06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Það er sannarlega þess virði að sitja hér og taka þátt í þessum fundi í kvöld, sérstaklega vegna þess að skemmtilegustu menn Alþb. á þingi hafa nú báðir talað hér og með þeim ágætum að það var unun að hlusta á mál þeirra, og er ekki oft sem ég tala þannig um mína blessaða vini í Alþb. (Gripið fram í: Er ekki hægt að fá það skriflegt?) Alla vega er það komið á spólu, svo að það verður ekki aftur tekið. En það er ekki aðeins það að hafa hlustað á þessa ágætu þm. Alþb. í kvöld, auk annarra að sjálfsögðu, sem gerir það ánægjulegt að taka þátt í þessum fundi, heldur þessi umr. almennt um fiskveiðimál sem færir mér heim sönnur um ákveðnar sögulegar staðreyndir sem ég ætla að rekja nokkuð

Hv. þm. Kjartan Ólafsson talaði hér áðan um sögu landhelgismála. Ég er ekki í nokkrum vafa um að sagan, þingsagan allt frá því að lýðveldið var stofnað 1944, mun sanna að það voru einkum þm. og forustumenn úr röðum Sjálfstfl. og Alþb., sem að vísu hét annað í þá tíð, sem hafa látið sig þessi mál mestu varða. Þetta er söguleg staðreynd sem bæði kemur fram í þessari umr. og einnig þegar maður horfir til fortíðarinnar. Það er einnig eftirtektarvert, hverjir sitja undir þessum umr. og hverjir hafa tekið þátt í umr. Það er ákveðin sálgreining fólgin í því ekki bara á einstaklingum, heldur líka á flokkum. Og það er sérstaklega eftirtektarvert fyrir okkur sjálfstæðismenn, sem vorum ekki sigurvegarar síðustu alþingiskosninga, að virða það fyrir okkur í þessum málum sérstaklega. Læt ég svo lokið að ræða það atriði frekar.

En hv. þm. Stefán Jónsson sem talaði hér síðast, svo að ég víki fyrst að hans máli, kom víða við. Hann sagði m.a. í ræðu sinni, að það væri ekki bara vinskapur, frændsemi og drengskapur, heldur og pólitísk nauðsyn, að við ættum að ganga til samkomulags við Færeyinga. En hann gleymdi einum þætti, sem ég held að enginn af hv. ræðumönnum hafi vikið að í þessum umr. Það er að hér er raunverulega um gagnkvæma efnahagslega hagsmuni að ræða milli Íslendinga annars vegar og Færeyinga hins vegar. Og þar standa Færeyingar sem sjálfstæð þjóð, sem sjálfstætt fólk, með ákveðið og mjög mikilsvert framlag fyrir Íslendinga. Ég mun víkja að því síðar í ræðu minni efnislega. Ég tel nauðsynlegt vegna sögunnar, vegna þeirrar umr., sem hér hefur farið fram, og vegna Færeyinga, að það atriði sé undirstrikað í þessum umr.

Um umr. almennt ætla ég að fara nokkrum orðum. Fyrst er það atriði sem hér hefur borið á góma, bæði hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni og öðrum, sem lýtur að forsögu landhelgismála og útfærslu fiskveiðilögsögu Íslands og einnig hvernig þau hafa þróast. Þá hefur nokkuð verið vikið að Efnahagsbandalaginu og Færeyingum. Ég ætla ekki að ræða um það, hverjar eru ástæður þess, að Færeyingar sjá sig knúna til þess að semja við Efnahagsbandalagið. Ég geri ráð fyrir að flestallir hv. þm. geri sér nokkra grein fyrir því, í hvaða stöðu þeir eru. Þar er örugglega ekki um samninga að ræða sem þeir gera með glöðu geði, en kringumstæður þvinga þá til að gera um stund. En ég veit og ég vona að þeir þurfi ekki á því að halda í nánustu framtíð.

Hv. þm. Stefán Jónsson vék nokkuð að því í sambandi við fiskveiðar Færeyinga, að fiskur þeirra væri betri en okkar. Það er nokkuð til í þessu. Ég vil þó ekki slá því föstu, alls ekki. Ég veit að fiskurinn frá Færeyjum er mjög góður, en við Íslendingar höfum alltaf haldið því fram og höldum því enn fram, að okkar fiskur sé bestur. Það er ekki aðeins gert af praktískum ástæðum. (Gripið fram í.) Magran fisk kannast ég nú ekki við, ég sé ekkert annað en góðan fisk. En hann vék að því, að sölusamtökin hefðu átt í erfiðleikum og ætlast örugglega til þess, hv. þm. Stefán Jónsson, að ég svari því nokkru. Hann vék að því, að á s.l. sumri muni einhver þorskur hafa farið í bræðslu og einnig að sölusamtökin hefðu átt í ákveðnum erfiðleikum vegna gallaðrar vöru vestur í Bandaríkjunum. Þetta er því miður rétt, að það hefur verið framleitt meira en góðu hófi gegnir af vöru sem ekki er söluhæf sem skyldi. Sem betur fer hefur ekki þurft að athuga meira en 200 tonn af fiskblokk. Þar með er ekki sagt að varan sé ósöluhæf. En það er meira en nóg, að gera þurfi úttekt á svona miklu magni og e.t.v. verðfella eitthvað verulega. Fyrrgreint magn er of mikið, og það hefur ekki komið fyrir, svo ég viti til, í sögu samtakanna að jafnmikið hefur reynst gallað. Ég vil ekki slá því föstu, hver er meginástæðan fyrir þessu. Án nokkurs vafa er nokkur þáttur í því, að ekki hefur verið gætt sem skyldi að menn færu með gætni í veiðarnar og veiddu í samræmi við þá möguleika sem þeir höfðu um borð í fiskiskipum til að ísa fiskinn og ganga frá honum með þeim hætti, að hann væri ekki lélegur þegar hann kæmi í vinnslustöðvar.

Ég vil svo víkja að því, sem hér hefur farið fram í umr. um Færeyjar og fiskveiðilögsögumál. Hér hefur mikið verið talað. Ég verð að segja það, að ég var dálítið undrandi yfir ræðu hv. þm. Kjartans Ólafssonar. Mér fannst umr. hér í dag og í kvöld ekki gefa tilefni til þess að fjallað væri um þessi mál með þeim hætti sem hann gerði um einsraka stjórnmálaflokka. Það er óumflýjanlegt að svara nokkrum atriðum í ræðu hv. þm. Kjartans Ólafssonar, vegna þess að mér fannst hann ekki fara nægilega rétt með sögulegar staðreyndir. Það er ekki hægt að láta því ósvarað.

Það er rétt sem hv. þm. sagði, að 1. des. 1976 hafi verið stór stund. Það var þegar bresku togararnir hurfu af Íslandsmiðum. Þetta er rétt. En það gerðist ekki af sjálfu sér, og það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að halda að svo hafi verið. Ég tel og ég held að flestir telji að það hafi verið stærsta stundin í þessu máli, og er ég ekki að gera lítið úr öðrum augnablikum, þegar reglugerðin um útfærslu íslenskrar fiskveiðilögsögu í 200 sjómílur kom til framkvæmda 15. okt. 1975, því þá var sett í gang sú atburðarás sem tryggði Íslendingum 200 mílna fiskveiðilögsögu. Það var stærsta stundin. Ég vil einnig leiðrétta annað atriði. Ég held það hljóti að vera um misskilning að ræða hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni, þegar hann fullyrðir að við hefðum ekki unnið sigur í þessu máli fyrr en aðrir voru búnir að færa út. Þetta er ekki rétt, því þegar við ákveðum sumarið 1975 að það skuli fært út í október sama ár, þá voru allar helstu fiskveiðiþjóðir Evrópu á móti 200 mílna stefnunni. Þetta er staðreynd, og ég verð að lýsa vonbrigðum yfir því, að jafnágætur maður og Kjartan Ólafsson skyldi taka á þessu máli eins og hann gerði. Ég held ég fari nú ekkert út í það að rifja sérstaklega upp þátt Sjálfstfl. í þessari útfærslu í 200 mílur. Sú saga er þjóðinni vel kunn. Ég get þó ekki látið hjá líða að minna á það, að í dagblöðum í Reykjavík birtist í ágúst 1973 yfirlýsing þess efnis, að Sjálfstfl. vildi stefna að því að færa íslenska fiskveiðilögsögu út í 200 sjómílur. Þetta var samþykkt á sameiginlegum fundi miðstjórnar og þingflokks Sjálfstfl. í ágúst 1973. Ýmsir töldu þetta óráð þá, vegna þess að þá var verið að berjast fyrir 50 sjómílunum. Var jafnvel álitið af hálfu ágætra stuðningsmanna í landhelgismálinu fyrr og síðar að það gæti haft óheppileg áhrif, en ég ætla ekki að rekja hér þá sögu.

Hins vegar verð ég einnig að minna á það, að þegar við — þá á ég við þá sem stóðu að 200 mílna útfærslunni — færðum út í 200 mílur og því verki var skilað með sigri og á því augnabliki sérstaklega sem hv. þm. Kjartan Ólafsson minntist á, 1. des. 1976, þá var ekki aðeins verið að ljúka við 200 mílna málið, heldur var einnig verið að ljúka við 50 mílna málið. Það má ekki gleyma því, að 50 mílna útfærslan var óútkljáð mál sumarið 1974 þegar vinstri stjórnin fór frá.

Í mínum huga hefur Sjálfstfl. öðrum flokkum fremur barist fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögu, en það eiga líka aðrir flokkar, og þá nefni ég sérstaklega Alþb., sína góðu kafla í fiskveiðilögsögumálum Íslendinga. Ég leyfi mér að nefna nafn eins manns úr Alþb., hv, þm. Lúðvíks Jósepssonar. Hans mun ætíð verða minnst fyrir vasklega framgöngu í 50 mílna útfærslunni og einnig 12 mílna. Við skulum hafa það sem rétt er og við skulum vera sanngjarnir. Og ég vil einnig bæta því við, að hið sama má segja um hv. þm. Geir Hallgrímsson, Matthías Bjarnason og Einar Ágústsson. Þeir stóðu sig framúrskarandi vel í sambandi við 200 mílna útfærsluna og það hvernig það mál var leyst.

En það er eitt atriði sem ég held að sé ágætt fyrir okkur að hugleiða í sambandi við Efnahagsbandalagið og 200 mílurnar. Því máli er ekki enn þá lokið. Þó Efnahagsbandalagið hafi fyrir nokkrum árum, þ.e.a.s. um áramótin 1976–1977, viljað marka þá stefnu að færa út í 200 mílur, þá er víðs fjarri að það mál sé komið í höfn hjá Efnahagsbandalagsríkjunum. Það mál er í algerri sjálfheldu og það á eftir að versna enn frekar. Nú blasir það við, að Spánverjar munu ganga í Efnahagsbandalagið innan tveggja ár. Það eykur enn meira á vanda Breta í sambandi við kröfur þeirra um að fá einhliða yfirráðarétt yfir 50 mílunum allt í kringum strendur Bretlandseyja, vegna þess að floti Spánverja er annar stærsti fiskveiðifloti Evrópu. Þessi floti mundi örugglega stefna beint á bresku miðin ef og þegar Spánverjar eru komnir í Efnahagsbandalagið. Það þýddi algera eyðingu þessara fiskimiða. Breski sjávarútvegurinn og fiskiðnaðurinn mundi ekki þola það ofan á önnur áföll.

Ég vil þá að lokum víkja að því sem var meginástæðan fyrir því að ég stóð upp og tek þátt í þessum umr., samkomulaginu við Færeyinga sem hér liggur fyrir. Ég tel að það séu margar og veigamiklar ástæður fyrir því, að gert sé samkomulag við Færeyinga sem felur í sér nokkrar veiðiheimildir innan 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar. En því hafa verið gerð svo góð skil af ýmsum ræðumönnum hér á undan og þá alveg sérstaklega forseta þingsins, Gils Guðmundssyni, að ég hef raunverulega litlu við það að bæta. Ég tel að framlag hæstv. forseta til þessa máls hafi stóraukið á virðingu Íslendinga bæði inn á við og út á við. Framkoma hans og ræða í þessu máli ber vott um reisn og manndóm og þá ekki hvað síst kemur fram í henni skilningur á því, hvernig sjálfstæðri þjóð ber að standa að málum svo sæmd sé að, hvort sem samið er við minni þjóð eða stærri.

Færeyingar eiga sannarlega í ákveðnum skilningi sögulegan rétt á því, að Íslendingar sýni þeim ákveðna tillitssemi og veiti þeim stuðning, ef þörf krefur, og mæti þeim með jákvæðu hugarfari í samningum er hafa þýðingu fyrir þá í atvinnu- og efnalegu tilliti. Hv. þm. Jónas Árnason flutti hér mjög góða ræðu um Færeyinga. Ég hef haft nokkur samskipti við þá allt frá árinu 1949. Þá kom ég fyrst til Klakksvíkur í Færeyjum á togaranum Júlí frá Hafnarfirði. Við komum þangað nokkrum sinnum það sumar til þess að taka ís, þar sem veitt var fyrir austan Ísland og ekki komið í heimahöfn, en siglt með farminn beint til Þýskalands. Dvöldumst við í Klakksvík tvo daga í hvert skipti og kynntumst heimamönnum nokkuð. Ég minnist þess ætíð hvað skipstjóri þess togara, mjög merkur skipstjóri, Benedikt Ögmundsson, sagði þá um Færeyinga. Hann hafði kynnst þeim vel á löngum sjómannsferli og hann sagði: „Færeyingar eru góðir sjómenn, þeir eru gott og heiðarlegt fólk og þeim er hægt að treysta.“ Þegar heiðvirðir og góðir íslenskir sjómenn tala þannig um aðra menn, þá hefur reynsla mín verið sú, að þeir hafa haft lög að mæla, enda höfum við Íslendingar margsinnis reynt Færeyinga að góðu.

Hv. þm. Jónas Árnason lýsti því sérstaklega vel hér áðan í ræðu sinni, en ég minni einnig á það, sem kom ekki nægilega sterkt fram, að raunverulega má segja að á sínum tíma hafi hundrúð Færeyinga bjargað íslenskri útgerð um nokkurra ára skeið.

Um það atriði, að Færeyingar hafi stutt Íslendinga vel í landhelgismálinu, vil ég bæta örlitlu við þann kafla í sögunni, því hann er þess virði að vera skráður. Það hefur ekki allt komið fram um það, hvernig Færeyingar studdu okkur í þeim efnum. Við störf mín, bæði sem þm. og einnig við útflutningsmál, hef ég kynnst þeim allnáið á síðustu árum og átt við þá mikil og góð samskipti. Ég minnist þess, að vorið 1976 var ég staddur í borginni San Diego í Kaliforníu í Bandaríkjunum á ársfundi samtaka fiskframleiðenda og fiskinnflytjenda í Bandaríkjunum. Þar voru á annað þús. manns saman komnir og þar var m.a. fjallað um landhelgismál. Á þessari ráðstefnu voru auk Bandaríkjamanna nokkrir erlendir gestir, m.a. frummælendur í einstökum málum. Ég var einn af frummælendum í landhelgismálum. Þarna voru staddir forráðamenn úr sjávarútvegi og fiskiðnaði frá helstu fiskveiðiríkjum Evrópu og þ. á m. var framkvæmdastjóri fyrirtækisins Förqja fiskasölan, Birgir Danielsen. Eftir að ég hafði flutt mitt mál sem og aðrir sem töluðu í því máli minnist ég þess sérstaklega, að Birgir Danielsen kom til mín, þakkaði mér fyrir það sem ég hafði sagt og bætti við: „Ég nota tímann hér til þess að kynna málstað Íslendinga. Ég nota minn tíma hér til þess að tala við menn um að þeir eigi að styðja Íslendinga í baráttu þeirra fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögu.“

Þessi maður og Færeyingar hafa komið víðar við sögu Íslendinga á síðustu árum, og þá kem ég að þeim kafla sem ég er sannfærður um að hv. þm. vilja gjarnan að komi fram.

Staðreyndin er sú, að allt frá árinu 1972 hafa Færeyingar verið miklu stærri þátttakendur í því að styrkja markaðsstöðu og söluaðstöðu í Bandaríkjunum heldur en margir gera sér grein fyrir, og þar á náttúrlega góði fiskurinn frá Færeyjum, sem hv. þm. Stefán Jónsson talaði um, mikinn þátt í. Það gerðist nefnilega á því ári, að Færeyingar sneru sér til Íslendinga og spurðu þá að því, hvort þeir vildu ekki annast sölu á öllum hraðfrystum sjávarafurðum fyrir frystihús Færeyinga í Bandaríkjunum. Ég sé að vinur minn, hv. þm. Garðar Sigurðsson, brosir, og ég vona að hann brosi vegna þess að þetta er með ánægjulegri viðburðum í atvinnusögu Íslendinga, að þessi þjóð, Færeyingar, sem er allra þjóða duglegust og útsjónasömust, skuli hafa snúið sér hingað til okkar með þessa ósk. (Gripið fram í.) Hv. þm. Stefán Jónsson hefur líklegast ekki hlýtt á hv. þm. Garðar Sigurðsson í dag, en ég vona að Garðar sé nú að færast nær okkur Stefáni í þessu máli og brosið bendi til þess.

En hvað sem því líður, fyrst byrjaði þetta smátt. Fyrirtækið Coldwater Seafood Corporation, sem Íslendingar eiga, hóf sölu á þessum vörum frá Færeyjum. Þetta voru nokkur hundruð tonn fyrsta árið, en á s.l. ári seldum við fyrir Færeyinga í Bandaríkjunum 8–10 þús. tonn af frystum fiskflökum og blokkum, og það voru einkum þorskur og ýsa. Þetta jafngildir 24–30 þús. tonnum af fiski upp úr sjó. Það er ekki lítið magn. Þetta er u.þ.b. 20% af öllum innkaupum Coldwater á þessari vörutegund.

Þessi fiskur frá Færeyjum, bæði með tilliti til magns og vegna þess einnig að Færeyingar eru áreiðanlegir í viðskiptum, hefur styrkt mjög söluaðstöðu Íslendinga í Bandaríkjunum. Þetta hefur tryggt aukið framboð á mjög veigamiklum fisktegundum, þorski og ýsu, og þetta hefur örugglega styrkt söluverðið meira en menn gera sér grein fyrir. Og síðast en ekki síst hefur þetta orðið til þess, að nýting á framleiðslu- og sölukerfum Íslendinga í Bandaríkjunum hefur orðið miklu betri en ella. Sem sagt, þetta samstarf Íslendinga og Færeyinga á atvinnu- og viðskiptasviði hefur skilað betri árangri bæði fyrir okkur og þá. Það er aðalatriðið.

Ég vil þess vegna segja að lokum: Ég lít ekki þannig á, þótt gert sé samkomulag við Færeyinga nú, að þar séu þeir þiggjendur vegna samkomulagsins. Það eru bæði siðferðileg sem og efnisleg rök fyrir því, að Íslendingar geri þetta samkomulag við þá. Samskipti þessara þjóða og samstarf Íslands og Færeyja byggist á gagnkvæmum hagsmunum. Þess vegna skulum við ljúka þessum umr. og ganga til samkomulags við Færeyinga án frekari umr. Það yrði okkar sómi.