07.02.1979
Efri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt á þessu stigi málsins að gera stuttlega grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, en bið afsökunar á því að sumt kann að verða endurtekningar á því sem hér hefur þegar komið fram. En þar sem ég mun ekki verða langorður vona ég að menn hafi þolinmæði með því.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning tek ég fram, að ég tala hér fyrst og fremst sem einstaklingur, en ekki sem málsvari míns flokks sérstaklega.

Ég er sama sinnis og hæstv. iðnrh., að dreifingu rafmagns um strjálbýll landsins verði að hluta að leysa á samfélagslegum grunni, þ.e. að ríkisvaldið verði alfarið að kosta að hluta dreifingarkostnaðinn, og skynsamlegt sé að finna og ákveða hið fyrsta eitthvert ákveðið hlutfall ríkisins í þessu máli og síðan verði hluti skulda RARIK færður eftir því hlutfalli frá RARIK yfir á ríkið, fyrr komist RARIK ekki út úr hallarekstri sínum. Að þessu leyti er ég alveg sammála því, sem kom fram í frumræðu hæstv. iðnrh., og sömuleiðis sammála því, sem hefur komið fram í ýmsum bréfum sem okkur þm. hafa verið send í sambandi við þetta mál.

Ég er líka samþykkur þeirri skoðun, að rétt sé, a.m.k. að vissu marki, að jafna rafmagnsverð meðal íbúa landsins, en tel þó að ekki sé óeðlilegt að slíkt gerist í áföngum, t.d. að hagkvæmari rafveitur og íbúar þeirra rafveitusvæða fái um tiltekið skeið að njóta hagkvæmninnar, þótt lokamark yrði sama rafmagnsverð alls staðar á landinu. Í því tilliti tel ég ekki óeðlilegt að íbúar Reykjavíkur, Akureyrar og Akraness verði að greiða hærra verð til jöfnunar rafmagnsverði en aðrir staðir sem hafa orðið að gjalda hárra taxta lengur en við á þessum tilnefndu þéttbýlissvæðum. — Þó langar mig að skjóta hér inn í, af því að aðeins var drepið á Laxárvirkjun III og hlut ríkisins í henni, að ég veit ekki annað, og ég bið þá um að ég sé leiðréttur ef ég fer með rangt mál, en ég veit ekki annað en að ríkið hafi aldrei lagt nokkra krónu til Laxárvirkjunar, þó að það sé orðið núna stór eigandi að henni. Hins vegar ábyrgðist það lán fyrir Laxárvirkjun, en kostnaður af því láni hefur alfarið hvílt á íbúum þeirra staða sem notið hafa rafmagns frá Laxárvirkjun. Þetta langaði mig til að kæmi fram, af því að mér fannst það ekki koma fram í ræðum sem hér fóru fram á undan.

Hins vegar hef ég ekki tilfinningu fyrir því, að rétt sé að leggja verðjöfnunargjald á hlutfallslega, því þannig leggst það þyngra á þá sem rafmagnið er dýrara hjá, þ.e. þær rafveitur sem verða að selja rafmagn dýrast, þær eða íbúar, sem njóta þess, greiða hlutfallslega hæst jöfnunargjald eða segjum frekar ójöfnunargjald. Þetta finnst mér ekki réttlátt og ég væri fremur meðmæltur því, að jöfnunargjald væri öðruvísi lagt á, t.d. lagt á hverja selda kwst., og það væri ekkert óeðlilegt, að þéttbýlisbúar, sem hafa notið lægra rafmagnsverðs en strjálbýlisbúar fram að þessu, yrðu að greiða þetta gjald, en strjálbýlisbúarnir ekki.

Langskynsamlegasta gjaldheimtuformið í Jöfnunarsjóð hygg ég að væri það sem lýst var áðan af hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, að tekinn væri upp orkuskattur þar sem lagt væri á allar þessar orkueiningar eitthvert lágt tiltekið gjald á jarðhitann, rafmagnið, olíuna, allt sem við notum sem orku, og síðan væri þessi sjóður notaður til þess að jafna út og fjármagna þetta sem nú er svo eftirsóknarvert og sjálfsagt í nútímaþjóðfélagi, orkuna.

Á fjárlögum fyrir 1979 er jöfnunargjaldið áætlað 1200 millj. kr. Samband ísl. rafveitna fullyrðir að það muni verða að óbreyttu jöfnunargjaldi, þessum 13%, nær eða kannske rúmlega 1500 millj. kr. og verði þessi 19% lögð á muni jöfnunargjaldið fara upp í 2 200 millj. kr., þetta jöfnunargjald, sem er verið að leggja á, sé nær því að vera 1 milljarður en 700 millj. Það setur dálítið fótinn fyrir mig persónulega, að þarna sé verið að taka meira en verið er að segja okkur að eigi að taka. Það finnst mér heldur mæla gegn þessu. Það er eins og það sé verið að lauma inn hærra gjaldi en þó hefði kannske þurft að vera.

Niðurstaðan af þessum hugleiðingum mínum er sú enn fremur, að mér finnst ég ekki hafa öðlast tilfinningu fyrir því, að RARIK hafi aðlagað gjaldskrár sínar nægilega vel gjaldskrám þéttbýlisstaðanna sem sífellt er verið að miða við í öllum samanburði, og loks finnst mér að þessi skattur sé verðbólguhvetjandi, en það er eitt af því sem við viljum gjarnan forðast nú.

Að öllu þessu athuguðu, sem ég hef nú talið fram, verð ég að játa að á þessu stigi málsins er ég fremur neikvæður gegn þessu gjaldi, en geymi mér þó að taka lokaákvörðun uns mér finnst fyllri og betri gögn hafa verið lögð fram og málið hefur verið rannsakað ítarlega í viðkomandi nefnd.