06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Það er vissulega að bera í bakkafullan lækinn að fara nú undir miðnætti að halda eina ræðuna enn, ekki síst þar sem flest það, sem ég ætlaði að segja, er komið fram áður. Hins vegar hefur margt komið fram í þessum umr. sem ég held að öllum hefði verið betra að hefði verið látið kyrrt liggja, enginn hafi neitt á því grætt.

Það, sem ég vildi ræða, er eingöngu um þessa samninga við Færeyinga, og ég skoða þá vissulega fyrst og fremst frá sjónarmiði vinfengis míns við Færeyinga. Ég veit vel að það hafa verið færð fyrir því rök, að Færeyingar þyrftu ekki að sækja þennan fisk sem þeir sækja til Íslands, þeir gætu sótt hann á eigin mið. Hann er til þar, fiskurinn. En við getum varla verið svo glámskyggnir að við sjáum ekki að það er af illri nauðsyn, að Færeyingar semja við Efnahagsbandalag Evrópu um að Þjóðverjar og Bretar fái að fiska í landhelgi þeirra. Frá mínu sjónarmiði er það siðferðileg skylda okkar að hjálpa Færeyingum til sjálfstæðis gagnvart þvingunum, sem þeir verða fyrir frá Efnahagsbandalaginu, og gera þeim þá baráttu eins létta og við framast getum hjálpað þeim til. Við vitum ósköp vel að færeyskir sjómenn stunda ekki veiðar hér við Dumbshaf af því að þá langi til þess að fara á djúpmið til þess að veiða hér fiskinn. Þeir fara á lífshættuleg mið, mjög erfið, og þeir vildu örugglega sjálfir miklu frekar sækja sinn afla á Færeyjabanka og fara með hann í flakavirkin sín. Flakavirkin þeirra eru ekki nógu mörg enn þá.

Sem strákur ólst ég upp á Seyðisfirði á kreppuárunum og um alla Austfirði var allt fullt af Færeyingum. Við strákarnir vorum að þvælast þar í skútunum og við skúturnar, og það var á svipuðu stigi og nú eru kölluð dagvistarheimili hér í Reykjavík. Það var að vísu allt öðruvísi. En við vorum vinir þessara fátæku færeysku sjómanna og við vorum velkomnir vinir þeirra. Við vorum í lúkurum þeirra og átum beinakexið með þeim. Það var allt sælgætið sem þeir höfðu að bjóða. En við munum eftir þá kynningu áreiðanlega aldrei draga Færeyinga í sama dilk og aðra útlendinga, t.d. þá útlendinga sem reyndu lengst að arðræna okkur og troða á rétti okkar sem lítillar og vanmáttugrar þjóðar.

Færeyingar hafa alla þessa öld og reyndar verulega lengur stundað fiskveiðar við Ísland, ýmist á smábátum eða á skútum. Þeir sigldu með fiskinn af smábátunum okkar á stríðsárunum og fórust þá margir. Þeir mönnuðu bátaflotann okkar og togaraflotann jafnvel líka um áratugi, þegar Íslendingar fengust ekki til að fara á þau skip. Þannig höfum við haft gott af Færeyingum. Og það væri vissulega lítilmannlegt ef við núna, þegar við þykjumst ekki þurfa að hafa neitt gott af þeim lengur, spörkuðum í þá. Við eigum að vera vinir okkar gömlu vina.

Hins vegar mótmæli ég því algjörlega, að með samningum þessum, sem við erum nú að gera, séum við að gefa Færeyingum neitt. Við erum alls ekki að gefa þeim neitt. Það er ekki einu sinni að við séum að launa þeim eða borga þeim gamla skuld, það er langt frá því. Þeir bjóða okkur fisk í staðinn fyrir þann fisk sem þeir veiða.

Ég harma það nokkuð, að inn í þessa umr. um samningana við Færeyinga hafa þvælst önnur mál sem eiga ekkert skylt við þetta og hefur lítið svo út hér um tíma, að það væri verið að tefja og jafnvel eyðileggja þessa samninga sem eru of litlir fyrir frændur okkar, vini og nágranna, Færeyinga.