldinni að svona miklu leyti og voru reyndar með skútur sem við Íslendingar höfðum átt fyrr. Ég man eftir Guðrúnu Zoëga, Keflavíkinni og Sigurfara sem nú er kominn upp á Skaga.

Nokkuð var liðið á veiðiferðina og þess vegna komin góð ballest í skipið, nokkrir tugir tonna af ágætis saltfiski. Þó þótti mér miklu meira um þá manneskjulegu ballest sem var um borð í þessu skipi. En hvaða fólk var það? Helmingur skipshafnarinnar voru strákar á aldrinum 14–16 ára, rúmlega fermdir. Síðan kom gríðarlega stórt kynslóðabil og hinn helmingurinn af skipshöfninni voru menn á sextugsaldri og þar yfir. Hvernig stóð á þessu? Ástæðan var sú, að blómi færeyskrar sjómannastéttar var þá á íslenskum fiskiskipum. Helsta ástæðan var sú. Íslensk fiskiskip voru á þessum tíma að miklu leyti mönnuð Færeyingum. Þetta var á sama tíma og vinnufærir Íslendingar, Íslendingar á besta skeiði flykktust til vinnu í bandarísku herstöðinni á Miðnesheiði. Og mætti það verða nokkurt umhugsunarefni, hvernig farið hefði fyrir útgerð okkar á þessum árum ef ekki hefði verið upp á að hlaupa okkar ágætu frændur, Færeyinga. Nú er orðin á þessu mikil breyting, eins og við vitum, Færeyingar komnir fram úr okkar að ýmsu leyti í útgerð og þá ekki síður fiskverkun. Ég óska þeim til hamingju með það. Ég gæti tínt til margt fleira, en þetta tvennt, kynni mín af þeim þarna á kútternum og hvernig þeir reyndust okkur þegar við vorum ekki sjálfir menn til þess að manna skip okkar, veldur því að ég tel mig a.m.k. sem Íslending standa í mikilli þakkarskuld við þá. En eins og ég sagði kemur ótalmargt fleira til.

Færeyingar eru háttvísir menn, kurteisir mjög, miklu kurteisari og háttvísari en við Íslendingar. Mér er t.d. minnisstætt af þessari skútu, þar sem aðstæður voru svona og svona, eins og gefur að skilja, að aldrei létu þeir vanta kveðju — sjálfsagða kveðju, þegar þeir komu niður í lúkarinn til að matast, sögðu þá við þá sem þar voru fyrir: „Vel gagnist.“ Þetta merkir það sama og við segjum á máli sem minnir ofurlítið á danska undanrennu: Verði ykkur að góðu. Færeyingar segja hreint og klárt og hressilega: Vel gagnist, og þeim láist það aldrei. Og ég vil fyrir mitt leyti í sambandi við þetta samkomulag segja við Færeyinga: Vel gagnist.

Ég ætla að víkja nokkrum orðum að öðrum þætti þeirrar umr. sem hefur staðið nú nokkuð lengi, en það er sá þátturinn sem snertir eyjuna Jan Mayen og hvort Norðmenn eigi þar einhvern rétt eða engan rétt eða mjög takmarkaðan rétt.

Ég tel eins og margir aðrir ræðumenn, að hæstv. utanrrh. eigi enn eftir að taka af öll tvímæli varðandi það sem hann hefur sagt að ekki hafi verið rétt eftir sér haft í norska sjónvarpinu um daginn. Það vantar skýrari og ákveðnari yfirlýsingu af hans hálfu um það mál. Ég er tilbúinn eins og flestir aðrir ræðumenn að gera ráð fyrir því að rangt hafi verið eftir honum haft, en við verðum að fá það staðfest með einhverjum hætti. Það er ekki hægt að una við það, að Norðmenn sitji uppi með þann skilning sem þeir hafa eftir þá túlkun sem norska sjónvarpið gaf þeim á ummælum utanrrh.

Mér þótti hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flytja hér ágæta ræðu í dag. Í henni voru margar mjög svo athyglisverðar upplýsingar og sönnuðu að þessi ágæti þm. hafði gefið mikinn gaum að þessu máli sem snertir Jan Mayen, réttindi okkar annars vegar og Norðmanna hins vegar. Ég held að ég geti tekið undir flest það sem hann sagði í þessari ræðu. Í því sambandi verð ég sem stjórnarþm. að láta í ljós undrun mína, ef ég hef skilið hæstv. utanrrh. rétt í dag er ég skaut fram spurningu til hans: Er samkomulag í ríkisstj. um þau vinnubrögð sem þarna eru viðhöfð? Þá átti ég við þau vinnubrögð hans að ræða persónulega eða láta pótintáta sína ræða persónulega við einhverja Norðmenn um stefnu þeirra í þessum efnum. Ef samkomulag er um slík vinnubrögð í ríkisstj., þá verð ég að láta í ljós undrun mína, þá er þessi ríkisstj. miklu sósíaldemókratískari en ég hafði gert ráð fyrir og úr hófi fram. Ég læt mér ekki nægja það sem stjórnarþm., að íslenskur sósíaldemókrat fari og rabbi við norska sósíaldemókrata um þetta. Ég sé enga tryggingu í þeim yfirlýsingum sem hann gefur hér um vilja þeirra í þessu efni. Ég sé enga tryggingu í því sem kann að vera að gerast bak við hurðir á hinu sósíaldemókratíska kærleiksheimili í Skandinavíu varðandi þetta stórmál. Ég verð að fá skýrari upplýsingar um þetta og ég vil fá ákveðnari og hreinni vinnubrögð og nánara samstarf í þessu máli.

Að sjálfsögðu tek ég undir fordæmingu manna varðandi þau vinnubrögð sem hæstv. utanrrh. beitti þegar Færeyingarnir komu hingað til þess að tala við okkur. Þá voru allt í einu komin ný vinnubrögð til skjalanna, meira að segja ný vinnubrögð að því er varðar sósíaldemókratískan utanrrh., því að Emil Jónsson innleiddi í sinni tíð ýmislegt sem var mjög svo til bóta að því er varðaði samstarf flokka á Alþ. í stórmálum. Þökk sé honum fyrir það og mætti núv. hæstv. utanrrh. taka hann sér til fyrirmyndar að ýmsu leyti.

Þetta vildi ég sagt hafa og svo að lokum fáein orð út af góðri setningu sem hraut af vörum hv. þm. Eyjólfs Konráðs í ágætri ræðu hans í dag, þar sem hann sagði: Við eigum að taka höndum saman við Færeyinga og Grænlendinga. — Hann var búinn að vekja athygli á því þá, að þetta dýrmæta svæði í Norður-Atlantshafi, sem við erum að ræða um, verður komið undir lögsögu þessara þriggja þjóða með vorinu, þegar Grænlendingar fá sína heimastjórn. Þá verður við okkur sjálfa að eiga og þessar tvær þjóðir varðandi ýmsar ráðstafanir á þessu svæði. Og Eyjólfur Konráð sagði: Auðvitað eigum við að taka höndum saman og friða þetta svæði. — Hann sagði enn fremur, og ég var mjög feginn að heyra það: Það vakir ekki fyrir mér að við förum endilega að bora eftir olíu eða gasi í djöfulmóð, — ekki held ég að hann hafi notað orðið „djöfulmóð“, en það var það sem hann átti við, — en við skulum endilega gera það sem við getum til þess að ná yfirráðum yfir þessu svæði til þess að koma í veg fyrir að hinir stóru — þar á hann náttúrlega við auðhringana — geti farið að brambolta þarna og orsaka svo og svo mikla mengun og spillingu á lífinu í sjónum. — Ég er viss um að jafnskynsamur maður og Eyjólfur Konráð gerir sér ljóst að það er fleira en þetta sem stofnar lífinu í sjónum á þessu svæði í hættu. Ef olíufélög væru komin í gang að bora þarna, þá er fjarri mér að fullyrða að það gæti ekki skaðað. En olíufélögin eru þó ekki með neitt sem er knúið kjarnorku. Jafnvel þó að við færum um borð í borpallana er ekki hætta á kjarnorkueitrun. En það getur orðið alvarleg kjarnorkueitrun, geislavirkni, ef slys verður þarna á flotaæfingum hernaðarbandalaga, og þá er ég að tala um bæði bandalögin, Varsjárbandalagið og Atlantshafsbandalagið. Ég vona að þetta, sem hv. þm. sagði í dag, boði það, að hann taki vel undir þegar að því kemur að við flytjum hér formlega tillögur um að friðlýsa þetta hafsvæði fyrir öllu hernaðarbrambolti.