07.02.1979
Efri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að koma inn í þessa umr. með örfáar ábendingar vegna atriða sem fram hafa komið í máli hv. þm. Mér sýnist það vera grundvallarathugasemd, sem hér er fram borin gegn gjaldinu, að það verki ekki til raunverulegrar verðjöfnunar á raforku, eins og nafnið bendir til. Ég fjallaði við umr. málsins í Nd. nokkuð um þetta og ég skal endurtaka hér ábendingar sem þar komu fram í máli mínu og fleiri manna er tóku þar þátt í umr.

Ég held að það ætti að vera hv. þm. ljóst, að mjög auðvelt er að beita gjaldheimtu sem þessari til verðjöfnunar þegar um er að ræða að innan vébanda fyrirtækjanna, sem njóta gjaldsins og það rennur til eftir þeim hlutföllum sem frv. gerir ráð fyrir, er mikill minni hluti orkukaupenda. Gjaldið er lagt sem prósenta á selda raforku hjá flestum fyrirtækjum, með undantekningum þó sem hér hafa m.a. komið fram, og þannig safna menn tiltekinni upphæð sem að miklum meiri hluta rennur til þeirra fyrirtækja sem hæsta gjaldskrá hafa. Ég tel að ekki þurfi að eyða mörgum orðum að því, svo augljóst sem það er, að slík blóðgjöf geri viðkomandi fyrirtæki léttara fyrir og hún á að gera því kleift að halda niðri verði á seldri raforku og getur auk þess mismunað þar eftir töxtum, eins og lagt er til í sambandi við þetta frv.

Það komu fram ábendingar hjá hv. þm. Braga Sigurjónssyni um það, að þessi álagning skilaði hærri útkomu en látið er að liggja og fram kemur í tölum í fjárlagafrv. Fór hann þar eftir — að ég hygg — ábendingum frá Sambandi ísl. rafveitna, sem hefur sent oftar en einu sinni gögn til þm. í tengslum við meðferð málsins hér á Alþ. Ég tel nauðsynlegt að það komi fram, að þarna er ekki verið að beita neinum bellibrögðum. En það er kannske ofureðlilegt að mönnum sjáist yfir að þær 1200 millj., sem renna til Rafmagnsveitna ríkisins, eru ekki heildargjaldið. 20% gjaldsins renna til Orkubús Vestfjarða og það eru um 300 millj. eða svo. Heildarinnheimtan er því um 1500 millj. að óbreyttu gjaldi eins og það var á síðasta ári, 13% gjaldi. Er talið að það skili 1500 millj. og 6% viðbótin um 700 millj. til viðbótar miðað við árið í heild. En nú er liðið á árið, einn mánuður og rösklega það liðinn af árinu, þannig að sú upphæð hefur þegar rýrnað nokkuð. Skipting þessa viðbótargjalds deilist í sömu hlutföllum og áður var, 80% til Rafmagnsveitnanna og 20% til Orkubús Vestfjarða, þannig að miðað við að það hefði gilt frá áramótum var hlutur Rafmagnsveitnanna áætlaður 540 millj., en Orkubús Vestfjarða 160 millj., að mig minnir.

Það er e.t.v. ástæða til að benda á og taka undir það sjónarmið sem hér hefur komið fram, að vissulega væri beinni leið til verðjöfnunar og árangursríkari að láta vera að leggja þetta verðjöfnunargjald á viðskiptavini þeirra rafveitna þar sem gjaldskrár eru hæstar fyrir, eins og hjá Rafmagnsveitunum. Og það var vissulega í mínum huga við undirbúning málsins að þetta kæmi til álita. En ég er hræddur um að viðtökur hv. alþm., sem hafa lýst sig andvíga þessu eða eru á báðum áttum um hvort þeir eigi að styðja þetta, hefðu ekki verið miklu jákvæðari ef við hefðum farið þá leið að fella niður þetta verðjöfnunargjald á þá sem hæst raforkuverð greiða fyrir. Ég hefði persónulega kosið þá leið og talið hana mjög eðlilega. En það komu fram ábendingar við undirbúning málsins um að hún mundi mæta mikilli andstöðu og ekki vera vænleg til þess að málið næði fram að ganga, og því var haldið sama hætti og áður, að leggja þetta prósentugjald jafnt á alla. Þannig gerist það sem allir, sem reikning kunna, sjá í hendi sér, að viðskiptavinir Rafmagnsveitna ríkisins greiða í krónum talið hærri upphæð fyrir hvetja kwst. en viðskiptavinir Rafmagnsveitu Reykjavíkur, svo dæmi séu tekin. En með tilfærslu innan fyrirtækisins er unnt að beita gjaldinu til verðjöfnunar og unnt að fresta gjaldskrárhækkunum sem rekstrarstaða fyrirtækisins ella kallaði á. Það er því engan veginn á rökum reist að telja að hér sé ei um gjald að ræða sem auðvelt sé að beita og hljóti að koma viðskiptavinum þeirra rafveitna til góða þar sem gjaldskrár eru hæstar fyrir.

Við athugun á hugsanlegri hækkunarþörf rafveitna í landinu, sem fram hafa farið undanfarið í tengslum við hækkanabeiðnir, hefur komið í ljós, að miðað við að frá ríkinu kæmi framlag til Rafmagnsveitnanna til að létta skuldabyrði þeirra sem næmi 600 millj. kr., eins og ráð hefur verið fyrir gert í tengslum við lánsfjáráætlun, og miðað við að verðjöfnunargjaldið verði 19%, þá ætti að vera unnt að standa gegn hækkun á hinum almennu töxtum hjá Rafmagnsveitunum. Það ætti ekki að þurfa að koma til hækkunar þeirra, en hins vegar þyrfti hækkun á heildsöluverði raforku að koma inn í þeirra reikninga, þannig að verðið stæði ekki að fullu í stað. Þetta tel ég að sýni glögglega að þær aðgerðir, sem ríkisstj. beitir sér fyrir og hefur í undirbúningi í sambandi við þetta mál, eru liður í því að jafna þann mismun sem er á raforkuverðinu. Og svo að dæmi sé tekið frekar um þetta, þá lá það fyrir, að miðað við að orðið yrði að nokkru við beiðni Landsvirkjunar um hækkun á heildsöluverði, um eitthvað 25%, sem var eitt af því sem var til athugunar, og miðað við að verð hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur hækkaði, að mig minnir, um 15%, þá hefði ekki þurft að koma til sérstakrar hækkunar á gjöldum hjá Rafmagnsveitum ríkisins umfram heildsöluverðshækkun hliðstæða því sem félli í hlut Landsvirkjunar.

Að öðru leyti vil ég segja um málið, að hér er auðvitað spurningin fyrst og fremst um það, hvernig réttlætið eigi fram að ganga, ef menn á annað borð vilja styðja það sjónarmið að eðlilegt sé að reynt sé að jafna verð á nauðþurft sem rafmagn milli landsmanna. Þetta er ein leið, og ég hef enga ástæðu til að halda því fram að hún sé sú eina eða endilega sú réttasta. Það er hér farin nokkuð troðin slóð. Ég er fylgjandi því og því meðmæltur, að við athugun á þessum málum framvegis verði leitað annarra leiða til þess að bæta stöðu Rafmagnsveitnanna. Þar er ýmislegt í gangi sem koma mun að gagni ef það kemst í höfn, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, eins og skipulagsbreyting í raforkuiðnaðinum sem tryggði sama heildsöluverð til allra landshluta. Það væri spor í rétta átt. En ég er því einnig mjög fylgjandi, eins og fram hefur komið, að ríkið sem eigandi Rafmagnsveitnanna leggi til þeirra árlegt eigandaframlag til þess að koma á móti þeim félagslegu eða óarðbæru framkvæmdum sem þeim er ert að standa í samkv. ákvörðun Alþingis.

Ég treysti því að hv. alþm. og þm. í þessari d. sjái sér fært að stuðla að framgangi þessa frv. nú og hafi það í huga, að iðnrn. er reiðubúið til þess að taka við ábendingum um aðrar leiðir, sem þeir telja farsælli til að ná fram verðjöfnun í landinu, og hafa þær til hliðsjónar við frekari athugun þessara mála.